Veldu spennandi framtíð
Í fremstu röð kvikmyndaskóla heims
Nám við Kvikmyndaskóla Íslands er einstaklingsmiðað tveggja ára nám sem opnar dyr inn í hinn ört stækkandi heim kvikmyndaiðnaðarins eða til framhaldsnáms í kvikmyndagerð erlendis.
Námið er að stærstum hluta verklegt og nemendur vinna fjölda einstaklingsverka á meðan því stendur, ásamt því að aðstoða samnemendur við sín verk.
Námið er eina alþjóðlega viðurkennda kvikmyndanámið á Íslandi. Skólinn hefur verið meðlimur í CILECT, alþjóðasamtökum fremstu kvikmyndaskóla heims frá árinu 2011.
Kynntu þér valmöguleikana
Kvikmyndaskóli Íslands býður upp á tveggja ára verklegt nám í fjórum deildum. Þannig fá nemendur að láta ljós sitt skína með því að sérhæfa sig strax á fyrsta misseri. Þó hver deild sé sérhæfð er mikið um samvinnu á milli nemenda ásamt því að allir læra grunnatriði kvikmyndagerðar.
Taktu PRÓFIÐ og finndu hvar þitt áhugasvið liggur innan kvikmyndagerðar.
Velkomin til Kvikmyndaskóla Íslands
Deild 1: Leikstjórn og framleiðsla
Lærðu að framleiða og leikstýra kvikmyndum og sjónvarpsefni. Leikstýrðu eigin myndum.
Á meðan námi stendur vinna nemendur t.d tónlistarmyndband, auglýsingu, kynningarmynd, heimildarmynd og fjórar stuttmyndir.
Deild 2: Skapandi tækni
Kvikmyndataka, klipping, hljóðvinnsla og myndbrellur. Allt í einni deild.
Á meðan námi stendur vinna nemendur t.d. kynningarmynd, heimildarmynd, 3 stuttmyndir ásamt því að vinna að fjölda mynda annarra nemenda.
Deild 3: Handrit og leikstjórn
Lærðu að skrifa allar helstu tegundir handrita og leikstýrðu eigin myndum.
Á meðan námi stendur vinna nemendur t.d. kynningarmynd, heimildarmynd, þrjár stuttmyndir ásamt því að skrifa handrit að sjónvarpsþætti og kvikmynd í fullri lengd.
Deild 4: Leiklist
Leiklist fyrir kvikmyndir. Leiktu aðalhlutverkið í þínum eigin myndum.
Á meðan námi stendur vinna nemendur t.d. kynningarmynd, leiksýningu, söngleik, 2 stuttmyndir ásamt því að leika í myndum samnemenda sinna.
Grunnur í kvikmyndagerð
Allir nemendur Kvikmyndaskóla Íslands, óháð því í hvaða deild þau stunda nám sitt, læra helstu grunnatriði kvikmyndagerðar. Þannig tryggjum við að allir útskrifaðir nemendur séu tilbúnir að fullnýta tækifærin sem þeim bjóðast í kvikmyndaiðnaðnum.
Alltaf opið fyrir umsóknir
Að hámarki eru teknir inn 12 nemendur í bekk.
Kvikmyndaskóli Íslands tekur við umsóknum allt árið um kring og geta nemendur því hafið nám sitt á annaðhvort haustmisseri eða vormisseri.
Listaskóli og sköpunarhús
Ef þú vilt láta ljós þitt skína sem víðast á sviði kvikmyndalistarinnar, þá hvetjum við þig til að skoða alla möguleika sem í boði eru og kynna þér námið við Kvikmyndaskóla Íslands betur.
Náið samband við kvikmyndaiðnaðinn
Allir kennarar og leiðbeinendur eru starfandi fagfólk í kvikmyndaiðnaðinum. KVÍ er einnig í formlegu samstarfi um starfsþjálfun við RÚV, Stöð 2, Pegasus og Saga film.
Nemendur skrifa...
Ólöf Birna Torfadóttir - Deild 3
,,Ég var búin að vinna sem sminka á nokkrum settum hjá nemendum sem voru í kvikmyndaskólanum og töluðu mjög vel um námið. Ég var lengi búin að pæla í því að skrifa mínar eigin sögur, svo rakst ég á auglýsingu á facebook frá skólanum og sótti strax um. Fyrir mér var þetta nám gríðarlega mikilvægt og kenndi mér nógu mikið til að ég hafði öll þau vopn sem þurfti til að skrifa góðar sögur og fara í það að gera bíómyndir.
Það sem kom skemmtilega á óvart var líka kennara valið, en leiðbeinendur voru nánast alltaf fólk sem er ferskt í bransanum að segja okkur og kenna okkur hvernig bransinn virkar nákvæmlega núna sem er gríðarlega mikilvægt því hann þróast hratt iðnaðurinn. Það sem kom líka á óvart var hversu mikið ég lærði af öllu, ég var á handrit og leikstjórn en í leiðinni lærði ég líka t.d. að klippa og framleiða sjálf, sem hefur hjálpað mér eftir skólann að vinna sjálfstætt að mínum eigin stuttmyndum og svo klassa druslu sem var fyrsta myndin í fullri lengd.
Eftir útskrift stofnaði ég lítið félag kvikmyndagerðarmanna sem heitir MyrkvaMyndir og saman gerðum við tvær stuttmyndir og framleiddum eina á íslandi fyrir nemanda úr the London Film School. 2019 breyttist félagið í framleiðslufyrirtæki sem framleiddi bíómyndina Hvernig á að vera klassa drusla, sem kom svo í bíó 2021 en ég skrifaði og leikstýrði myndinni.
Núna erum við aftur lögð af stað í aðra framleiðslu á mynd sem heitir Topp 10 möst og er spennandi gamanmynd í fullri lengd. Stefnum á tökur á henni í haust 2022.
- Ólöf Birna Torfadóttir, útskrifuð 2016
Leikstjóri og handritshöfundur - Hvernig á að vera klassa drusla
Óttar Ingi Þorbergsson - Deild 2
,,Ég hef alltaf einhvernvegin verið að leika mér að búa til einhverskonar myndbönd og stuttmyndir. Ég var í stuttmynda áfanga í grunnskóla og var svo í Vídeónefnd í framhaldsskóla þannig að þegar ég sá tækifærið um að fara í Kvikmyndaskólann þá stökk ég á það og sé ekki eftir því. Námið var rosa flott og ég lærði strax frekar mikið á fyrstu önninni. Fyrir mig hinsvegar þá var það besta við skólann að þetta var vettvangur sem ég gat mætt í á hverjum degi til að vera skapandi og læra nýja hluti. Þetta var staður þar sem ég hafði aðgang að búnaði, flottum kennurum og fullt af samnemendum sem ég vinn ennþá með daginn í dag.
Síðan ég útskrifaðist hef ég verið að fetja mig áfram sem tökumaður í kvikmynda- og auglýsingabransanum á Íslandi. Ég hef verið að skjóta tónlistarmyndbönd fyrir tónlistarfólk eins og Aron Can og Emmsjé Gauta. Ég er að enda við að klára stuttmynd sem ég þróaði með Fannari Birgissyni leikstjóra og svo eru fleiri verkefni í bígerð eins og mynd í fullri lengd."
- Óttar Ingi Þorbergsson, útskrifaður 2018
Tökumaður
Vivian Ólafsdóttir - Deild 4
,,Árin mín í Kvikmyndaskólanum voru mér bæði dýrmæt og góð. Ég þroskaðist fullt sem manneskja og listamaður, kynntist mikið af góðu og mjög hæfileikaríku fólki, bæði nemendum og kennurum. Ég kynntist líka eiginmanni mínum í Kvikmyndaskólanum þannig að mér þykir alveg aukalega vænt um hann og árin mín þar.
Ég hafði áhuga á leiklist en líka kvikmyndagerð og þess vegna valdi ég Kvikmyndaskólann. Ég útskrifaðist af Leiklistardeild árið 2012 og hef leikið í allskonar auglýsingum, stutt-, tónlistar-, og bíómyndum síðan þá. Einnig skrifaði ég og setti upp söngleik með unglingadeild Mosfellsbæjar árið 2013 þar sem að við blönduðum kvikmyndagerð við. Ég hef líka leikstýrt og klippt tónlistarmyndband, en mér finnst líka alveg rosa gaman að vera á bak við kameruna og leikstýra. Leiklist nýtist í allt, mér finnst persónulega að það ætti að vera kennt í skólum, t.d. á seinasta ári í framhaldskóla, þvílík gjöf inn í framtíðina! Það að kunna að brjótast úr sínum eigin kassa, ekki vera of meðvitaður um sjálfan sig og kunna að koma fram (svo eitthvað sé nefnt) eru mjög góð og í raun mikilvæg tól að hafa í lífinu. Leiklist er líkamleg og andleg og hafa margar æfingar frá skólanum orðið að daglegum hlut í mínu lífi og er ég mjög þakklát fyrir það, því þetta eru æfingar sem veita meiri vellíðan og gott ef þær lengja ekki lífið.
Ég nota leiklist á hverjum degi þó ég sé ekki að “leika”. Í dag er ég í Heilsumeistaraskólanum og sé fram á að vinna við heilsu og leiklist, það passar mjög vel saman og eru margir möguleikar i því. Námið í Kvikmyndaskólanum er gjöf sem ég gaf sjálfri mér og hefur hún margfalt borgað sig. Mig hefur langað að skrá mig í hann aftur og prófa aðra deild, en ég er á góðum stað í bili. Ég mæli heilshugar með Kvikmyndaskólanum."
- Vivian Ólafsdóttir
Leikkona - Leynilöggan (Eddu tilnefning), Vitjanir, Svörtu sandar
Sigurður Pétur - Deild 2
,,Mér fannst gaman að taka upp og klippa myndbönd og vissi ekki hvað ég ætti að gera eftir menntaskóla þannig hugsaði af hverju ekki að sækja um í Kvikmyndaskólanum?
Það sem kom mér mest á óvart var hópurinn af bæði góðum nemendum og kennurum sem tók á móti mér. Kynntist mörgum góðum samstarfsfélögum og vinum í þessum skóla og fékk alls konar sambönd. Ég vann hjá stafrænu auglýsingastofunni KIWI í eitt og hálft ár eftir útskrift en hætti síðan þar í janúar 2022 og fór að starfa sjálfstætt. Núna einbeiti ég mér mest að útivistar og ferðaverkefnum og er að elska það það! Hver veit hvað framtíðin ber í skauti sér."
- Sigurður Pétur
Teitur Magnússon - Deild 3
"Draumur um að vera viðloðandi við kvikmyndagerð var eitthvað sem byrjaði við 6-7 ára aldurinn en hafði legið í dvala frá táningsárunum. Það var svo í lok 2014 þegar ég fékk mér snjallsíma í fyrsta skipti og var ítrekað að taka upp allskonar myndbönd af samstarfsfólki mínu á lager sem ég vann á. Í einum kaffitímanum var ég manaður í að sækja um í Kvikmyndaskólann sem og ég gerði.
Námið var mjög athyglisvert, en þrátt fyrir að lengd námsins sé heldur stutt þá tel ég mig hafa fengið allt úr skólanum sem ég gat mögulega fengið á þessum 2 árum. Það sem stóð upp úr var lokaönnin, en þar fyrst fannst mér að ég hafi fengið nægan tíma í útskriftarverkefnið mitt og naut mikils stuðnings frá kvikmyndagerðarfólki úr bransanum. Það sem kom mest á óvart var tengslanetið sem myndaðist í skólanum, en ég vinn enn þann dag í dag með mikið af fólkinu sem ég kynntist í náminu.
Eftir útskrift gerði ég tvær stuttmyndir en fór svo fljótlega að skrifa handrit í fullri lengd eftir það og skrifaði nokkur í nokkurs konar æfingarskyni. Það leiddi svo fljótlega í kvikmyndina UGLUR sem ég skrifaði, leikstýrði og framleiddi. Myndin var sýnd á kvikmyndahátíðum víða og er þessa dagana í sýningu í Bíó Paradís. Í dag er ég að vinna í að koma næstu kvikmynd af stað en það er út frá handriti sem ég byrjaði að skrifa árið 2018. Einnig er ég að vinna með tveimur öðrum í að skrifa þáttaseríu.
- Teitur Magnússon
Handritshöfundur, leikstjóri og framleiðandi - Uglur
Hjördís Rósa Ernisdóttir - Deild 1
,,Þessi tvö stuttu ár sem ég var í skólanum kynntist ég ótrúlega flottu fólki bæði nemendum og kennurum. Þau veittu mér innblástur í að segja sögur á listrænan máta í kvikmynda formatinu. Ég útskrifaðist síðustu áramót og síðan þá hef ég haft tækifæri til að taka þátt í erlendum og innlendum verkefnum."
- Hjördís Rósa Ernisdóttir, útskrifuð 2021
Anna Hafþórsdóttir - Deild 4
,,Árin mín í Kvikmyndaskólanum voru yndisleg. Það fyrsta sem kemur upp í hugann er hvað ég skemmti mér vel og hvað ég kynntist mikið af skemmtilegu fólki. Þarna innan veggja skólans fékk ég að prufa mig áfram sem listamaður, fara út fyrir þægindarammann og víkka sjóndeildarhringinn. Það var stundum erfitt og tók á, því námið er krefjandi, en mér fannst það allt þess virði því það sem ég fékk út úr þessu er í raun ólýsanlegt.
Það er fátt meira gefandi en að elta drauminn sinn og fá að læra meira og skilja meira á því sviði sem maður hefur brennandi áhuga á. Næstum öll verkefni sem ég fékk fyrst eftir útskrift voru í gegnum sambönd sem ég myndaði innan skólans. Svo heldur maður bara áfram, kynnist fleira fólki í kvikmyndabransanum og reynir að troða sér áfram. Þetta er alveg ágætlega mikið hark.
Leiktæknina sem ég lærði í kvikmyndaskólanum nota ég alltaf. Ég lærði að búa mér til “verkfærakistu” sem hjálpar mér að undirbúa mig undir hlutverk. Öll leiktækni og undirbúningur er eitthvað sem ég tók með mér úr náminu og hef verið að nota og prófa mig áfram með í öllu sem ég geri. Ég mæli með leiklistarbrautinni í Kvikmyndaskólanum. Ég fékk mikið út úr þessu námi, bæði sem listamaður og sem einstaklingur. Þetta nám einblínir auðvitað meira á kvikmyndaleik, þannig að áherslurnar eru þannig. En mér fannst kennslan góð og námið krefjandi og virkilega skemmtilegt."
- Anna Hafþórsdóttir
Leikkona - Webcam | Snjór og Salóme
Matthías Hálfdánarson - Deild 2
,,Ég útskrifaðist frá Skapandi Tækni vorið 2010 og hef verið að vinna við kvikmyndagerð síðan. Þessi tvö ár í Kvikmyndaskólanum reyndust mér mjög vel, skemmtileg og fræðandi. Skólinn er kjörinn vettvangur til að prufa sig áfram, undir góðri leiðsögn fagfólks úr bransanum. Maður öðlast fljótt grunnþekkingu á flestum sviðum kvikmyndagerðar, t.d. hljóðvinnslu, kvikmyndatöku, lýsingu, klippingu, framleiðslu o.m.fl. Skólinn skilaði mér miklu og góðu tengslaneti, sem ég tel nauðsynlegt að hafa til að koma sér af stað í bransanum. Ég mæli hiklaust með þessu námi fyrir alla þá sem hafa áhuga á að starfa við kvikmyndagerð í framtíðinni."
- Matthías Hálfdánarson
Tökumaður
Kristján Pétur Jónsson - Deild 1
,,Ég hef stundað kvikmyndagerð síðan ég man eftir mér og hafði dreymt um að fara í kvikmyndanám og varð Kvikmyndaskólinn fyrir valinu. Námið var krefjandi en ég stundaði það með skemmtilegum samnemendum og kennurum. Ég var hissa og ánægður með hversu mikill partur af náminu var verklegur.
Síðan ég útskrifaðist hef ég fengið vinnu á fréttastofu sem grafískur hönnuður og klippari en í frítíma hef ég stundað verktakavinnu í ýmsum verkefnum. Þökk sé náminu virðist kvikmyndabransinn ekki eins fjarri mér og áður."
- Kristján Pétur Jónsson, útskrifaður 2021
Grafíker - Stöð 2
Þórður K. Pálsson - Deild 1
,,Þau tvö ár sem ég var nemandi Kvikmyndaskólans voru frábær. Það var hér sem ég áttaði mig fyrst á því hvað ég vildi gera það sem eftir var”
- Þórður K. Pálsson
Leikstjóri - Brot (Netflix)
Sigfús Heiðar Guðmundsson - Deild 1
,,Það sem fékk mig til þess að sækja um KVÍ var það að ég vissi alltaf að ég vildi skapa og ekki fara þá “hefbundnu leið” í lífinu. Fyrir mig var námið gott, en þú færð bara eins mikið út úr þessu námi og þú sjálf/ur ert tilbúin í að setja í það. Maður verður að vera all in bæði í námi og eftir námið. Síðan ég útskrifaðist þá hef ég starfað við fjölda mismunandi verkefna, kennslumyndbönd, auglýsingar, live streymis framleiðslur o.s.frv, seinustu verkefni hafa hins vegar öll verið erlend set bæði bíómyndir, þættir og tölvuleikjamót. "
- Sigfús Heiðar Guðmundsson, útskrifaður 2019
Hjálmar Þór Hjálmarsson - Deild 2
,,Ég sótti um Kvikmyndaskólann því mér langaði til þess að auka kunnáttu og mynda sambönd tengd kvikmyndagerð. Námið var mjög fjölbreytt, skemmtilegt, mjög hands on og hjálpaði mér að undirbúa mig fyrir það sem koma skal. Í dag Starfa sem Assistant Camera og vinn aðallega í erlendum framleiðslum eins og Dr.Strange, Aquaman, Transformers, The Flight Attendant svo eitthvað sé nefnt."
- Hjálmar Þór Hjálmarsson, útskrifaður 2018
Aðstoðartökumaður
Atli Þór Einarsson - Deild 1
,,Fagfólk úr öllum áttum gerir þér kleift að víkka sjóndeildarhringinn sífellt og læra nýja hluti með hverju verkefni”
- Atli Þór Einarsson
Kvikmyndagerðarmaður
Arnar Dór - Deild 2
,,Það sem fékk mig til að sækja um í Kvikmyndaskólanum var að ég hafði alltaf haft gaman að því að taka upp og búa til myndbönd, alveg síðan ég man eftir mér. Kvikmyndaskóli Íslands var mér því ofarlega í huga í lok grunnskóla þar til í lok menntaskóla. Mig hafði lengi langað að vera tökumaður og ég ákvað að stökkva á tækifærið strax eftir útskrift úr menntaskóla.
Námið var virkilega fjölbreytt og skemmtilegt. Mikið af verklegum áföngum þar sem maður fær að spreyta sig í verki. Það sem kom mér mest á óvart var það hvað ég kynntist ótrúlega mikið af skemmtilegu og hæfileikaríku fólki. Eitt af því besta við Kvikmyndaskólann að mínu mati eru tengslin á milli nemanda og samvinna þeirra. Ég er enn þann dag í dag að vinna með fólki úr Kvikmyndaskólanum.
Eftir að ég útskrifaðist úr Kvikmyndaskóla Íslands í júní 2020, bauðst mér vinna hjá framleiðslufyrirtækinu Skjáskot, ég tók því og starfa þar enn. Ég er búinn að gera allskyns Auglýsingar, live streymi og unnið að þáttargerð sem dæmi frá því að ég útskrifaðist."
- Arnar Dór, útskrifaður 2020
Nina Petersen - Deild 3
,,Ég hafði alltaf haft áhuga á kvikmyndum og skapandi greinum. Ég fann ekkert nám í Háskólanum sem vakti áhuga minn á þennan hátt sem Kvikmyndaskólinn gerði og ákvað því að taka smá áhættu og skrá mig í eitthvað sem ég vissi lítið sem ekkert um. Ég var hrikalega spennt fyrir náminu og að byrja í skólanum, þannig það fór ekki á milli mála að ég væri að velja réttu leiðina fyrir mig.
Þegar ég skráði mig á Handrit/Leikstjórn þá hafði ég aldrei séð né lesið handrit. Ég var snögg að læra formatið og hvernig ætti að skrifa á skapandi hátt, með hjálp kennara sem voru virkilega góðir í að miðla sinni eigin kunnáttu og reynslu úr bransanum. Ég kynntist öðrum nemendum strax og eignaðist virkilega góða vini sem ég lærði líka mikið af.
Árin í skólanum liðu hratt, því það var gaman alla daga - sama hvert verkefnið var. Ég fékk frjálsar hendur þegar kom að verkefnum og skapandi hugsun og lærði að vinna sjálfstætt, sem var mjög góður undirbúningur fyrir komandi ár í störfum tengdum kvikmyndagerð. Strax eftir útskrift fór ég að vinna á skrifstofunni hjá framleiðslufyrirtækinu, Pegasus. Þar lærði ég ýmislegt tengt framleiðslu og þróun, en mikilvægast af öllu var að ég fékk enn meiri reynslu í skrifum og þróun á efni fyrir bíó og sjónvarp. Frá árinu 2019 hef ég unnið sjálfstætt sem handritshöfundur og síðan þá hef ég fengið tækifæri til að vinna að ótrúlega skemmtilegum verkefnum. Ég skrifaði Leynilögguna ásamt Hannesi Þóri og Sveppa, sem var sýnd í kvikmyndahúsum á Íslandi og erlendis og var tilnefnd til Eddunar í mörgum flokkum, m.a. fyrir handrit. Í dag er ég á fullu að þróa og skrifa bæði bíómynd og seríu sem ég er mjög spennt fyrir."
- Nína Petersen
Handritshöfundur - Leynilöggan (Eddu tilnefning)
Snævar Sölvi Sölvason - Deild 3
,,Árin í Kvikmyndaskólanum voru frábær. Það sem ber hæst er tvennt. Annars vegar fékk ég að kynnast hvernig reynslumiklir handritshöfundar og leikstjórar, sem kenndu við skólann, nálgast sitt fag og ættleiddi ég samstundis þær aðferðir sem ég vissi að myndu bæta mig sem kvikmyndagerðarmann. Og hins vegar kynntist maður krökkum sem ætluðu sér langt í kvikmyndagerð og voru tilbúin að slást í för með mér að gera bíómynd í fullri lengd, "Albatross", sem var sýnd í kvikmyndahúsum um allt land fyrir nokkru, en mannskapurinn sem kom að henni var mest allur árgangssystkini mín.
Eftir skóla hef ég skrifað nokkur handrit og eitt þeirra komst í gegnum handritastyrksþrepin hjá Kvikmyndasjóði. Nú þegar er hafið ferli að reyna að fjármagna þá mynd sem er í fullri lengd.
Á milli handrita hef ég unnið hin ýmsu störf á kvikmyndasetti til að eiga fyrir leigunni og má þar nefna "Þresti" eftir Rúnar Rúnars og svo "Ég Man Þig "eftir Óskar Axels."
- Snævar Sölvi Sölvason
Leikstjóri og Handritshöfundur - Albatross | Eden
Ylfa Marín Haraldsdóttir - Deild 4
,,Mig langađi ađ læra í skapandi og lifandi umhverfi en vissi ekki alveg að hverju ég var ađ leita ađ. Þegar eg sá síđan auglýsingu frá skólanum áttađi ég mig á því ađ kvikmyndagerđ sameinar nánast allt sem ég hef áhuga á. Ég sá tækifæri í náminu og það átti heldur betur eftir að sannreynast. Þađ sem kom mér hvađ mest á óvart varđandi námiđ var hvađ ég lærđi mikiđ inná sjálfa mig sem listamann. Námiđ gaf mér tækifæri til þess ađ prufa mig áfram og gera tilraunir sem stækkađi sjóndeildarhringinn, sumt gekk upp og annað bara alls ekki en það er eitthvað alveg ómetanlegt við það að fá að læra af mistökum sínum í öruggu umhverfi skólans.
Ég hef verið að leika og starfa í kvikmyndagerð frá því ég útskrifaðist, fór til dæmis með aðalhlutverk í kvikmyndinni Hvernig á að vera klassa drusla. Einnig hef ég fengið spennandi verkefni fyrir aftan cameru eins og búningahönnun, framkvæmdastýra kvikmynda, unnið við talsetningar og ýmislegt annað skemmtilegt. Nú er ég svo lánsöm að fá mína frumraun í að vera með í skrif teymi fyrir nýja þáttaseríu sem er í vinnslu."
- Ylfa Marín Haraldsdóttir, útskrifuð 2018
Leikkona - Hvernig á að vera klassa drusla | Veiðiferðin
Þorsteinn Sturla Gunnarsson - Deild 3
,,Ég sótti um í Kvikmyndaskólann því að mig langaði að læra fagið en á sama tíma kynnast og tengjast kvikmyndabransanum á Íslandi og Kvikmyndaskólinn virtist vera hárréttur staður til að gera bæði. Námið var bæði krefjandi og skemmtilegt og ég fékk tækifæri til að spreyta mig á alls kyns verkefnum sem að mótuðu mína rödd sem leikstjóri og handritshöfundur. Auk minna eigin verkefna fékk ég líka tækifæri til að hjálpa fullt af samnemendum með handritin sín og að móta þeirra sýn, sem var gífurlega skemmtilegur lærdómur. Hápunktur námsins var þó án efa fólkið sem ég kynntist, bæði samnemendur og kennarar. Þetta er allt fyrsta flokks fólk og ég vonast til að vinna með sem flestum þeirra í framtíðinni. Eftir útskrift hef ég síðan verið að undirbúa handrit að bíómynd í fullri lengd, auk þess að skrifa sjónvarpsseríu með góðum hópi af fólki. Starf sem að ég fékk í gegnum tengsl sem ég myndaði í skólanum."
- Þorsteinn Sturla Gunnarsson, útskrifaður 2021
Handritshöfundur
Bolli Már Bjarnason - Deild 4
,,Ég hafði áhuga á að læra kvikmyndaleik. Hafði heyrt um skólann frá vini mínum og ákvað að taka skrefið og sækja um. Fór soldið blint inn í þetta. Námið var mjög metnaðarfullt fannst mér, kennarar góðir og áfangarnir krefjandi en skemmtilegir. Samvinnuáfangarnir á milli deilda er algjör lykill fyrir verkefni framtíðarinnar. Ég hef verið að vinna á auglýsingastofunni Pipar\TBWA, leikið í þáttum og auglýsingum ásamt því að búa til sjónvarpsþátt sjálfur. Er sjálfstætt starfandi núna í hinum ýmsu verkefnum og margt spennandi á teikniborðinu."
- Bolli Már Bjarnason, útskrifaður 2015
Leikari og kvikmyndagerðarmaður
Hekla Sólveig Gísladóttir - Deild 4
,,Ég ákvað að sækja um þegar ég sá link á heimasíðuna og fannst þetta mjög spennandi og flottur skóli. Það sem kom mér mest á óvart við námið var hvað ég lærði mikið inn á öll svið. Ég get reddað mer í öllum hlutverkum á setti og í eftirvinnslu því við lærðum grunninn í öllu. Eftir útskrift hef ég verið að mæta í prufur og tekið að mér lítil verkefni og verið að taka endurmenntunar námskeið í hljóði í Kvikmyndaskólanum til þess að bæta við mig."
- Hekla Sólveig Gísladóttir, útskrifuð 2020
Leikkona
Hildur Sigurðardóttir - Deild 4
,,Mig langaði í leiklistarnám sem var með áherslu á leik fyrir kvikmyndir og kvikmyndagerð yfir höfuð líka, þar sem ég hef alltaf haft áhuga á því. Ég kynnti mér námið og það höfðaði vel til mín. Ég var búin að leita lengi eftir skóla sem kenndi leiklist með áherslu á leik fyrir kvikmyndir/sjónvarp og Kvikmyndaskólinn er eini skólinn sinnar tegundar hér þannig ég ákvað að sækja um.
Námið var frábært í alla staði. Ég kynntist frábæru fólki, mikið að fólki sem ég get kallað bestu vini mína í dag, og einnig gott tengslanet sem er mjög dýrmætt í þessum bransa. Mér fannst mjög gott hvernig ég fékk að kynnast öllum hliðum á leiklistinni, við snertum á mörgum leiktækni aðferðum, hvernig það er að leika fyrir framan myndavél og einnig á sviði. Hvernig við getum unnið með röddina okkar á mismunandi vegu, bæði í töluðu máli og í söng. Það sem kom mér mest á óvart var hvað ég lærði mikið um sjálfa mig og hvernig ég lærði að vera meira sjálfstæð, bæði í náminu og í lífinu almennt. Einnig hvað ég lærði mikið um allar hliðar á hvað það er að búa til kvikmynd, ekki bara leiklistina sem mér finnst mjög dýrmætt.
Haustið eftir að ég útskrifaðist fór ég að vinna hjá Kvikmyndaskólanum, sem var mjög góð reynsla, þannig fékk ég að kynnast betur þeim kennurum sem voru á kenna á öðrum sviðum og það gaf mér líka tækifæri að fóta mig aðeins í bransanum. Síðan langaði mig að breyta um umhverfi og læra meira og prófa eitthvað nýtt og ákvað að flytja til Berlínar til að fara í áframhaldandi nám í leiklist fyrir kvikmyndir. Núna er ég að klára fyrsta árið mitt hér, búin að búa hér í næstum ár og mér finnst menntunin sem ég fékk í Kvikmyndaskólanum hafa gefið mér mikið og ég væri líklega ekki þar sem ég er í dag ef ég hefði ekki sótt um í Kvikmyndaskólanum."
- Hildur Sigurðardóttir, útskrifuð 2020
Leikkona
Brú í bransann
Við skólann starfar fjöldinn allur af kennurum og leiðbeinendum sem allir eru starfandi fagfólk úr kvikmyndaiðnaðnum og margir með áralanga reynslu til að miðla til nemenda.
Kvikmyndanám opnar ótal atvinnutækifæri að útskrift lokinni. Um er að ræða alvöru menntun sem er eftirsótt í framleiðslu kvikmynda og sjónvarpsefnis. Tækifærin eru óþrjótandi eftir útskrift óháð því hvaða deild þú velur.
Kvikmyndaskólinn er í formlegu samstarfi við fjölda aðila í kvikmyndaiðnaðnum þar á meðal RÚV, True North, Zik ZAK, Hero Productions og fleiri gefa kost á launaðri starfsþjálfun fyrir nýútskrifaða nemendur.
Úrvalsmyndir nemenda
Þegar gæði kvikmyndanáms eru mæld, þá er besti mælikvarðinn myndir nemenda.
Hér má sjá nokkur dæmi um úrvalsmyndir nemenda.
Fréttir
Kvikmyndaskólinn á RIFF
Reykjavík International Film Festival, eða RIFF, hófst fimmtudaginn 26.október og meðal þátttakenda eru margir bæði núverandi og fyrrverandi nemar, ásamt námsstjóra okkar
Arna Magnea Danks um hlutverk sitt í "Ljósvíkingum"
Arna Magnea leikur Björn/Birnu í nýútkominni mynd Snævars Sölvasonar og hefur hlotið mikið lof fyrir
"Ljósvíkingar", nýjasta verk Snævars Sölvasonar
Snævar á að baki mörg glæsileg verk eftir útskrift sína frá Kvikmyndaskólanum og fengum við að fræðast um það nýjasta sem komið er í sýningar
Hin sjónræna upplifun
Sjónræn frásögn er stór hluti af okkar daglega lífi. Það er skemmtileg leið til þess að leyfa áhorfendunum að upplifa líf og sögur annarra á áhrifaríkan hátt frá sjónarhorni sögumannsins. Við notum þetta á samfélagsmiðlum, í kvikmyndahúsum og listum alls staðar, á öllum götum heims.
Markmið Kvikmyndaskóla Íslands er að veita nemendum leiðsögn og þekkingu sem undirbýr þau til frekara náms eða starfa í kvikmynda- og sjónvarpsiðnaðinum, bæði á Íslandi og erlendis.
Alltaf opið fyrir umsóknir !
Kvikmyndaskóli Íslands tekur við umsóknum allt árið um kring. Nemendur geta því hafið nám sitt í kvikmyndagerð bæði á haustmisseri og vormisseri. Skólinn sinnir nýstúdentum og flestir nemendur eru á aldrinum 19 til 25 ára gamlir.
Inntökuviðtöl eru að lágmarki tvisvar í mánuði, nema í Leiklist þar sem viðtöl fara fram einu sinni í mánuði.
Öllum umsóknum er svarað innan 40 daga.