Skapandi tækni Deild 2

Tveggja ára diplóma nám í Skapandi tækni við gerð kvikmynda.

Viltu koma hlutunum á hreyfingu?

Nemendur í Skapandi tækni öðlast færni í fjórum grunnstoðum kvikmyndagerðar: kvikmyndatöku, klippingu, hljóðvinnslu og myndbreytingu (visual effects). Mikið er lagt upp úr verklegu námi þar sem nemendur fá að spreyta sig á fjölbreyttum verkefnum undir handleiðslu færustu sérfræðinga okkar.

Ef þú ert með brennandi áhuga á skapandi, verklegu námi í kvikmyndagerð þá erum við að leita að þér.

Af hverju Skapandi tækni?

 1. Kvikmyndaskóli Íslands er verklegur skóli þar sem nemendur skrifa, framleiða, leika, klippa, vinna og leikstýra sínum eigin myndum meðan á náminu stendur. Allt skólahald snýst um kvikmyndagerð frá fyrstu mínútu til útskriftar.

 2. Inntökuviðtöl eru að lágmarki tvisvar í mánuði og öllum umsóknum svarað innan 40 daga.

 3. Aldrei eru teknir fleiri en 12 nýnemar í bekk. Séu bekkir fullir er hægt að skrá sig á biðlista.

 4. Allir helstu kvikmyndagerðarmenn landsins kenna eða hafa kennt við skólann. Flestir þeirra eru með háskólapróf og menntun erlendis frá. Nemendum eru tryggð tengsl við reynslumikið fólk úr iðnaðinum.

 5. Kvikmyndaskóli Íslands er einkaskóli sem starfar með viðurkenningu Mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

 6. Með ári til viðbótar í kvikmyndafræði við geta nemendur útskrifast með BA-gráðu

  *Námsleiðin er í viðurkenningarferli hjá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu.

 7. Skapandi tækniþekking er eftirsótt og kemur alltaf til með að nýtast í heimi þar sem kvikmynda- og sjónvarpsiðnaður fer hraðvaxandi ásamt örri þróun samskiptamiðla. Hér er um að ræða einstaklega praktískt nám enda eru atvinnumöguleikar fólks með þessar fjórar greinar á valdi sínu nánast óþrjótandi. Margir hefja sjálfstæðan rekstur að loknu námi eða halda utan til framhaldsnáms.

 8. Ef þú vilt læra eitthvað praktískt og tileinka þér færni í að töfra fólk upp úr skónum þá ættir þú að skoða nám í Skapandi tækni við Kvikmyndaskóla Íslands.

 9. Kvikmyndaiðnaðurinn er í örum vexti. Nýjungar í myndmiðlun og sjónvarpi kalla á fagleg vinnubrögð og sérþekkingu. Með slíka menntun gefast þér fjölmörg tækifæri til að láta ljós þitt skína.

 10. Það má læra kvikmyndagerð á ýmsa vegu en tveggja ára nám við KVÍ er fljótlegasta leiðin sem þú finnur til að ná tökum á faginu, finna þína styrkleika og byggja um leið upp öflugt tengslanet til framtíðar.

 11. Eftir áratugi af bóknámi áttu skilið að komast í nám sem hjálpar þér að koma þínum eigin hugmyndum í framkvæmd.

 12. Kvikmyndaskóli Íslands býður í dag heimsins besta grunnnám á sínu sérsviði; að taka við byrjendum í faginu, mennta í tvö ár og útskrifa sem fagfólk.

Fagstjórar skapandi tækni

Ágústa Margrét Jóhannsdóttir

Tómas Örn Tómasson

Tómas hefur tengst kvikmyndagerð allt frá því hann var í Verzlunarskóla Ísland. Eftir útskrift þaðan fór hann í Háskóla Íslands og Köbenhavn Universitet, þar sem hann lagði stund á sagnfræði. Samhliða náminu tók hann að sér alla þá vinnu sem bauðst og tengdist kvikmyndatöku. Tómas sá fyrir sér að gerast heimildamyndagerðarmaður, þar sem hann myndi skrifa, kvikmynda og leikstýra eigin verkum. Þegar hann kom heim úr námi sumarið 1996, bauðst honum ýmis vinna tengd kvikmyndagerð. Það var síðan árið 2002 að hann ákvað að snúa sér alfarið að kvikmyndatökunni. Á heimasíðu Tómasar er starfsreynsluágrip og tenglar í helstu verkefnin sem hann hefur kvikmyndað. www.tomastomasson.com

Kjartan Kjartansson

Kjartan er einn af reyndustu hljóðmönnum landsins. Hann hefur annast hljóðsetningu á mörgum af frægustu bíómyndum íslenskrar kvikmyndasögu, og eru verk á borð við "Sódómu Reykjavík", "Myrkrahöfðingjann" og "Engla Alheimsins".

Rob Tasker

Rob hefur unnið við kvikmyndir, sjónvarp og auglýsingar síðan 2008. Með yfir 40 titla á sínum starfsferli hefur Rob verið tilnefndur til verðlauna þó nokkrum sinnum fyrir verk sín, t.d. Primetime Emmy Awards fyrir sjónvarpsseríuna "Hannibal" og tvisvar sinnum verið tilnefndur til Canadian Screen Award fyrir kvikmyndina "Wet Bum" og fyrir sjónvarpsseríuna "Copper". Hann hefur unnið við framleiðslu við hin ýmsu fyrirtæki eins og SagaFilm, Universial Pictures, NBC, Warner Brothers, 20th Century Fox, New Line Cinema, Sony Pictures, SyFy og mörg fleiri. 

Hæfniviðmið deildar 2

 1. Þekking

  1. Þekking og skilningur.
  Nemandi öðlist:

  1.1  Verklega, fræðilega, tæknilega og faglega þekkingu á kvikmyndatöku og lýsingu.

  1.2  Verklega, fræðilega, tæknilega og faglega þekkingu á hljóðupptöku og hljóðvinnslu.

  1.3  Verklega, fræðilega, tæknilega og faglega þekkingu á klippingu kvikmynda.

  1.4  Þekkingu á myndvinnsluforritum til litgreiningar og eftirvinnslu kvikmynda.

  1.5  Þekkingu og skilning á straumum og stefnum í myndlistarsögunni.

  Leikni
  2. Nemandi öðlist hagnýta færni og leikni:

  2.1  Í kvikmyndatöku og lýsingu sem kvikmyndatökumaður í margvíslegum kvikmyndaverkefnum.

  2.2  Og reynslu í hljóðupptöku og hljóðvinnslu í margvíslegum kvikmyndaverkefnum.

  2.3  Og reynslu sem klippari í margvíslegum kvikmyndaverkefnum.

  2.4  Í notkun myndvinnsluforrita.

  2.5  Í að setja saman gott framleiðsluteymi.

  2.6  Í að meta hugtök, strauma og stefnur í myndlist.


  Hæfni
  3. Nemandi öðlist hæfni til að:

  3.1  Vinna sem skapandi og faglegur kvikmyndatökumaður.

  3.2  Vinna sem skapandi og faglegur hljóðhönnuður í kvikmyndum.

  3.3  Vinna sem skapandi og faglegur klippari í kvikmyndum.

  3.4  Litgreina og eftirvinna kvikmyndir.

  3.5  Nota þekkingu sína á myndlist á skapandi hátt í kvikmyndagerð.

  3.6  Nýta sér grunnþekkingu á störfum framleiðenda í framleiðslu á lokaverkefni sínu á 4. misseri.

  3.7  Koma hugmyndum sínum í handritsform.

 2. 1. Þekking og skilningur
  1.1 Nemandi öðlist verklega, fræðilega, tæknilega og faglega þekkingu á kvikmyndatöku og lýsingu.

  2. Hagnýt færni og leikni
  2.1 Nemandi öðlist leikni í kvikmyndatöku og lýsingu sem kvikmyndatökumaður í margvíslegum kvikmyndaverkefnum.

  3. Hæfni sem hagnýting þekkingar og leikni
  3.1 Nemandi öðlist hæfni til að vinna sem skapandi og faglegur kvikmyndatökumaður.

 3. 1. Þekking og skilningur
  1.1 Nemandi öðlist verklega, fræðilega, tæknilega og faglega þekkingu á hljóðupptöku og hljóðeftirvinnslu.

  2. Hagnýt færni og leikni
  2.1 Nemandi öðlist leikni og reynslu í hljóðupptökum og hljóðvinnslum á margvíslegum kvikmyndaverkefnum.

  3. Hæfni sem hagnýting þekkingar og leikni
  3.1 Nemandi öðlist hæfni til að vinna sem skapandi og faglegur hljóðhönnuður í kvikmyndum.

 4. 1. Þekking og skilningur
  1.1 Nemandi öðlist verklega, fræðilega, tæknilega, sögulega og faglega þekkingu á klippingu kvikmynda.

  2. Hagnýt færni og leikni
  2.1 Nemandi öðlist leikni og reynslu sem klippari í margvíslegum kvikmyndaverkefnum.

  3. Hæfni sem hagnýting þekkingar og leikni
  3.1 Nemandi öðlist hæfni til að vinna sem skapandi og faglegur klippari í kvikmyndum.

 5. 1. Nemandi öðlist þekkingu og skilning á:

  1.1  Myndvinnslu og myndbrellum í kvikmyndagerð.

  1.2  Grafíkforritum.

  2. Nemandi öðlist hagnýta færni og leikni í:

  2.1  Adobe After Effects forriti fyrir hreyfigrafík.

  2.2  Black Magic Fusion forriti fyrir myndbreytingar.

  2.3  Black Magic Resolve forriti fyrir litvinnslu.

  2.4  Adobe Photoshop myndvinnsluforriti.

  3. Nemandi öðlist hæfni til að:
  3.1. Vinna með faglegum og skapandi hætti með ýmis myndvinnsluforit.
  3.2 Taka að sér eftirvinnslu í kvikmyndum.

Kennsluskrá

Deild 2 | Skapandi tækni

Fyrsta misseri

 1. Námskeiðið er bæði fræðilegt og verklegt. Í fræðilega hlutanum er fjallað um kvikmyndatöku og lýsingu, gerð og uppbyggingu kvikmyndatökuvélarinnar, ólík upptökuform, linsufræði og filtera og fleira er lýtur að tökuvélinni. Þá er fjallað um ljós og lampabúnað, ljóshita og ljósmælingar og ýmsar grunnreglur sem liggja að baki lýsingu. Í verklega hlutanum vinna nemendur síðan ýmsar æfingar í stúdíói, þar sem áhersla er lögð á að þeir nái að sannreyna þá fræðilegu þekkingu sem þeir hafa öðlast.

 2. Námskeiðið er bæði fræðilegt og verklegt. Grunnhugtök hljóðeðlisfræðinnar eru útskýrð fyrir nemendum. Þá er upptökukeðjan útskýrð ásamt þeim tækjum sem þar koma við sögu. Nemendur vinna létt hljóðupptökuverkefni, ýmis hljóðeftirvinnsluverkefni um leið og þeir læra á hljóðeftirvinnsluforrit.

 3. Starf klipparans er skilgreint og sett í samhengi. Nemendur læra á klippiforritið, læra um eiginleika stafrænna mynd- og hljóðskráa og hvernig eigi að meðhöndla efniviðinn. Farið er vandlega í stöðu aðstoðarklippara; áhersla á skipulag og skráningu á öllum þeim upplýsingum sem klippari þarf áður en lagt er af stað, og hvaðan þær upplýsingar koma. Í kjölfarið fá nemendur styttra verkefni á borð við tónlistarmyndband eða stiklu til að spreyta sig á í klippiforritinu.

 4. Sögulegur inngangur þar sem myndbrellur úr kvikmyndasögunni eru skoðaðar. Jafnframt er skoðað það nýjasta sem er að gerast í myndvinnslu kvikmynda. Kynnt eru myndvinnslu- og grafíkforrit sem eru mikilvæg í iðnaðinum í dag, After Effects, Premiere Pro frá Adobe, Da Vinci Resolve og Fusion frá Blackmagic. Nemendur gera æfingar með tæknibrellum og grafík og fá að kynnast því að eigin raun hvað felst í þeim fjölmörgu sviðum sem snúa að myndbrellum og myndbreytingum.

 5. Nemendur vinna að hámarki 7 mínútna langa stuttmynd í hópavinnu með öðrum deildum þar sem nemendur leggja áherslu á sérsvið sinnar deildar. Markmiðið er að verkefnið sé fullunnið kvikmyndaverk af einhverju tagi. Áhersla er lögð á að nemandur vinni með eigin hugmyndir og byggi á þeirri reynslu í vinnslu kvikmynda sem þau hafa fengið í öðrum námskeiðum misserisins.

 6. Námskeiðið er byrjunarnámskeið á 1. misseri og markmið þess er að kenna nemendum grunnatriði í framleiðslu kvikmynda og meðhöndlun og notkun tækja- og tæknibúnaðar í kvikmyndagerð. Jafnframt er farið yfir grunnatriði myndmálsins. Námskeiðið er þrískipt: 1. Undirbúningur - Framleiðsla kvikmynda. 2. Tökustaður - Kvikmynda- og hljóðupptaka. 3 . Eftirvinnsla - Klipping og frágangur.

 7. Nemendur í öllum deildum þurfa á hverju misseri að skila 1 einingu í samstarfi við aðrar deildir. Markmiðið er að hver deild hafi aðgengi að öllum hinum og upp úr því þróist skapandi samband.

 8. Helstu kvikmyndir sögunnar kynntar, sýndar og ræddar. Sýndar eru tíu myndir á hverju misseri, alls 40 kvikmyndir. Hvert misseri er hugsað sem sneiðmynd af sögunni. Myndirnar eru sýndar að mestu í tímaröð og ná allt frá þögla tímabilinu og fram á seinni hluta tuttugustu aldar. Myndirnar eru kynntar með fyrirlestrum og nemendur taka þátt í umræðum um þær.

Annað misseri

 1. Á námskeiðinu er aðalverkefnið að segja sögu í myndum. Nemendur fá skrifaðar sögur sem þeir þurfa að yfirfæra í myndmál, án orða. Mikil áhersla er lögð á vandaðan undirbúning og að nemendur vinni meðvitað með aðferðir og stíl.

 2. Nemendur á 2. misseri fá kennslu í notkun fjölrása hljóðupptökutækis, þráðlausra hljóðnema og þeirra tækja sem koma við sögu við hljóðupptökur á setti. Nemendur hljóðeftirvinna stuttar myndir sem þeir hafa ýmist unnið í öðrum áföngum eða valdar eru af kennara. Þættir sem koma við sögu eru: a. Hljóðritun á áhrifahljóðum, eftirsynki og foley-i (áhrifahljóð í hljóðveri framkvæmd í synki við mynd). b. Hljóðeftirvinnsla þar sem allir þættir í lið a ásamt áhrifahljóðum úr hljóðasafni koma saman.

 3. Nemendur glíma við að klippa leikið efni, eftir sig sjálf og aðra. Áhersla á frásögn, takt og að koma bæði upplýsingum og tilfinningum til skila. Nemendur fá einnig dýpri þekkingu á hinu stafræna vinnuumhverfi, myndþjöppun og skyldum klippara sem öxuls eftirvinnslunnar. Grunnhugtök í litgreiningu og lokafrágangi kvikmynda verða kynnt til sögunnar. Auk þess verður farið í listræna og tæknilega sögu klippingar og kvikmyndir greindar með tilliti til klipps

 4. Nemendum er veitt innsýn í forritin Adobe After Effects og Da Vinci. Farið er yfir viðmót og helstu eiginleika forritanna. Aðaláherslan er lögð á hreyfigrafík í hvers kyns titlagerð og hvernig við breytum lifandi myndefni í VFX og undirstöðu í litafræði. Nemendur vinna ýmis verkefni og markmiðið er að þeir öðlist hæfni til að nýta sér þá möguleika sem forritin bjóða upp á.

 5. Nemendur fá innsýn í starf leikmyndahönnuða í kvikmyndagerð. Þeir vinna að hönnun og gerð leikmyndar, í einni eða fleiri senum, eftir framlögðu handriti. Leikmyndin er síðan kvikmynduð og árangur metinn.

 6. Yfirlitsáfangi með áherslu á tengsl kvikmynda og myndlistar. Hvað geta kvikmyndir lært af myndlistinni? Einkenni ýmissa myndlistartímabila eru skoðuð. Dæmi eru tekin úr kvikmyndasögunni sem sýna náin tengsl kvikmynda við ákveðin myndverk eða myndlistarmenn, og hvernig myndlist hefur nýst kvikmyndagerðarmönnum og orðið þeim innblástur fyrir kvikmyndaverk.

 7. Námskeiðið er framhaldsnámskeið frá TÆK 106. Markmiðið er að styrkja enn frekar grunnþekkingu nemenda á helstu sviðum kvikmyndagerðar. Hver nemandi gerir síðan mynd sem á að sýna persónulegan stíl og færni nemanda á hans áhugasviði. Myndin á að geta staðið sem kynningarmynd um nemandann.

 8. Nemendur í öllum deildum þurfa á hverju misseri að skila 1 einingu í samstarfi við aðrar deildir. Markmiðið er að hver deild hafi aðgengi að öllum hinum og upp úr því þróist skapandi samband.

 9. Helstu kvikmyndir sögunnar kynntar, sýndar og ræddar. Sýndar eru tíu myndir á hverju misseri, alls 40 kvikmyndir. Hvert misseri er hugsað sem sneiðmynd af sögunni. Myndirnar eru sýndar að mestu í tímaröð og ná allt frá þögla tímabilinu og fram á seinni hluta tuttugustu aldar. Myndirnar eru kynntar með fyrirlestrum og nemendur taka þátt í umræðum um þær.

Þriðja misseri

 1. Á námskeiðinu er farið dýpra í ýmsa fræðilega þætti kvikmyndatöku, linsufræði, ljósfræði og filtera. Nemendur gera verkefni/heimildarmynd þar sem þeir taka upp prufur og móta stíl myndar. Kynnt er skipulag og almennir verkferlar tengdir kvikmyndatöku á framleiddri fullunnri kvikmynd.

 2. Nemendur öðlist skilning á þeim hughrifum sem hægt er að ná fram hjá áhorfendum kvikmynda með hljóðrás og hvernig nýta má þau áhrif til að styðja við og bæta við myndræna frásögn. Skoðuð verða dæmi úr kvikmyndum og þau greind út frá dramatík í  frásögn. Nemendur búa til hljóðfrásögn án myndar í  hljóðforriti (ProTools). Þeir hljóðvinna atriði teiknimyndar og talsetja hana með leikurum í samstarfi við leiklistardeild. Nemendur gera skýrslu þar sem þeir greina vinnu sína við verkefnin.

 3. Nemendur klippa eigin heimildarmynd og læra starf klipparans sem höfundur og sögumaður. Kennt verður  hvernig viðtöl eru skrásett og flokkuð, hvernig henda megi reiður á mikið myndefni og hversu langt og kræklótt ferli klipping á heimildarmynd getur orðið. Þá verður siðferðilegum álitamálum sem snúa að framsetningu á raunverulegu fólki velt upp. Heimildarmyndir af ólíkum toga verða greindar og ræddar. Hugað verður sérstaklega að lokafrágangi á læstu klippi.

 4. Nemendur læra skjásamsetningar í After Effects. Farið er yfir hvernig hægt er að blanda skotum saman og mynda eina heild. Kennt er hvernig blöndun lykilmyndar við bakgrunn fer fram („green screen“). Nemendur taka upp efni og eftirvinna í After Effects.

  Nemendur dýpka þekkingu sína á litvinnslu með því að vinna heimildarmyndina sína af fyrri námskeiðum.

 5. Á námskeiðinu er fjallað um ýmis grundvallarlögmál hefðbundinnar handritsgerðar í kvikmyndagerð. Fjallað verður um uppbyggingu, form og stíl, samtöl, söguþráð og endi. Nemendur læra helstu grundvallaratriði í notkun handritsforrita. Þeir nemendur sem áhuga hafa á að skrifa sjálfir handritið að lokaverkefni sínu á 4. misseri geta nýtt þetta námskeið til undirbúnings.

 6. Hver nemandi velur sér tvö sértæk svið innan sérgreina deildarinnar þar sem hann vill ná betri tökum á faginu. T.d. lýsingu innan kvikmyndatöku, upptökur á viðbótarhljóði (foley), hljóðvinnlsu o.s.frv. Valið er kynnt í upphafi misseris til námsstjóra sem kemur nemendum í læri hjá sérfræðingum á völdum sviðum.

 7. Fjallað er um myndmál og mynduppbyggingu með því að skoða og skilgreina atriði úr fjölbreyttri flóru kvikmynda frá ýmsum tímabilum. Nemendur gera einstaklingsverkefni sem felst í að lýsa tilfinningu og/eða andrúmslofti og skoða hvernig myndmálið hefur áhrif á framgang þess. Hámarkslengd verkefnisins eru tvær mínútur.

 8. Nemendur í öllum deildum þurfa á hverju misseri að skila 1 einingu í samstarfi við aðrar deildir. Markmiðið er að hver deild hafi aðgengi að öllum hinum og upp úr því þróist skapandi samband.

 9. Helstu kvikmyndir sögunnar kynntar, sýndar og ræddar. Sýndar eru tíu myndir á hverju misseri, alls 40 kvikmyndir. Hvert misseri er hugsað sem sneiðmynd af sögunni. Myndirnar eru sýndar að mestu í tímaröð og ná allt frá þögla tímabilinu og fram á seinni hluta tuttugustu aldar. Myndirnar eru kynntar með fyrirlestrum og nemendur taka þátt í umræðum um þær.

Fjórða misseri

 1. Námskeiðið tengist útskriftarverkefni nemanda. Í upphafi er upprifjun á ýmsum fræðilegum og tæknilegum þáttum sem kenndir hafa verið á fyrri námskeiðum. Nemendur þurfa að þreyta skriflegt og verklegt próf sem staðfestir hæfni þeirra. Á námskeiðinu skulu nemendur vinna undirbúningsvinnu fyrir tökur á lokamynd, ákveða tökustíl, gera prufur, skotlista eða gólfplön þannig að þeir séu vel undirbúnir fyrir tökurnar. Nemandi skal leggja fram undirbúningsgögn til mats. Nemandi stjórnar síðan upptökum á lokaverkefni sínu og kvikmyndatakan er metin til einkunnar.

 2. Námskeiðið tengist útskriftarverkefni nemenda. Í upphafi er upprifjun á ýmsum fræðilegum og tæknilegum þáttum sem kenndir hafa verið á fyrri námskeiðum. Nemendur þurfa að þreyta skriflegt og verklegt próf sem staðfestir hæfni þeirra. Áður en nemendur fara í tökur á lokaverkefnum sínum er stutt upprifjun á því sem helst þarf að hafa í huga á tökustað og nemendur fá tækifæri til að bera fram spurningar varðandi verkefni sín undir leiðbeinanda. Stærsti hluti námskeiðsins fer síðan í hljóðvinnslu lokaverkefnis þar sem leiðbeinandi er hverjum og einum til halds og trausts og nemendur geta fengið þá aðstoð og ráð sem þeir biðja um. Sé nemandi ekki með lokaverkefni sem getur tengst þessum áfanga skal hann í samráði við leiðbeinanda hljóðvinna verkefni sem getur borist utan frá eða frá öðrum sérsviðum og skal þá uppfylla mat leiðbeinanda varðandi hæfni og kröfur.

 3. Að lokinni stuttri upprifjun felst áfanginn alfarið í klippingu á útskriftarverkefni, þar sem nemendur nýta sér alla þá þekkingu og leikni sem þau hafa tileinkað sér. Kennari er á þessu stigi málsins fyrst og fremst ráðunautur og leiðbeinandi, en gætir þess að fagleg árvekni og yfirferð einkenni klippiferlið og hefur yfirumsjón með því.

 4. Námskeiðið er tengt útskriftarnámskeiði nemandans, LHÖ 210. Í upphafi er upprifjun á þeim atriðum sem kennd hafa verið á fyrri námskeiðum. Nemendur þurfa að þreyta próf sem staðfestir hæfni þeirra. Nemandi litvinnur, hannar titla og vinnur myndbrellur í lokamynd sinni. Myndvinnslan er metin sérstaklega til einkunnar. Leiðbeinandi er til halds og trausts í vinnsluferlinu.

 5. Námskeið í framleiðslu kvikmynda. Námskeiðið á að nýtast nemendum við undirbúning útskriftarverkefnis. Námskeiðinu er fylgt eftir með vikulegum fundum þar sem nemendur framleiða sína eigin mynd með það að markmiði að tökur gangi sem best fyrir sig.

 6. Lokaverkefni á 4. misseri er sjálfstætt einstaklingsverkefni að eigin vali unnið í samráði við  leiðbeinanda. Hér er um að ræða kvikmyndaverk af einhverju tagi; að hámarki 15 mínútur  að lengd. Verkefnið er útskriftarverkefni nemanda og er mikil áhersla lögð á  vönduð vinnubrögð í öllum þáttum vinnslunnar enda er útskriftarmyndin lokapróf nemandans. 

  Nemandinn skal sjálfur hafa yfirumsjón með verkefninu og sinna hlutverki yfirframleiðanda. Nemandi skal bera ábyrgð á öllum tæknilegum hliðum verksins, kvikmyndatöku, klippingu, hljóðvinnslu og myndbreytingu og tengjast önnur fög misserisins þessu verkefni. Þar njóta nemendur fulltingis yfir leiðbeinanda en fá jafnframt ráðleggingar frá  sérfræðingum á sviði klippingar, hljóðvinnslu og  litaleiðréttingar, allt með það að markmiði að  skapa fagmannlegt útskriftarverkefni. 

  Nemendur skulu gera grein fyrir undirbúning sínum að lágmarki 10 dögum fyrir áætlaðar tökur og metur skólinn hvort verkefið teljist hæft til framleiðslu á áætluðum tíma. Ef skólinn metur svo að verkefnið þarfnist meiri undirbúnings, skal nemandi fá tækifæri bæta undirbúning sinn áður en verkefni er frestað.

 7. Fjallað er um kvikmyndagerð nútímans. Hvaða stefnur og straumar hafa verið ríkjandi síðasta áratuginn, hvað er að gerast núna og hvert virðist stefna í nánustu framtíð. Á námskeiðinu er mikið lagt upp úr þátttöku nemenda í að rannsaka og finna svör við þessum spurningum. Nemendur vinna verkefni þar sem þeir fjalla um áhrifavalda í samtímanum.

 8. Nemendur í öllum deildum þurfa á hverju misseri að skila 1 einingu í samstarfi við aðrar deildir. Markmiðið er að hver deild hafi aðgengi að öllum hinum og upp úr því þróist skapandi samband.

 9. Helstu kvikmyndir sögunnar kynntar, sýndar og ræddar. Sýndar eru tíu myndir á hverju misseri, alls 40 kvikmyndir. Hvert misseri er hugsað sem sneiðmynd af sögunni. Myndirnar eru sýndar að mestu í tímaröð og ná allt frá þögla tímabilinu og fram á seinni hluta tuttugustu aldar. Myndirnar eru kynntar með fyrirlestrum og nemendur taka þátt í umræðum um þær.

 10. Námskeiðinu er ætlað að undirbúa nemendur fyrir þáttöku á atvinnumarkaði. Fjallað er um stofnun fyrirtækja, helstu starfssamninga og skyldur sem þeim fylgja fyrir verktaka. Farið er yfir opinber gjöld sem standa þarf skil á s.s. virðisaukaskatt, lífeyrissjóðsgjöld, félagsgjöld og tryggingagjöld. Nemendur vinna að styrktarumsókn til Kvikmyndastöðvar Íslands með kostnaðaráætlun.

Nemendur skrifa...

Hjálmar Þór Hjálmarsson

,,Ég sótti um Kvikmyndaskólann því mér langaði til þess að auka kunnáttu og mynda sambönd tengd kvikmyndagerð. Námið var mjög fjölbreytt, skemmtilegt, mjög hands on og hjálpaði mér að undirbúa mig fyrir það sem koma skal. Í dag Starfa sem Assistant Camera og vinn aðallega í erlendum framleiðslum eins og Dr.Strange, Aquaman, Transformers, The Flight Attendant svo eitthvað sé nefnt."

- Hjálmar Þór Hjálmarsson, útskrifaður 2018
Aðstoðartökumaður

Óttar Ingi Þorbergsson

,,Ég hef alltaf einhvernvegin verið að leika mér að búa til einhverskonar myndbönd og stuttmyndir. Ég var í stuttmynda áfanga í grunnskóla og var svo í Vídeónefnd í framhaldsskóla þannig að þegar ég sá tækifærið um að fara í Kvikmyndaskólann þá stökk ég á það og sé ekki eftir því. Námið var rosa flott og ég lærði strax frekar mikið á fyrstu önninni. Fyrir mig hinsvegar þá var það besta við skólann að þetta var vettvangur sem ég gat mætt í á hverjum degi til að vera skapandi og læra nýja hluti. Þetta var staður þar sem ég hafði aðgang að búnaði, flottum kennurum og fullt af samnemendum sem ég vinn ennþá með daginn í dag.
Síðan ég útskrifaðist hef ég verið að fetja mig áfram sem tökumaður í kvikmynda- og auglýsingabransanum á Íslandi. Ég hef verið að skjóta tónlistarmyndbönd fyrir tónlistarfólk eins og Aron Can og Emmsjé Gauta. Ég er að enda við að klára stuttmynd sem ég þróaði með Fannari Birgissyni leikstjóra og svo eru fleiri verkefni í bígerð eins og mynd í fullri lengd."

- Óttar Ingi Þorbergsson, útskrifaður 2018
Tökumaður

Matthías Hálfdánarson

,,Ég útskrifaðist frá Skapandi Tækni vorið 2010 og hef verið að vinna við kvikmyndagerð síðan. Þessi tvö ár í Kvikmyndaskólanum reyndust mér mjög vel, skemmtileg og fræðandi. Skólinn er kjörinn vettvangur til að prufa sig áfram, undir góðri leiðsögn fagfólks úr bransanum. Maður öðlast fljótt grunnþekkingu á flestum sviðum kvikmyndagerðar, t.d. hljóðvinnslu, kvikmyndatöku, lýsingu, klippingu, framleiðslu o.m.fl. Skólinn skilaði mér miklu og góðu tengslaneti, sem ég tel nauðsynlegt að hafa til að koma sér af stað í bransanum. Ég mæli hiklaust með þessu námi fyrir alla þá sem hafa áhuga á að starfa við kvikmyndagerð í framtíðinni."

- Matthías Hálfdánarson
Tökumaður

Sigurður Pétur

,,Mér fannst gaman að taka upp og klippa myndbönd og vissi ekki hvað ég ætti að gera eftir menntaskóla þannig hugsaði af hverju ekki að sækja um í Kvikmyndaskólanum?

Það sem kom mér mest á óvart var hópurinn af bæði góðum nemendum og kennurum sem tók á móti mér. Kynntist mörgum góðum samstarfsfélögum og vinum í þessum skóla og fékk alls konar sambönd. Ég vann hjá stafrænu auglýsingastofunni KIWI í eitt og hálft ár eftir útskrift en hætti síðan þar í janúar 2022 og fór að starfa sjálfstætt. Núna einbeiti ég mér mest að útivistar og ferðaverkefnum og er að elska það það! Hver veit hvað framtíðin ber í skauti sér."

- Sigurður Pétur

Arnar Dór

,,Það sem fékk mig til að sækja um í Kvikmyndaskólanum var að ég hafði alltaf haft gaman að því að taka upp og búa til myndbönd, alveg síðan ég man eftir mér. Kvikmyndaskóli Íslands var mér því ofarlega í huga í lok grunnskóla þar til í lok menntaskóla. Mig hafði lengi langað að vera tökumaður og ég ákvað að stökkva á tækifærið strax eftir útskrift úr menntaskóla.

Námið var virkilega fjölbreytt og skemmtilegt. Mikið af verklegum áföngum þar sem maður fær að spreyta sig í verki. Það sem kom mér mest á óvart var það hvað ég kynntist ótrúlega mikið af skemmtilegu og hæfileikaríku fólki. Eitt af því besta við Kvikmyndaskólann að mínu mati eru tengslin á milli nemanda og samvinna þeirra. Ég er enn þann dag í dag að vinna með fólki úr Kvikmyndaskólanum.

Eftir að ég útskrifaðist úr Kvikmyndaskóla Íslands í júní 2020, bauðst mér vinna hjá framleiðslufyrirtækinu Skjáskot, ég tók því og starfa þar enn. Ég er búinn að gera allskyns Auglýsingar, live streymi og unnið að þáttargerð sem dæmi frá því að ég útskrifaðist."

- Arnar Dór, útskrifaður 2020