Rannsóknir

Við skólann starfa nú fjórir akademískir starfsmenn sem sinna fjölbreyttum rannsóknum á sviðum kvikmyndagerðar og er í stefnu skólans að fjölga akademískum stöðum á komandi misserum. Eftirfarandi starfsmenn hafa frá hausti 2021 gegnt rannsóknarstöðum dósents við skólann: Hilmar Oddsson, fagstjóri leikstjórnar, Kjartan Kjartansson, fagstjóri hljóðs, Rúnar Guðbrandsson, fagstjóri leiklistar og Þórey Sigþórsdóttir, fagstjóri leiks og raddar. Meðal rannsóknaverkefna sem þau eru að vinna að má nefna eftirfarandi: Hilmar Oddson er að rannsaka notkun og áhrifamátt lita á öllum vinnslustigum kvikmynda, frá hugmynda- og handritsvinnu að tökum og eftirvinnslu kvikmynda. Hér er meðal annars tekist á við spurninguna um hvernig litir móta útfærslu og listræna úrvinnslu myndrænna verka. Kjartan Kjartansson er að greina og þróa aðferðarfræði hljóðgerðar, en með auknum gæðakröfum til hljóðeftirvinnslu í kvikmyndaverkefnum er mikilvægt að hugað sé að aðferðarfræðilegum þáttum til að ná fram hágæðaupptökum á hljóðgerðum sem notaðar eru í kvikmyndum. Rúnar Guðbrandsson er að skoða leiktækniþjálfun fyrir sviðsleiks og kvikmyndir. Þetta er öðrum þræði viðtalsrannsókn þar sem leitað er svara m.a. við spurningunni um hvaða leiktæknileg atriði það eru sem þjálfaðir leikarar telja mikilvæg fyrir annars vegar sviðsleik og hins vegar leik í kvikmyndum. Og Þórey Sigþórsdóttir er að rannsaka mikilvæg hlutverk raddar í sviðslistum. Hún er að takast á við spurningar í verkefninu eins og hvaða máli skiptir raddþjálfun fyrir listamenn og hvernig er rödd skapandi verkfæri í sviðslistum. 

 

Við skólann starfar einnig rannsóknarráð og er hlutverk þess að styðja við starfsemi akademískra starfsmanna og veita nemendum skólans tækifæri til rannsóknaþjálfunar. Rannsóknaráðið skipa Dr. Sigurjón Baldur Hafsteinsson, prófessor við Háskóla Íslands, Dr. Margrét Elísabet Ólafsdóttir, dósent við Listaháskóla Íslands og Dr. Ari Allansson, sjálfstætt starfandi kvikmyndagerðarmaður. Nánar er fjallað um hlutverk rannsóknaráðsins hér.