Gæðastarf

Kvikmyndaskólinn leggur áherslu á öflugt umbótamiðað gæðastarf á fræðasviði skólans. Umbótastarfinu er ætlað að hámarka gæði náms, listrænnar og faglegrar kennslu með það að markmiði að bjóða nemendum, kennurum og starfsfólki upp á þekkingarsamfélag.

Siðareglur Kvikmyndaskóla Íslands

Starfsfólk og nemendur Kvikmyndaskóla Íslands vilja móta samfélag þar sem samskipti og vinnubrögð einkennast af gagnkvæmri virðingu, heilindum, réttlæti og ábyrgð. Markmiðið með siðareglunum er að stuðla að því að hegðun þeirra sem starfa og nema innan skólans uppfylli ítrustu siðferðiskröfur sem gerðar eru innan skólasamfélagsins. Reglurnar eru settar fram í 13 töluliðum. Þær eru leiðarvísir og eiga ekki að skoðast sem tæmandi lýsing á æskilegri hegðun. Ábendingar um brot á siðareglum skal beina til kennara eða einhvers af föstum starfsmönnum skólans, sem kemur þeim til rektors.

1. Starfsfólk og nemendur virða þá sem starfa og nema innan skólans sem einstaklinga, koma fram við þá af tillitsemi og gæta trúnaðar gagnvart þeim.

2. Starfsfólk og nemendur koma í veg fyrir að í skólanum viðgangist hvers konar óréttlæti, svo sem einelti, kynferðisleg áreitni eða önnur mismunun, t.d. vegna kynferðis, aldurs, trúar, þjóðernis, kynþáttar, fötlunar, kynhneigðar eða skoðana.

3. Starfsfólk og nemendur virða tjáningarfrelsi skólasamfélagsins og haga skoðanaskiptum á faglegan, málefnalegan og ábyrgan hátt.

4. Starfsfólk gerir sér ljósa valdastöðu sína í samskiptum við nemendur og gætir þess að misnota hana ekki.

5. Starfsfólk og nemendur standa vörð um heiður skólans og aðhafast ekki neitt það sem kynni að vera til þess fallið að rýra álit samfélagsins á honum.

6. Starfsfólk og nemendur leita þekkingar af heilindum og hlutlægni og leggja áherslu á fagleg og listræn vinnubrögð, gagnrýna og frjóa hugsun og málefnalegan rökstuðning.

7. Starfsfólk og nemendur gæta persónuverndar og standa vörð um hagsmuni þeirra sem taka þátt í vinnu með þeim.

8. Starfsfólk og nemendur virða akademískt frelsi, vinna ávallt samkvæmt eigin sannfæringu og láta hagsmunatengsl ekki hafa áhrif á vinnu sína. Virðing er borin fyrir margbreytileika kvikmyndalistarinnar, fagmennsku og sjálfstæði í fræðastörfum og kennslu.

9. Starfsfólk og nemendur virða hugverkaréttindi, eigna sér ekki heiðurinn af hugmyndum annarra og gæta ávallt þeirra heimilda, sem notaðar eru, í samræmi við venjur lista- og þekkingarsamfélagsins.

10. Starfsfólk skólans leitast við að skapa nemendum sínum frjótt og hvetjandi námsumhverfi sem byggist á trausti og virðingu.

11. Nemendur skólans bera ábyrgð á námi sínu og eru heiðarlegir og tillitssamir í samskiptum.

12. Starfsfólk og nemendur sýna ábyrgð gagnvart samfélagi, umhverfi og náttúru í kennslu og listsköpun.

13. Starfsfólk og nemendur eru virkir þátttakendur í starfi og þróun skólans og líta á það sem skyldu sína að miðla upplýsingum og þekkingu sem getur orðið til þess að bæta starf skólans. Brot á siðareglum getur leitt til brottvikningar úr skóla.

Gæðastefna

Gæðastefna Kvikmyndaskólans setur ramma um gæðastarf skólans og mótar það til framtíðar. Stefnan miðar að því að auka gæði skólastarfsins og að náms- og starfsumhverfi skólans standist alþjóðleg viðmið og gæðakröfur. Gæðastefnan er vegvísir fyrir skólasamfélagið og stjórnendum, nemendum og öðru starfsfólki skólans ber að taka mið af stefnunni í öllum sínum verkum. Gæðastefnan er hluti af heildarstefnu skólans sem er endurskoðuð reglulega.

MANNAUÐUR

• Skólinn ræður hæfustu einstaklingana í starf í hvert sinn.
• Starfsfólk skólans nálgast öll sín verk með stöðugar umbætur í huga til þess að tryggja skilvirkt, frjótt og hvetjandi umhverfi til náms og starfa innan kvikmyndaiðnaðarins.
• Skólinn byggir upp fjölbreytt starfsumhverfi sem miðar að því að þar starfi ólíkir einstaklingar, m.a. í anda jafnréttisstefnu skólans.

NÁM OG KENNSLA

• Nám við skólann byggist á skilgreindum námsbrautum sem er hvetjandi, krefjandi, tekst á við áskoranir samtímans, uppfyllir alþjóðlegar gæðakröfur og er vel skipulagt.
• Kennarar miða framsetningu og kennsluaðferðir við þarfir nemenda og hvetja þá til listsköpunar og heilinda, þar sem ítrustu kröfum um fagleg vinnubrögð við kennslu er fylgt.
• Nemendur njóta menntunar sem gagnast íslensku samfélagi og stenst alþjóðleg viðmið og gæðakröfur.
• Kennarar eru virkir í að þróa og uppfæra námið í samræmi við viðmið og kröfur skólans og nemendur taka virkan þátt í þessu ferli. Námsleiðir endurspegla bestu og nýjustu þekkingu á hverjum tíma.

INNVIÐIR

• Skólinn hefur skýra stefnu um uppbyggingu innviða, sem leiðir til fyrirmyndar aðstöðu til kennslu og listsköpunar.
• Innviðir uppfylla lögbundnar skyldur og kröfur og miðast við fyrirmyndar starfshætti.