Reglur & stjórn

Háskólareglur* Kvikmyndaskóla Íslands

Byggjum upp blómlegan kvikmyndaiðnað

Kvikmyndaskóli Íslands (KVÍ) er menntastofnun sem sinnir menntun á sviði kvikmyndagerðar. Stefna skólans er að stuðla að uppbyggingu íslensks myndmiðlaiðnaðar með vandaðri kennslu, rannsóknum, fræðslu- og miðlunarstarfi á öllum sviðum kvikmyndagerðar.

*Hugtakið háskóli er notað vegna umsóknar um viðurkenningu á háksólastarfsemi, sem staðið hefur yfir undanfarin þrjú ár. Þó skólinn starfi ekki sem stendur sem viðurkenndur háskóli þá hefur uppfærsla á öllum reglum og stjórnsýslulegum gögnum miðast við að skólinn verði viðurkenndur háskóli að lokinni úttekt.

Formáli

  1. Almennt tíðkast ekki að gera formála að starfsreglum íslenskra háskóla. En rétt þykir að fylgja þessum fyrstu útgefnu háskólareglum Kvikmyndaskóla Íslands (KVÍ) & The Icelandic Film school (IFS) úr hlaði með nokkrum útskýringum.

    Útgáfa starfsreglna er síðasta skrefið sem stigið er í yfirfærslu Kvikmyndaskólans á háskólastig sem hófst formlega vorið 2020. Haustið 2020 var gefin út ítarleg sjálfsmatsskýrsla og árið 2021 var unnið að öllu regluverki og innleiðingu þess. Auk þess var ráðið í stöður og skipað í ráð vegna yfirfærslu á háskólastig. Í febrúar 2022 komu síðan út ítarlegar starfsreglur fyrir allar einingar háskólasamfélagsins auk þess sem innleiðing var metin. Þá kom út skýrsla með kynningu á þeim rúmlega 100 einstaklingum sem koma að hinum ýmsu ábyrgðarstöðum háskólasamfélags KVÍ/IFS. 

    Allan þennan tíma hefur skólinn opinberlega, þ.e. með útgefnu efni á heimasíðu, starfað eftir starfsreglum framhaldsskóla með öðrum lagatilvísunum og einfaldari umgjörð. Ástæða þessa er sú að starfsleyfi skólans frá Menntamálastofnun miðast við þessar útgefnu framhaldsskólareglur. Breytingar á reglunum er því tilkynningarskyld ákvörðun sem ekki er tekin fyrr en mjög skýr ferill liggur fyrir.

    Nú hafa stjórnvöld sett í gang lokaúttekt kvikmyndaskólans á grunni framlagðra gagna og á henni að ljúka í haust. Hér er um kostnaðarsama en lögbundna aðgerð fyrir stjórnvöld að ræða sem ekki er ráðist í nema að skólinn fullnægi fyrirfram öllum helstu skilyrðum háskólastarfsemi. Úttekt er ætlað að tryggja að allir gæðaþættir séu í lagi og leiðbeinandi til framtíðar. Nú er því talinn rétti tíminn til að gefa út háskólareglur og koma þeim inn í stjórnkerfi skólans.

    Þar sem útgáfa þessara háskólareglna er gerð samhliða alþjóðlegri úttekt á skólanum þá hefur verið sérstök áhersla lögð þau á alþjóðlegu viðmið sem háskólastarfsemi eru sett, og fella þau að kerfum hins 30 ára gamla Kvikmyndaskóla Íslands.

    Eftirfarandi gögn voru notuð til grundvallar og viðmiðs við gerð þessara háskólareglna;

    1.  Starfsreglur KVÍ sem framhaldsskóla á 4. þrepi, eins og þær eru samþykktar af Menntamálastofnun og hafa verið birtar á heimasíðu skólans. Núverandi viðurkenning er frá 2019, en kjarni þessara starfsreglna er frá 2007, þegar núverandi fjögurra deilda kerfi var komið á. Reyndar má rekja þær til 2003 þegar fyrsta viðurkenning stjórnvalda fékkst á tveggja ára diplómu skólans. Þessar reglur hafa reynst vel og mörg ákvæði byggð á reynslu. Til að gæta að samfellu og viðhalda núverandi gæðum þá eru fyrri reglur skólans notaðar sem grunnskjal.

    2. Háskólareglur KVÍ frá apríl 2020.
    Með formlegri umsókn Kvikmyndaskólans um háskólayfirfærslu í janúar 2020 hófst vinna við uppfærslu og í apríl voru fyrstu drög háskólareglna tekin í notkun sem vinnugagn. Þær voru kynntar ráðuneytinu og notaðar sem viðmið í starfseminni. Þessar reglur voru samt ekki gefnar út og því nefnum við núverandi reglur 1. útgáfu. Þessi drög frá 2020 eru fyrsta breytingaskjalið og notuð til viðmiðunar.

    3. Starfsreglur Háskólans í Reykjavík.
    Kvikmyndaskóli Íslands starfar í íslensku háskólasamfélagi og ber sig eðlilega saman við aðra háskóla. Ýmislegt mælir með því að nota HR sem viðmið, t.d þar sem báðir skólarnir eru einkaskólar og reknir sem einkahlutafélög. Það liggur beint við, eftir því sem við á, að bera saman þessar starfsreglur. Reyndar var það fyrst gert árið 2010 þegar Kvikmyndaskólinn setti stúdentspróf sem inntökuskilyrði og staðfesti þyngdarstig námsins. HR hefur á ýmsan hátt verið fyrirmynd fyrir KVÍ.

    4. ESG_2015  Leiðbeiningarammi Evrópusambandsins um gæðaskólastarf.
    Þetta er grundvallargagn í samhæfðri evrópskri háskólastarfsemi og hefur verið notað til leiðbeiningar í öllu yfirfærsluferlinu. Kvikmyndaskólinn hefur fullnægt evrópuviðmiðum í framsetningu kennsluskrár. Yfirfærslan kallar hins vegar á flóknari ráðningar- stjórnunar- og umsýslukerfi, auk þess sem komið er á virku akademísku rannsóknarstarfi. Niðurstaðan af innleiðingu ESG_2015 staðalsins hefur síðan verið framsett í skipuriti sem fengið hefur óformlega nafnið “klukkuverk háskólasamfélags KVÍ/IFS” og er birt sem hluti af þessum starfsreglum. Almenn niðurstaða er að evrópski ramminn sé mjög góður og markmið Kvikmyndaskólans er að uppfylla hann sem allra best. Skipulagið sem er kynnt í starfsreglunum og skipuriti tekur mið af ESG_2015 og KVÍ/IFS skilgreinir sig sem evrópskan háskóla.

    Margvísleg önnur gögn voru einnig lesin samhliða en grunngögn voru ofanrituð. Þá verður að nefna að lög um háskóla nr. 63/2006 eru lykilrammi.

    Þessi útgáfa af háskólastarfsreglum hefur verið yfirlesin af háskólayfirfærslunefnd Kvikmyndaskólans og samþykkt af stjórn. Miðað er við að næsta útgáfa komi út í janúar nk. en næstu mánuðir verða nýttir bæði til kynningar og frekari rýningar, m.a. hjá Kínema stjórn nemendafélags og háskólaráði.

1. Hlutverk

  1. Kvikmyndaskóli Íslands (KVÍ) / The Icelandic Film School (IFS) er evrópsk háskólastofnun sem sinnir kennslu, rannsóknum og varðveislu þekkingar og sköpunar á sviði lista. Hlutverk KVÍ/IFS er:

    1. að miðla til nemenda og samfélagsins faglegri sem og akademískri þekkingu, færni og hæfni á sviðum kvikmyndagerðar og leiklistar,
    2. að stunda kraftmikið rannsóknarstarf á sviði mynd- og hljóðmiðlunar og leiklistar,
    3. að bjóða faglega þjónustu fyrir listnámsbrautir framhaldsskólanna og önnur skólastig, atvinnulífið og stjórnvöld,
    4. að bjóða nemendum skólans hverju sinni upp á góða þjónustu og menntun undir vel skipulagðri gæðastjórn,
    5. að styðja eftir föngum við útskrifaða nemendur í námi og fagi sem og  áhugasöm ungmenni sem vilja kynna sér kvikmyndagerðar- og leiklistarnám,
    6. að skapa gróskumikið og metnaðarfullt akademískt samfélag þar sem byggt er á klassískum gildum Humboldt skólastefnunnar; þ.e. um að nám sé samvinna nemandans og kennarans í þágu listanna/(vísindanna), þar sem akademískir starfsmenn hafi rannsóknarfrelsi og jafningjastjórnun er beitt þar sem henni er við komið,
    7. að starfrækja kvikmyndaskóla þar sem fjölbreytni er fagnað og gætt er að stöðu minnihlutahópa. Leiðarljós starfsins er sjálfstæði, siðgæði, sjálfbærni, jafnrétti, ábyrgð og gæði,
    8. að kynna Ísland sem land þar sem boðið er upp á hágæðaskóla og -menntun,
    9. að leitast við að láta þá tíma sem við lifum á hafa listrænt vægi þar sem bæði er litið til fortíðar og framtíðar.

    Markmið KVÍ hefur ávallt verið uppbygging kvikmynda- og sjónvarpsiðnaðar ásamt eflingu kvikmyndamenningar. Einkunnarorð skólans eru: “Byggjum upp blómlegan kvikmyndaiðnað”.

    KVÍ/IFS býður upp á diplómanám á  háskólastigi.  Boðið er upp á fjórar 120 eininga diplómur. Háskólanám við KVÍ/IFS skal hafa viðurkenningu menntamálayfirvalda samkvæmt lögum nr. 63/2006.

2. Stjórnskipulag

  1. Háskólaráð sækir hlutverk sitt í 15. og 16. grein háskólalaga nr. 63/2006 sem stjórnunareining með fulltrúum nemenda og kennara.

    Hlutverk háskólaráðs er að;

    - vera vettvangur umræðna um stefnumótun háskólans hvað snertir nám, kennslu og rannsóknir

    - vera vettvangur umræðna um tengsl háskólans og atvinnulífsins

    - bera ábyrgð á endurskoðun skipulags- og starfsreglna

    - hafa eftirlit með að innra gæðastarfi skólans

    Háskólaskrifstofa, í samvinnu við formann háskólaráðs, heldur utan um formleg samskipti við fulltrúa háskólaráðs og meðferð og endurnýjun skipunarbréfa.

    Við skipan fulltrúa fagfélaga skal farið fram á að stjórnarmenn félaga og helst formenn sitji í háskólaráði. Verði breyting á stöðu þeirra innan félagsins þarf það þó ekki að þýða að fulltrúi hætti í háskólaráði, því lögð er áhersla á samfellu í störfum ráðsins. Félögin ráða þessu þó að sjálfsögðu sjálf. Verði skipt um fulltrúa þá gengur hann inn í fyrri skipan.

    Formaður háskólaráðs skal hafa reynslu af margvíslegri stjórnsýslu og vera með meistaragráðu í stjórnun og helst kennsluréttindi. Serstök þekking á kvikmynda- og sjónvarpsiðnaðinum er mikilvæg. Skipan nýs formanns háskólaráðs skal kynnt ráðherra menntamála og stjórnum þeirra fagfélaga sem skipa fulltrúa í ráðið og þeim boðið að koma með álit eða athugasemdir.

    Skipan fulltrúa í háskólaráð er til fjögurra ára, sem er tímabil tveggja námshópa til að hefja nám og útskrifast. Tímalengdin er hugsuð sem svo að utanaðkomandi fulltrúi ráðsins geti öðlast þekkingu á kerfum og getu skólans til að þjóna faginu í heild sinni og þá um leið hvernig skólinn geti best þjónað þeim sérhagsmunum sem fulltrúinn stendur fyrir. Ekki er um framlengingu að ræða eftir skipunartíma og skulu aðilar þá skipa nýjan fulltrúa. Formaður ráðsins getur hins vegar framlengt sitt skipunartímabil ef aðilar ráðsins eru því samþykkir. Greidd er þóknun fyrir setu í háskólaráði.

    Háskólaráð gegnir mikilvægu hlutverki í gæðakerfi skólans. Haldnir skulu fundir 2 - 4 sinnum á ári. Fyrir hvern fund skal rektor og skólaráð sjá til þess að stöðuskýrsla úr gæðakerfum skólans verði send formanni háskólaráðs, sem dreifir henni meðal fulltrúa. Óskað verður eftir áliti og ráðgjöf ráðsins. Mikilvægt er að allir fulltrúar ráðsins séu virkir þannig að fundargerðir endurspegli sjónarmið allra þeirra faghópa sem að ráðinu standa. Ráðið er að öðru leyti sjálfstætt að sinni dagskrá og getur ákveðið starfsemi sína innan þess lagaramma sem kynntur er hér að framan. Ákjósanlegast er ef háskólaráðið og meðlimir þess geti orðið virkir aðilar í opinberu lífi skólans.

    Stjórnsýslulega er Háskólaráð sjálfstæð eining sem starfar við hlið stjórnar og hefur mikið vægi í sínum ályktunum sem hún kemur til stjórnar skólans. Ráðinu er einnig heimilt að upplýsa Telemakkus, fagfélögin eða stjórnvöld um ákveðin málefni ef metin er þörf á því og eftir er leitað.

  2. Stjórn KVÍ/IFS er skipuð fimm aðalmönnum sem kosnir eru á aðalfundi til tveggja ára í senn af hluthöfum skólans. Skólarekstrarfélagið Telemakkus ehf er stærsti hlutahafinn í KVÍ/IFS og þar er fylgt eftirfarandi vinnureglum um skipan fulltrúa í stjórn: 

    Stjórnarformaður skal hafa góða rekstrar- og stjórnunarreynslu með farsælan feril. Hann skal hafa menntagráðu  sem er að lágmarki meistarapróf á sviði stjórnunar og/eða kennslufræða. Fagleg ástríða gagnvart skólastarfi, kvikmyndagerð og listum er áskilin. Ábyrgð skipunar stjórnarformanns liggur hjá hluthöfum og ábyrgðaraðilum skólans. Breytingar á skipan stjórnarformanns skulu kynntar ráðuneyti.

    Aðrir stjórnarmenn skulu vera ótengdir eigendum og öllum lykilstarfsmönnum skólans. Þeir eru skipaðir með eftirfarandi almennu skilyrði að leiðarljósi: Einn fulltrúi skal skipaður með kvikmyndakennslu og akademískt háskólastarf sem sérþekkingu - annar með viðskipta- og rekstrarreynslu, þriðji með stjórnsýsluþekkingu og sá fjórði með þekkingu á kennsluaðstöðu og rekstri fasteigna. Allir stjórnarmenn lúta hefðbundinni stjórnarábyrgð skv. lögum um einkahlutafélög. 

    Stjórn setur sér siðareglur og leggur til samþykktar.

    Stjórnin ræður rektor KVÍ/IFS og ákveður starfskjör hans. Stjórn staðfestir allar ráðningar lykilstarfsmanna við skólann. Stjórn er í ráðgefandi jafningjasambandi við háskólaráð og rannsóknarráð skólans. 

    Stjórn félagsins, annast umsýslu eigna og fjárhagslegra þátta í starfsemi háskólans. Hún veitir  prókúruumboð fyrir félagið. Stjórnin sinnir hefðbundnum stjórnarstörfum og ber þannig ábyrgð á stefnumótun, stjórnskipulagi og fjármálum. Formaður stjórnar boðar stjórnarfund með dagskrá með minnst þriggja daga fyrirvara, nema brýn nauðsyn sé á að halda fund með skemmri fyrirvara. Fundur er lögmætur ef meirihluti stjórnarmanna situr hann. Afl atkvæða ræður úrslitum mála á stjórnarfundum, en þó þurfa minnst þrír stjórnarmenn að greiða tillögu atkvæði sitt til þess að hún teljist samþykkt. Það sem gerist á fundum stjórnar skal bókað í gerðarbók. Félagið ábyrgist skuldbindingar félagsins með eignum sínum. Stjórnin skal hafa stöðugt eftirlit með rekstri háskólans, bókhaldi og meðferð á fjármunum hans. Stjórnin afgreiðir rekstrar- og fjárfestingaráætlun fyrir háskólann og ársreikning hans.

    Daglegur rekstur, þar með talið starfsmannahald, fjármálaumsýsla, áætlunargerð og bókhald félagsins, er í höndum rektors og skólaráðs.

  3. Við skólann starfar rannsóknarráð. Hlutverk þess er skipulag, ráðgjöf og tillögugerð vegna akademískra rannsókna við Kvikmyndaskóla Íslands. Ráðið skal skipað þremur doktorum sem tengjast sjónrænum miðlum. Fjórði fulltrúinn er frá skólanum og ber hann ábyrgð á skráningu upplýsinga. Verksvið ráðsins er tvískipt. Annars vegar er það ráðgjöf við akademíska starfsmenn vegna rannsóknarvinnu þeirra og hins vegar er það ráðgjöf og eftirlit vegna starfsemi rannsóknarstofu skólans. Nánar er fjallað um starfsemi rannsóknarráðs og rannsóknarstofu í sérreglum. Kvikmyndaskólinn virðir fræðilegt sjálfstæði starfsmanna sinna. Fræðilegt sjálfstæði starfsmanna felur í sér rétt þeirra til að fjalla um kennslugrein sína og rannsóknarsvið á þann hátt sem þeir telja skynsamlegt og í samræmi við fræðilegar kröfur. Fræðilegt sjálfstæði dregur ekki úr ábyrgð starfsmanna um að fara að almennum starfsreglum og siðareglum háskólans. Viðfangsefni rannsókna og kennslu á fræðasviði háskólans skulu vera óháð afskiptum þeirra sem eiga skólann eða leggja honum til fé.

  4. a. Í reglum um mat á hæfi akademískra starfsmanna KVÍ eru kröfur um rannsóknir töluverðar og mjög afgerandi þegar prófessorshæfi er metið. Þannig eru gerðar skýrar kröfur til prófessora skólans um að þeir séu virkir í faglegri umræðu og raunverulega tilbúnir til fræðistarfa. Með þessum hætti er tryggt að þeir akademísku starfsmenn sem ráðnir eru til fræðistarfa hafi til þess ríkan metnað, reynslu og getu. 

    b. Ströng skilyrði eru fyrir því að fá listverk metin sem rannsókn. Almennt er skýrt að rannsókn er rannsókn sem lýtur vísindalegri aðferðafræði og listsköpun er listsköpun sem lýtur listagyðjunni. Skörun þarna á milli getur orðið, en í uppleggi eru skýr skil á milli. Með þessu eru gerðar kröfur til akademískra starfsmanna um að þeir stundi rannsóknir, ráði þeir sig til þeirra starfa. Þeir gera sér grein fyrir að í rannsóknunum eru önnur viðmið og annar vettvangur en í listsköpuninni. 

    c. Skólinn sem listaháskóli þarf að sækja ráðgjöf, kennslu og stuðning frá ýmsum vísindaakademíum. Á sama tíma þarf skólinn og vísindamenn hans að vinna að rannsóknum sínum út frá eigin þekkingu reynslu og kunnáttu. Skýr fjármögnun þarf að vera á rannsóknarstarfi og bein úthlutun fjármuna til rannsóknaraðila skal fara eftir gagnsæjum reglum. 

  5. Yfirstjórn kvikmyndaskólans í umboði stjórnar er daglega í höndum skólaráðs sem ber ábyrgð á að allir þættir starfseminnar séu af fullum gæðum. Skólaráð er skipað rektor, A fagstjóra/ starfsmannastjóra og gæðastjóra/fjármálastjóra. 

    Stjórnunarsvið Skólaráðs KVÍ/IFS nær yfir eftirfarandi starfsþætti:
    1. Samninga, lög og reglur sem KVÍ/IFS hefur undirgengist.
    2. Daglega þjónustu og afgreiðslu erinda.
    3. Skipulag og stjórnun starfsmanna. Ráðningar kennara og leiðbeinenda.
    4. Skipulag, stjórnun og aðstoð við ráð og nefndir .
    5. Gæðastjórnun.
    6. Rekstrarmál.
    7. Útgáfumál.
    8. Sölu- og kynningarstörf.

    Skólaráð heldur vikulega fundi. Sjá nánar um skólaráð í skýrslu um stjórnsýslueiningar.

  6. Nemendafélag KVÍ/IFS heitir Kínema. Skipað er í stjórn þess samkvæmt reglum sem nemendur setja sjálfir. Stjórn Kínema er mikilvægur tengiliður nemenda við stjórnsýslu skólans. Kínema skipar fulltrúa í Háskólaráð, Kennsluskrárnefnd, Prófanefnd og Gæðaráð skólans. Árlegri skipan fulltrúa nemenda skal vera lokið fyrir 10. september ár hvert. Stjórn Kínema skal funda með Skólaráði amk einu sinni á hverju misseri, þar sem farið er yfir skólastarfið.  

  7. Hlutverk Gæðaráðs er skipulegt eftirlit með gæðum starfseminnar, úrvinnsla gagna, gerð tillagna og ábendinga til skólaráðs og eftirfylgni úrbóta. Gæðaráð er skipað gæðastjóra, sem jafnframt er formaður, skrifstofustjóra, námsstjóra, forseta kjarna, tæknistjóra og fulltrúa nemenda.

    Markmið eftirlits með gæðum kennslu og rannsókna í KVÍ/IFS er:
    a) að tryggja að skilyrði fyrir viðurkenningu háskóla séu uppfyllt,
    b) að tryggja að viðmið um æðri menntun og prófgráður séu uppfyllt,
    c) að bæta kennslu og rannsóknir á markvissan hátt,
    d) að stuðla að aukinni ábyrgð KVÍ/IFS á eigin starfi,
    e) að tryggja samkeppnishæfni háskóla á alþjóðavettvangi.

    Stjórnkerfi gæðastýringar hjá KVÍ er skilgreint í Gæðastefnu og Stjórnsýsluskýrslu KVÍ. Þar er skilgreint hverjir hafi hlutverk í framkvæmd gæðastefnunnar, hvaða lykilverkferlar eru til staðar, hvernig þátttöku nemenda og starfsmanna er háttað í gæðastarfinu, hvernig ferli stöðugra úrbóta er útfært, hvernig kerfisbundinni gagnasöfnun er háttað til að bæta gæði og hvernig haldið er utan um úrbótaverkefni.

    Gæðakerfi KVÍ leggur áherslu á ferli stöðugra úrbóta þar sem lykilferli innra starfs er reglulega endurskoðað og gögnum safnað kerfisbundið til að meta hlítni við gæðakröfur, m.a. með reglulegum gæðaúttektum og innra mati. Niðurstöður eru síðan nýttar til að stofna til úrbótaverkefna sem sett eru í forgangsraðaða úrbótaáætlun til úrvinnslu hjá viðkomandi aðila. KVÍ leggur þannig áherslu á stöðugt endurmat innra starfs og fylgir í því skyni ferlum sem meðal annars fela í sér;

    a)    árlega endurskoðun kennsluskrár,
    b)    eftirfylgni með skólastarfi og skuldbindingu þess við hæfniviðmið í kennsluskrá,
    c)     greiningu á námsárangri, matsaðferðum kennara og dreifingu einkunna,
    d)    greiningu á mati nemenda á gæðum kennslu og skólastarfs,
    e)    vandað mat á bakgrunni nemenda, sérstaklega þegar heimilaðar eru undanþágur frá kröfu um stúdentspróf,
    f)      eftirfylgni með vönduðu starfsmannavali, þ.e. að starfsfólk sé ávallt valið á grundvelli styrkleika; menntunar, reynslu og árangurs í faginu,
    g)    mat á vinnuumhverfi og búnaði nemenda og kennara,
    h)    vandað innleiðingakerfi kennara og leiðbeinenda.

    Rektor ber ábyrgð á faglegri framkvæmd á endurskoðun kennsluskrár, reglubundnum úttektum á öllum þáttum gæðakerfis skólans og upplýsingagjöf til nemenda, starfsfólks og Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins, eftir því sem við á.

    Kvikmyndaskólinn sinnir kerfisbundnu eftirliti með gæðum kennslu og rannsókna á grundvelli innra mats sem framkvæmt er reglulega með virkri þátttöku starfsmanna og nemenda. Innra matið snýr að stefnu og markmiðum, inntaki náms, kennslu, kennsluháttum, námsmati, rannsóknum, árangri rannsókna, aðbúnaði, stjórnun og ytri tengslum. Niðurstöður innra mats eru nýttar í úrbótaverkefnum og eru birtar á heimasíðu KVÍ. Starfsmenn og nemendur taka virkan þátt í innra gæðastarfi KVÍ samkvæmt gæðastjórnunarkerfi KVÍ, þar með talið innra mati, þátttöku í gæðaráði og í vinnu við þróun námskeiða og námsleiða. Gæðakerfi skólans er í stöðugri þróun og mótun. Allt starfsfólk skólans er upplýst um gæðaáherslur og þjálfað til að vinna að stöðugum umbótum í anda gilda KVÍ.

2.7 Fagnefndir og Ráð

  1. Kennsluskrárnefnd er ábyrg fyrir hönnun og árlegri uppfærslu kennsluskrár fyrir allar deildir skólans og kjarna. Fulltrúar eru 5 og fastir fundir tvisvar á ári. Útgáfa kennsluskrár er 1. júlí ár hvert. Formaður kennsluskrárnefndar er námsstjóri. Auk hans sitja í nefndinni; forseti kjarna, fulltrúi fagstjóra skipaður á fagstjórafundi, gæðastjóri og fulltrúi nemenda skipaður af Kínema. Fulltrúar fagstjóra og nemenda eru skipaðir til eins árs í senn og skal skipun fara fram eigi síðar en 10. september ár hvert. Skólaráð stýrir framkvæmd skipana í nefndina í samvinnu við formann og hefur eftirlit með vinnu hennar.

  2. Prófanefnd hefur eftirlit með að hæfnimat í skólanum sé af reglubundnum gæðum frá ári til árs og að námsmat sé réttlátt, faglegt og leiðbeinandi. Prófanefnd er skipuð námsstjóra, sem jafnframt er formaður, skrifstofustjóra háskólaskrifstofu, fulltrúa nemenda og gæðastjóra sem skráir fundargerð. Prófanefnd heldur einn formlegan fund á misseri, en fleiri ef þurfa þykir.

  3. Hlutverk ráðsins er að fylgjast með námsframvindu nemenda, kennslumati á kennurum/leiðbeinendum og gæðum námskeiða. Framvinduráð fundar einu sinni í mánuði og fer yfir gögn mánaðarins og metur hvort bregðast þurfi við einhverjum málum. Eins skal greint það sem vel hefur tekist til. Í janúar og júní eru haldnir uppgjörsfundir nýlokins skólamisseris. Halda skal fundargerð um niðurstöður. Framvinduráð er skipað rektor, sem jafnframt er formaður, starfsmanna- og A fagstjóra, námstjóra, gæðastjóra og forseta Kjarna.

  4. Hlutverk Framleiðsluráðs er yfirumsjón með allri kvikmyndaframleiðslu skólans hvað varðar tæki, tæknibúnað og vinnsluferla. Framleiðsluráð kemur einnig að aðstoð við dreifingu mynda á kvikmyndahátíðir og gerð starfsþjálfunarsamninga við fyrirtæki. Hlutverk Framleiðsluráðsins er að sjá til þess að skipulag og umgjörð framleiðslu sé með þeim hætti að bestu möguleikar séu fyrir nemendur að ná gæðum í kvikmyndir sínar. Ráðið er ábyrgt fyrir gerð framleiðsluáætlunar sem liggur fyrir í upphafi misseris. Ráðið fylgist síðan með að áætlanir haldi. Ráðið er skipað A fagstjóra, námsstjóra og tækni-, framleiðslu- og rekstrarstjóra sem er formaður.

  5. Hlutverk Listráðs er stefnumótun, samhæfing og eftirlit með öllum framleiðsluverkefnum skólans auk þess að vera bakhjarl og stuðningsaðili við kennara varðandi listrænar áherslur.  Rektor stýrir Listráði framleiðslu í skólanum og er jafnframt formaður þess. Með honum sitja námsstjóri og A fagstjóri. Listráð fundar með kennurum sem stýra framleiðslunámskeiðum í skólanum og fer yfir áherslur í kennslunni, m.a. byggt á framleiðslu fyrri missera.
    a. Listráð fundar með kennurum vegna verkefna annarra en útskriftarmynda í upphafi misseris og skilar síðan af sér stuttu mati á verkefnum eftir misserið.
    b. Vegna útskriftarmynda fundar Listráð með kennurum tvisvar á misseri til að fara yfir inntak og framgang verka. Ráðið skilar af sér stuttri greinargerð og mati á gæðum útskriftarmynda. 

  6. Fagstjóraráð hefur sérstakt eftirlit með stoðgreinanámskeiðum og vinnur með Kennsluskrárnefnd að framþróun þeirra. Fagstjórar hverrar deildar koma sér saman um fulltrúa deildar í Fagstjóraráð. Ráðið heldur einn fund á ári í apríl og fer yfir námskeiðin og upplýsingar. Námsstjóri, sem jafnframt er formaður kennsluskrárnefndar, situr fundinn og kynnir stöðu og árangur stoðgreina.

  7. Utanaðkomandi dómnefnd metur hæfi umsækjenda í stöður lektora, dósenta og prófessora við KVÍ/IFS. Sjá nánar í sérreglum og stjórnsýsluskýrslu.

  8. Hlutverk Talnaráðs KVÍ/IFS er að vera stjórnendum, ráðum og nefndum, til ráðgjafar um tölur og úrvinnslu talnaupplýsinga í skólastarfinu. Í Talnaráði sitja tveir utanaðkomandi fulltrúar, tölfræðingar, stærðfræðingar eða stjórnendur sem eru mjög vanir að vinna með tölur. Þeir skulu skipaðir af stjórn til þriggja ára í senn.

  9. Sérstök úrskurðarnefnd fer með æðsta úrskurðarvald innan skólans í agamálum og í málum sem tengjast réttindum nemenda. Skipað er í nefndina sem viðbragð við málum sem  kunna að koma upp. Skólaráð tekur ákvörðun um virkjun úrskurðarnefndar hverju sinni, en það skal ávallt gert í meiriháttar málum er varða nemendur, t.d. ef vísa á nemanda úr skóla vegna agabrota. Í úrskurðarnefnd sitja þrír fulltrúar skólaráðs, tveir fulltrúar starfsmanna og kennara skipaðir á starfsmannafundi ásamt tveimur fulltrúum nemenda sem eru skipaðir af stjórn Kínema. Reynt skal að haga skipunum kennara og nemenda þannig að aðilar séu sem mest ótengdir málum sem til umfjöllunar eru.

    Nemendur njóta andmælaréttar í samræmi við góða stjórnsýsluhætti. Uni nemandi ekki niðurstöðum úrskurðarnefndar, getur hann skotið erindi sínu til stjórnar skólans. Uni nemandi ekki niðurstöðu stjórnar getur hann sent mál sitt til áfrýjunarnefndar Menntamálaráðuneytis.

  10. Sérstök siðanefnd fjallar um meint brot á siðareglum KVÍ/IFS. Skipað er í nefndina sem viðbragð við málum sem kunna að koma upp. Skólaráð tekur ákvörðun um hvort virkja skuli siðanefnd. Í siðanefnd sitja tveir fulltrúar skólaráðs, tveir fulltrúar starfsmanna og kennara skipaðir á starfsmannafundi auk eins fulltrúa nemenda sem er skipaður af stjórn Kínema. Reynt skal að haga skipunum kennara og nemenda þannig að aðilar séu sem mest ótengdir málum sem til umfjöllunar eru.
    Hlutverk siðanefndar háskólans er að taka til skoðunar ábendingar um brot á siðareglunum og taka afstöðu til þess hvort um brot á þeim er að ræða og um grófleika brots. Niðurstöður siðanefndar skulu vera leiðbeinandi fyrir afgreiðslu skólaráðs á málum.

2.8 Stjórnendur og Starfsdeildir

  1. Stjórn KVÍ/IFS ræður rektor skólans með hliðsjón af stöðu og markmiðum skólans. Rektor skal hafa staðfestan viðurkenndan listrænan feril á sviði kvikmyndagerðar. Lágmarksmenntunarkrafa rekstors er meistagráða. Stjórn mótar ráðningaferil rektors, sem getur verið breytilegur, eftir því sem best þykir henta. Markmiðið er alltaf að finna hæfasta stjórnandann hverju sinni til að leiða fram sameiginlega stefnu um starfrækslu framúrskarandi háskóla. Stjórn skal móta gagnsæjar vinnureglur um þá eiginleika sem sóst er eftir með rektor. Dómnefnd skal meta hæfi rektors. Endanlegt hæfismat þarf ekki að liggja fyrir við ráðningu og upphaf starfs. Ráðning er gerð á grundvelli skriflegrar umsóknar og fylgigagna, sem innifela staðfestingar á prófgráðum og lykilupplýsingum.

    Stjórnsýslueiningarnar Háskólaráð, Rannsóknarráð og stjórn Kínema, skulu hafa umsagnarrétt áður en til ráðningar kemur. Væntanleg ráðning skal einnig kynnt starfsfólki, fagstjórum, dómnefnd ogföstum kennurum. Ráðningaferill skal vera studdur skriflegum gögnum og fundargerðum. 

    Rektor ber ábyrgð á að starfsemi skólans sé í samræmi við hlutverk hans, markmið, gæðakröfur og samningsbundnar skyldur. Rektor ræður starfsmenn sem heyra beint undir hann en ráðning yfirstjórnenda skal framkvæmd í samvinnu við stjórn KVÍ/IFS og dómnefnd um akademískt hæfi.  Rektor leggur fram fjárhags- og rekstraráætlun fyrir stjórn í upphafi hvers reikningsárs og ber ábyrgð á útgáfu skýrslu um starfsemi skólans í lok hvers skólaárs. Rektor kemur fram fyrir hönd skólans og er málsvari hans. Nánar er kveðið á um starfsskyldur rektors í starfssamningi.

    Rektor skal ráðinn með hefbundnum uppsagnarákvæðum en skipan hans er í 5 ár og getur fengist framlengd einu sinni. Skal þá endurnýja samning og kynna hann í stjórnsýslueiningum eins og um nýráðningu sé að ræða.

  2. AFS skal hafa fullgild kennsluréttindi auk reynslu af kennslu og skólastarfi. AFS skal einnig hafa víðtæka faglega reynslu af kvikmyndagerð. Þekking á framleiðslu er mikilvæg en einnig á listrænum þáttum. Hlutverk AFS er að tryggja skólafaglega starfsemi skólans í öllum ferlum er lúta að nemendum, kennurum, leiðbeinendum og fagstofnunum.  AFS hefur umsjón með  starfsmannahaldi skólans, launþegum, föstum verktökum, fagstjórum ásamt kennurum og leiðbeinendum í samvinnu við rektor. AFS kemur einnig að daglegum samskiptum við nemendur vegna námsskipulags og annarra mála. Hann er staðgengill rektors í fjarveru hans. Hann situr í skólaráði ásamt rektor og gæða/fjármálastjóra. Nánari verklýsing kemur fram í ráðningarsamningi.

  3. GF skal vera með háskólamenntun á sviði viðskipta og stjórnunar. Hlutverk gæðastjóra er eftirlit og eftirfylgni með gæðastefnu skólans. Hann er formaður gæðaráðs sem setur gæðastarfinu árleg viðmið. Gæðastjóri skipuleggur innra eftirlit í samráði við aðra stjórnendur og stýrir skipulagi fastra funda og ráða skólans. Fjármálastjóri tekur þátt í fjárhagsáætlanagerð og rekstrareftirliti. Nánari verklýsing kemur fram í ráðningarsamningi.

  4. Hlutverk háskólaskrifstofu er fjórþætt;
    a) Umsjón með gagnasöfnum sem verða til við starfsemi skólans (móttaka/ söfnun, skrásetning, varðveisla, aðgengi).
    b. Reikningagerð vegna skólagjalda og eftirlit með innheimtu þeirra ásamt útgreiðslu reikninga og launa, og skilum á gögnum í bókhald.
    c) Skráning námsárangurs og gerð prófskírteina. Uppfærsla og árleg keyrsla nemendaskrár ásamt vinnslu upplýsinga
    d) Upplýsingagjöf og þjónusta.

    Yfirmaður háskólaskrifstofu nefnist skrifstofustjóri. Hann skal hafa mikla reynslu í skipulagi og stjórnun skrifstofuhalds. Nákvæmari lýsingu á starfsemi háskólaskrifstofu er í stjórnsýsluskýrslu.

  5. Kjarninn er 25% af náminu eða 30 einingar þvert á deildir. Hlutverk deildarinnar er umsjón og ábyrgð á skipulagi kennslu, stundarskrárgerð og ráðning bæði kennara og leiðbeinenda vegna náms í kjarna. Deildin sér einnig um þróun kennsluskrár og framtíðarskipulags skólans.

    Við kjarnann eru tvær nafnbótarstöður. Yfirmaður Kjarna nefnist forseti og skal hann hafa að lágmarki dósentahæfi. Hlutverk forseta er umsjón með að markmiðum kjarna sé náð. Markmið Kjarnans er að tryggja að nemandinn öðlist staðfesta lágmarks kunnáttu á öllum sviðum kvikmyndagerðar ásamt því tryggja stöðuga skrásetningu sögu skólans. Forseti hefur kennsluskyldu og kennir kvikmyndafræðinámskeið skólans. Forseti kjarna skrifar innri sögu skólans, hefur umsjón með útgáfu útskriftarbæklings skólans, skrifar um afrek útskrifaðra og önnur ritstörf tengd skólahaldinu. Forseti kjarna hefur einnig formleg samskipti við rannsóknarráð vegna útgáfumála.

    Við skólann er einnig lektorsstaða með kennslu- og starfsskyldu og umsjón með framleiðslunámskeiðum Kjarnans. Lektor hefur umsjón með allri tölvuskráningu og innskráningu einkunna, Lektor kjarna hefur umsjón með skipulagnu og skráningu kvikmynda sem framleiddar eru í kjarna. Þá vinnur hann með námstjóra að skipulagi SAM eininga skólans. Auk þess kemur hann að vali á Cilect mynd ársins. Lektor sinnir einnig öðrum verkefnum sem honum eru falin.  Menntunarkröfur eru að lágmarki meistarapróf í kvikmyndagerð eða listum og auk þess er gerð krafa um mikla reynslu í kvikmyndagerð.

  6. Hlutverk sérdeilda er umsjón og ábyrgð á skipulagi kennslu og stundarskrárgerð í öllum fjórum deildum skólans. Yfirmaður sérdeilda nefnist námsstjóri. Menntunarkröfur skulu vera að lágmarki meistarapróf í kvikmyndagerð eða listum og mikil reynsla í kvikmyndagerð. Námsstjóri ræður fagstjóra á sérlínur og stýrir störfum þeirra í samráði við rektor. Í samvinnu við fagstjóra ræður hann kennara og leiðbeinendur til starfa og hefur eftirlit með störfum þeirra. Hann vinnur einnig að gerð kennslumats, umsjón með gerð kennsluefnis og stýrir árlegri endurskoðun á kennsluskrá. Námsstjóri sinnir einnig sölu- og kynningarstarfi og stýrir inntöku nemenda.

  7. Yfir hverri sérlínu innan deilda eru fagstjórar: Tveir í deild 1; yfir leikstjórn og yfir framleiðslu. Fjórir í deild 2; yfir kvikmyndatöku, yfir hljóðvinnslu, yfir klippingu og yfir myndbreytingu. Þrír í deild 3; yfir leikstjórn, yfir kvikmyndahandritum í fullri lengd og yfir tegundum handrita. Þrír í deild 4; yfir leiklist, yfir leik & hreyfingu og yfir leik og rödd. Sami fagstjóri er yfir leikstjórn í deild 1 og 3 sem kennd er saman á 1. og 2. misseri. Samtals eru fagstjórar 11. Hlutverk fagstjóra er þátttaka í mótun náms á sérlínum, sjá um heildarskipulag kennslu, eftirlit og gæðamat og samhæfing náms með öðrum fagstjórum og skólastjórnendum. Þeir eru til viðtals fyrir nemendur vegna faglegra þátta námsins. Fagstjórar kenna að lágmarki eitt námskeið á sérlínu en aldrei fleiri en þrjú. Rektor ræður fagstjóra í samvinnu við námstjóra. Einn fagstjóri úr hverri deild skipar fulltrúa í fjögurra manna fagstjóraráð (sjá umfjöllun um fagstjóraráð). Menntunarkröfur eru háskólapróf og veruleg reynsla á sérsviði. Að auki skulu fagstjórar hafa kennslureynslu við skólann áður en þeir eru ráðnir, að lágmarki þrjú námskeið.

  8. Öll umgjörð skólahaldsins, húsnæði, tæknibúnaður og framleiðsluferlar allrar kvikmyndagerðar innan skólans eru á ábyrgð þessarar deildar. Hún kemur einnig að atvinnumiðlun, kynningarstarfi og margvíslegu viðburðastarfi. Deildin hefur einnig umsjón með safnastarfi skólans í samráði við háskólaskrifstofu. Yfirmaður deildarinnar nefnist tækni- rekstrar- og framleiðslustjóri (TRF). Menntunarkröfur eru tæknimenntun á sviði kvikmyndagerðar og mikil reynsla í faginu. Hlutverk TFR er umsjón og ábyrgð með öllum tæknibúnaði vegna framleiðslu, kennslu og á rekstri tækjaleigu. Hann sinnir einnig gerð framleiðsluáætlana samhliða stundarskrárgerð og stýrir framleiðsluráði. TFR hefur eftirlit með tækninýjungum og gerir tillögur að innkaupum í samráði við rektor og skólaráð. Hann hefur umsjón með kennsluhúsnæði og kennslubúnaði. Við deildina starfa 2 til 6 tæknimenn undir stjórn TFR.

  9. Námsstuðningur skiptist í eftirfarandi þætti: 

    a) Námsráðgjöf og persónuleg stuðningsviðtöl, 

    b) Aðgengismál og námsaðstöðu, 

    c) Frjálst list-, fræði- og rannsóknarstarf, 

    d) Stuðning við útskrifaða vegna náms eða vinnu. 

    e) Almennan stuðning allra starfsmanna til ráðgjafar og stuðnings.

    Námsráðgjafi skal hafa háskólamenntun á sviði kennslufræða og reynslu af ráðgjöf. Mótttökustjóri sér um alla almenna þjónustu við nemendur, kennara og starfsfólk.

3. AKADEMÍSKIR STARFSMENN

  1. Starfsmenn KVÍ/IFS sem sinna kennslu eða rannsóknum nefnast akademískir starfsmenn.
    Eftirfarandi stöðuheiti og nafnbætur eru nýtt um akademíska starfsmenn:

    Prófessor: sinnir rannsóknum og valinni kennslu. Leiðandi listamaður á sínu sérsviði um árabil og virkur á alþjóðlegum vettvangi.
    Dósent: sinnir stjórnsýslu, rannsóknum og valinni kennslu. Viðurkenndur listamaður á sínu sérsviði, með alþjóðlega viðurkenningu.
    Lektor: sinnir kennslu, grunnrannsóknum og stjórnsýslu. Með mikla þekkingu á sérsviði og töluverða kynningu á verkum sínum.
    Aðjúnkt: fastur starfsmaður í hlutastarfi eða fullu starfi sem sinnir einkum kennslu og aðstoð við stjórnsýslu. Sérfræðingur á fagsviði og með mikla reynslu í faginu.
    Stundakennari: lausráðinn starfsmaður í hlutastarfi við kennslu.  Sérfræðingur á fagsviði og með reynslu í faginu.

    Flestir kennara KVÍ/IFS eru stundakennarar, enda er það meginstefna skólans að kennarar og leiðbeinendur séu virkir og starfandi kvikmyndagerðarmenn og leikarar. Rektor ræður fastráðna kennara að fengnu mati dómnefndar og stundakennara samkvæmt tillögum námsstjóra og stjórnenda í kjarna. Þeir leiðbeinendur sem ekki hafa kennsluréttindi starfa undir sérstöku eftirliti námstjóra sem leiðir þá inn í starfið og veitir þeim ráðgjöf.

    Akdemískir starfsmenn, aðrir en aðjúnktar og stundakennarar skulu ráðnir út frá mati dómnefndar sem er skipuð samkvæmt 18. gr. laga um háskóla nr. 63/2006. Í dómnefnd skulu sitja 3 fulltrúar með doktorspróf, þar af amk 1 sem starfar fyrir utan skólann.

  2. Til þess að hljóta stöðu lektors, dósents eða prófessors þarf að liggja fyrir mat á hæfi viðkomandi. Fjallað er um viðmið, hæfismat og nýráðningar í framgangsstöður í Reglum um ráðningar og framgang (sjá sérreglur). 

  3. Meginreglan hjá KVÍ/IFS er að ráða sjálfstætt í kennslu-, stjórnsýslu- eða rannsóknarstöður. Sami aðili getur þannig verið með þrjá samninga við skólann, ýmist sem launþegi eða í verktöku. Rannsóknarstöður eru alltaf á launþegasamningum. Allar nafnbótarráðningar, einnig aðjúnktar, skulu ráðnir á grunni auglýsingar (innanhúss eða opinber) og skulu leggja inn umsóknargögn og dómnefnd skal meta hæfi. Undantekningu má gera með tímabundna ráðningu til allt að sex mánaða.

  4. Markmið skólans er að hlutfall akademiskra starfsmanna gagnvart nemendafjölda á hverju misseri verði ekki undir ⅕  á hverju misseri í skólanum í heild. Markmiðið er að rannsóknarstöður við skólann verði 16 (25% stöður) og akademískir starfsmenn með nafnbætur um 30 í fullsetnum skóla KVÍ/IFS.

4. NÁM OG KENNSLUSKIPULAG

  1. Námsleiðir skólans eru skilgreindar í samræmi við þau fyrirmæli sem fram koma í lögum um háskóla nr. 63/2006 og auglýsingu nr. 530/2011 um útgáfu viðmiða um æðri menntun og prófgráður.

  2. Kennsla við Kvikmyndaskóla Íslands fer fram á skilgreindum námsbrautum sem byggðar eru upp á námskeiðum sem metin eru til eininga og skipulögð í samræmi við auglýsingu nr. 530/2011 um útgáfu á viðmiðum um æðri menntun og prófgráður. 

    Fullt nám telst 60 einingar (ECTS) á námsári að jafnaði og innifelur það alla námsvinnu nemanda.

    Í Kvikmyndaskóla Íslands eru 4 deildir sem bjóða upp á eftirfarandi prófgráður: 

    Deild 1. Leikstjórn og Framleiðsla. Diplómapróf. 120 ECTS einingar
    Deild 2. Skapandi tækni. Diplómapróf. 120 ECTS einingar
    Deild 3. Handrit og Leikstjórn. Diplómapróf. 120 ECTS einingar
    Deild 4. Leiklist. Diplómapróf. 120 ECTS einingar.

  3. Reglur um inntökuskilyrði eru í samræmi við 19. gr. laga nr. 63/2006 um háskóla. Við mat á nemendum inn í skólann er skoðaður bakgrunnur nemenda hvað varðar menntun, atvinnureynslu og lífsreynslu almennt. Umsækjendur í allar deildir skólans skulu hafa lokið stúdentsprófi eða jafngildu prófi. Skólanum er þó heimilt að veita inngöngu í skólann umsækjendum sem búa yfir þekkingu og reynslu sem telst fullnægjandi undirbúningur fyrir nám við skólann. Rektor ákveður samkvæmt umsögn inntökunefndar hvaða nemendum skuli veitt innganga í skólann á þessum forsendum, Umsækjendur í deild 4 (leiklistardeild) þurfa að þreyta verklegt inntökupróf ásamt viðtölum. Inntökunefndir við skólann eru skipaðar námsstjóra ásamt völdum kennurum. Tekið er við nýnemum inn í skólann bæði á haust- og vormisseri og skal gæta samræmis og jafnræðis við afgreiðslu umsókna. Hámarksfjöldi í hvern bekk er 12 nemendur. Alltaf er opið fyrir umsóknir og inntökuviðtöl og próf eru haldin reglulega.

  4. Kennsluár skiptist í tvö kennslumisseri; haustmisseri og vormisseri. Á kennslumisseri skulu eigi vera færri en 17 kennsluvikur. Próf og leyfi koma þar til viðbótar þannig að námstími á önn er um 18 til 19 vikur. Engin kennsla fer fram á lögboðnum frídögum. Niðurstöður námsmats skulu liggja fyrir innan viku eftir útskrift af önn. Við útskrift úr skólanum skulu allar einkunnir og umsagnir liggja fyrir á útskriftardegi. Útskriftir fara fram tvisvar á ári; við lok haustmisseris í kringum 20. desember og við lok vormisseris í kringum 25. maí. Til að fá brautskráningu þurfa nemendur að hafa lokið öllum námskeiðum samkvæmt námskrá við upphaf náms. Þeir skulu einnig vera að fullu skuldlausir við skólann.

  5. Einingakerfi skólans byggir á ECTS-kerfinu (European Credit Transfer System). Vinnutími meðalnemanda er áætlaður 25 til 30 klst. að baki hverri einingu. Miðað er við að hver kennsluvika sé að meðaltali 2 einingar. Meginreglan er sú að nemandi þarf að ljúka 30 einingum til að flytjast á milli missera. Veikindi eða viðurkennd forföll geta skapað undanþágu frá þeirri reglu en þó má aldrei vanta meira en 6 einingar upp á námsárangurinn á hverju misseri. Til að útskrifast þarf nemandi að hafa lokið að fullu 120 einingum. Nemandi sem ekki hefur lokið fullnægjandi einingafjölda til að útskrifast hefur rétt til þess að sækja þau námskeið sem upp á vantar á næstu þremur árum þar á eftir án þess að greiða skólagjöld, hafi hann greitt að fullu fyrir fjögur misseri. Hann hefur þó ekki forgang á þau námskeið sem eru fullsetin og verður að bíða þar til pláss losnar.

  6. Skólinn gefur út endurskoðaða kennsluskrá einu sinni á ári og skal hún liggja fyrir 1. júlí ár hvert og gilda fyrir tvö misseri. Kennsluskrárnefnd (sjá 2.6.1)  Í kennsluskrá skal koma fram uppbygging námsins, röðun námskeiða niður á annir og námskeiðalýsingar. Í námskeiðalýsingum skal koma fram heiti námskeiðs og auðkenni, lýsing á inntaki námskeiðsins auk hæfniviðmiða. Áhersla skal lögð á að lýsing á námskeiði sé nákvæm og að samræmi sé á milli lýsingar og þeirrar kennslu sem fer fram. Sú kennsluskrá sem er í gildi þegar nemandi hefur nám við skólann gildir út allt námið, þrátt fyrir að breytingar séu gerðar á námstímanum. Sé vikið frá þeirri reglu skal það vera í samráði við nemendur. Kennsluskrá skal birt á vefsvæði skólans.

  7. Stærsti hluti kennara og leiðbeinenda við skólann eru stundakennarar en aðalstarf þeirra er á einhverju sviði kvikmyndagerðar, söngs eða leiklistar. Þær kröfur eru gerðar til stundakennara og leiðbeinenda að þeir séu með menntun og/eða mikla reynslu á því sviði sem þeir kenna á og að þeir séu virkir í greininni. Þeir verða að hafa ótvíræða kennsluhæfileika og vera tilbúnir að tileinka sér þær kennsluaðferðir sem skólinn vinnur eftir og vera með fulla skuldbindingu við hæfniviðmið námskeiðs.

    Aðilar með kennararéttindi ganga að öllu jöfnu fyrir um störf. Kennarar skulu leggja fram kennsluáætlun til samþykktar hjá námstjóra og viðkomandi fagstjóra eða forseta kjarna a.m.k. 1 viku fyrir upphaf kennslu. Í henni skal koma fram eftirfarandi:

    1. Lýsing á námskeiðinu samkvæmt kennsluskrá. Bein lýsing úr kennsluskrá skal fylgja með.

    2. Upplýsingar um kennara, fyrirlesara og gesti.

    3. Upplýsingar um tímaáætlun samkvæmt stundaskrá, ásamt lýsingu á því hvað verði kennt í hverjum tíma fyrir sig.

    4. Lýsing á því hvaða námsgögn kennari muni styðjast við.

    5. Bækur, myndir og ítarefni sem kennari mun nota eða vísa til.

    6. Ákveðin tímasetning á prófum/verkefnaskilum.

    7. Lýsing á því hvernig árangur nemenda mun verða metinn.

    Kennsluhættir skulu að jafnaði vera fjölbreyttir og taka mið af hæfniviðmiðum námskeiðs og námsleiðar.

  8. Kvikmyndaskólinn gerir kröfu um fulla mætingu í alla tíma og fullnægjandi skil allra verkefna. Séu fjarvistir, þar með talið vegna veikinda, umfram 20% af heildarfjölda kennslutíma, telst nemandi fallinn á námskeiðinu. Sé um að ræða sérstakar og óviðráðanlegar ástæður getur nemandi sótt um undanþágu frá þessari reglu til námsstjóra eða forseta kjarna. Í erindi skal koma fram haldbær skýring á fjarvistum nemanda og tillögur um hvernig hann hyggst koma til móts við kröfur námskeiðsins. Þurfi að gera sérstakt verkefni eða bæta nemanda upp kennslu með einhverjum hætti er heimilt að láta greiða fyrir það sérstaklega.

  9. Námsmat fylgir hverju námskeiði í skólanum þar sem metin er staða og árangur nemandans. Niðurstöður námsmats eru samsettar úr einkunnargjöf og skriflegum umsögnum um verkefni og vinnu nemandans. Einkunnir eru gefnar í heilum og hálfum tölum frá 0 til 10, þar sem eftirfarandi forsendur liggja að baki tölum:

    10 fyrir fullkomin tök á efninu og framúrskarandi úrlausnir.
    9–9,5 fyrir framúrskarandi skilning og færni.
    8–8,5 fyrir góða þekkingu og skilning.
    7–7,5 fyrir greinargóða þekkingu.
    5,5–6,5 fyrir sæmilega þekkingu á grundvallaratriðum.
    5 fyrir lágmarksþekkingu á grundvallaratriðum.
    0–4,5 fyrir óviðunandi úrlausn.

    Skriflegar umsagnir skulu vera að lágmarki fimm málsgreinar og skulu þær bæði beinast að verkefnum sem um er fjallað og persónulega að nemandanum. Áhersla skal lögð á að umsagnir fjalli bæði um veikleika og styrkleika og að þær séu uppbyggilegar fyrir nemandann. Í einstökum námskeiðum þar sem ekki er um eiginleg verkefnaskil eða próf að ræða er heimilt að námsmat sé gefið til kynna með bókstöfum í stað tölustafa: „S“ fyrir „staðist“ og „F“ fyrir „fall“. Kennari ræður námsmati og gefur einkunnir og umsagnir, nema dómnefnd eigi í hlut. Í kennsluáætlun sem afhent er í upphafi námskeiðs skal greina nákvæmlega hvernig staðið verður að námsmati og um vægi þeirra þátta sem eru forsendur matsins. Námsmati, umsögnum og einkunnum skal skila til nemenda eigi síðar en 10 virkum dögum eftir lok námskeiðs. Sé námsmat með þeim hætti að námskeiði ljúki með lokaprófi skal skila öllum umsögnum og einkunnum fyrir verkefni áður en lokapróf fer fram.

    Eftirfarandi þættir skulu hafðir til hliðsjónar við mat á framleiðslu/kvikmyndum nemenda: 

    • Ástríða nemandans gagnvart verkinu og ástundun.

    • Skipulag og skil.

    • Tæknilegir þættir verks.

    • Atriði sem nemandi vill leggja áherslu á sem sitt sérsvið .

    Þegar meta skal listrænt gildi framleiðsluverkefna, þá skal það gilda 20% af einkunn á 1.misseri, 30% af einkunn á 2.misseri, 40% einkunn á 3.misseri og 50% af einkunn á 4.misseri. 

    Allir nemendur eiga rétt á því að fá útskýringar á þeim forsendum sem liggja að baki einkunnagjöf innan 15 daga frá því einkunn var birt. Uni nemandi ekki mati kennara rökstuðningi hans getur hann vísað máli sínu til forseta kjarna eða námsstjóra eftir því sem við þá. Sé nemandi ósáttur við niðurstöðu málsins getur viðkomandi óskað eftir því að skólaráð virki úrskurðarnefnd. 

    Nemendur með sérþarfir eiga rétt á viðbótarþjónustu vegna náms og námsmats. Sérstakar úrlausnir fyrir þá eru skipulagðar af námsráðgjafa í samvinnu við viðkomandi nemanda og stjórnendur.

  10. Falli nemandi á endurtekningarprófi/verkefni getur hann sótt um að endurtaka það einu sinni með beiðni til námsstjóra eða forseta kjarna innan mánaðar frá falli. 

    Nemandi sem fellur á námskeiði vegna ófullnægjandi mætingar getur fengið heimild til að sitja námskeiðið á nýjan leik. Hann verður þá að bíða eftir því að námskeiðið sé haldið á ný og hann nýtur ekki forgangs sé bekkurinn fullsetinn. 

    Nemandi sem skilar ekki verkefnum á réttum tíma og hefur ekki fengið framlengdan skilafrest, eða mætir ekki í próf og boðar ekki forföll, telst hafa lokið verkefni eða prófi með falleinkunn. 

    Nemandi sem ekki mætir til prófs eða skilar ekki verkefnum, vegna veikinda eða annarra samþykktra ástæðna skal tilkynna forföll áður en próf hefst eða skilafrestur rennur út. Læknisvottorði skal skilað til skrifstofu skólans við fyrstu hentugleika og eigi síðar en fimm dögum eftir að próf var haldið eða skilafrestur rann út. Sé það ekki gert telst nemandinn hafa þreytt próf eða lokið verkefni með falleinkunn. Það sama gildir vegna veikinda barns nemanda. 

  11. Nemandi sækir um skólavist rafrænt á neti og gefur þar upplýsingar um bakgrunn og hæfni. Þegar nemandi skilar inn umsókn er honum þökkuð þátttakan og gefnar upplýsingar um hvenær inntökuviðtöl eða próf verða haldin. Að loknum inntökuviðtölum og prófum fá allir umsækjendur svar um hvort þeir hljóti skólavist. Sem hluti af skólasetningu fer fram sérstök kynning á húsnæði, kennsluaðstöðu og umgengnisvenjum. Inn í nýnemakennslu fyrstu vikurnar er tvinnað hópefli af ýmsu tagi. Markmiðið er að nemendur nái skjótt að tengjast inn í hópinn og að nýta sér aðstöðu skólans. Móttaka kennara/leiðbeinanda fer þannig fram að ráðning fer í gegnum námstjóra eða forseta kjarna með samþykki rektors.

5. ALMENN STARFSEMI

  1. Öllum nýnemum skulu kynntar almennar umgengnisreglur skólans strax við upphaf náms. Þessar reglur eru eftirfarandi: 

    1. Gagnkvæm virðing, kurteisi og heiðarleiki skal höfð að leiðarljósi í samskiptum nemenda og starfsfólks og alls staðar þar sem komið er fram í nafni skólans. Virða skal markmið skólans, stefnu hans og reglur og gæta í hvívetna að varpa ekki rýrð á heiður hans. 

    2. Nemendur skulu sækja allar kennslustundir og koma stundvíslega til kennslu og annarrar starfsemi á dagskrá skólans. Í námskeiðum þar sem er mætingarskylda skal nemandi hafa að lágmarki 80% tímasókn til að hafa rétt til útskriftar af námskeiði. 

    3. Nemendur skulu sýna góða umgengni í skólanum og á lóð hans. 

    4. Reykingar eru óheimilar í húsnæði og á lóð skólans nema á tilteknum svæðum. Öll meðferð og neysla áfengis og annarra vímuefna er stranglega bönnuð í húsakynnum skólans. 

    5. Nemendur bera sjálfir ábyrgð á verðmætum sínum. 

    6. Spjöll sem nemendur kunna að vinna á húsnæði skólans eða eigum hans skulu þeir bæta að fullu. Einnig spjöll sem þeir kunna að valda við gerð verkefna utan skólans.

    7. Brot á reglum þessum geta leitt til brottvikningar úr skóla.

  2. Starfsfólk og nemendur Kvikmyndaskóla Íslands vilja móta samfélag þar sem samskipti og vinnubrögð einkennast af gagnkvæmri virðingu, heilindum, réttlæti og ábyrgð.                   Markmiðið með siðareglunum er að stuðla að því að hegðun þeirra sem starfa og nema innan skólans uppfylli ítrustu siðferðiskröfur sem gerðar eru innan skólasamfélagsins. Reglurnar eru settar fram í 13 töluliðum. Þær eru leiðarvísir og eiga ekki að skoðast sem tæmandi lýsing á æskilegri hegðun. Ábendingar um brot á siðareglum skal beina til kennara eða einhvers af föstum starfsmönnum skólans, sem kemur þeim til skólaráðs. Skólaráð metur hvort þörf sé á að virkja siðanefnd, samkvæmt starfsreglum. 

    Siðareglur

    1. Starfsfólk og nemendur virða þá sem starfa og nema innan skólans sem einstaklinga, koma fram við þá af tillitsemi og gæta trúnaðar gagnvart þeim.

     2. Starfsfólk og nemendur koma í veg fyrir að í skólanum viðgangist hvers konar óréttlæti, svo sem einelti, kynferðisleg áreitni eða önnur mismunun, t.d. vegna kynferðis, aldurs, trúar, þjóðernis, kynþáttar, fötlunar, kynhneigðar eða skoðana. 

    3. Starfsfólk og nemendur virða tjáningarfrelsi háskólasamfélagsins og haga skoðanaskiptum á faglegan, málefnalegan og ábyrgan hátt. 

    4. Starfsfólk gerir sér ljósa valdastöðu sína í samskiptum við nemendur og gætir þess að misnota hana ekki. 

    5. Starfsfólk og nemendur standa vörð um heiður skólans og aðhafast ekki neitt það sem kynni að vera til þess fallið að rýra álit samfélagsins á honum. 

    6. Starfsfólk og nemendur leita þekkingar af heilindum og hlutlægni og leggja áherslu á fagleg og listræn vinnubrögð, gagnrýna og frjóa hugsun og málefnalegan rökstuðning. 

    7. Starfsfólk og nemendur gæta persónuverndar og standa vörð um hagsmuni þeirra sem taka þátt í vinnu og rannsóknum með þeim. 

    8. Starfsfólk og nemendur virða akademískt frelsi, vinna ávallt samkvæmt eigin sannfæringu og láta hagsmunatengsl ekki hafa áhrif á vinnu sína. Virðing er borin fyrir margbreytileika kvikmyndalistarinnar, fagmennsku og sjálfstæði í fræðastörfum, rannsóknum og kennslu. 

    9. Starfsfólk og nemendur virða hugverkaréttindi, eigna sér ekki heiðurinn af hugmyndum annarra og gæta ávallt þeirra heimilda, sem notaðar eru, í samræmi við venjur lista- og þekkingarsamfélagsins. 

    10. Starfsfólk skólans leitast við að skapa nemendum sínum frjótt og hvetjandi námsumhverfi sem byggist á trausti og virðingu. 

    11. Nemendur skólans bera ábyrgð á námi sínu og eru heiðarlegir og tillitssamir í samskiptum.

    12. Starfsfólk og nemendur sýna ábyrgð gagnvart samfélagi, umhverfi og náttúru í kennslu, rannsóknum og listsköpun 

    13. Starfsfólk og nemendur eru virkir þátttakendur í starfi og þróun skólans og líta á það sem skyldu sína að miðla upplýsingum og þekkingu sem getur orðið til þess að bæta starf skólans. 

    Brot á siðareglum getur leitt til brottvikningar úr skóla.

  3. Brjóti nemandi alvarlega af sér varðandi reglur skólans, falli á mætingu eða í prófum þá er heimilt að víkja honum úr skóla. Endanleg brottvikning er á ábyrgð rektors og skal hann leita umsagnar úrskurðarnefndar, sjá gr. 2.7.9, áður en til hennar kemur. Nemanda skal veitt skrifleg áminning áður en til brottvikningar kemur og honum veittur frestur sem nemur fimm virkum dögum til andmæla.

  4. Kvikmyndaskólinn leggur áherslu á heilbrigða lífshætti í starfsemi sinni.

  5. Kvikmyndaskólinn leggur á það áherslu í sinni starfsemi að jafna hlut karla og kvenna í iðnaðinum. Til þess að nálgast þetta markmið þá er leitast við að jafnt kynjahlutverk sé, bæði á meðal nemenda og kennara.

  6. Áhersla er lögð á orkusparnað og rafrænar leiðir í kennslu, sem og við framleiðslu kvikmyndaverka. Einnig leggur skólinn áherslu á flokkun sorps og endurvinnslu.

  7. Unnið er eftir forvarna- og viðbragðsáætlun skólans gegn einelti, kynbundinni áreitni, kynferðislegri áreitni og ofbeldi (EKKO).

  8. Skólaráð og námsráðgjafi bera ábyrgð á viðbrögðum við áföllum sem nemendur eða starfsmenn verða fyrir í skólastarfinu, svo sem slysum, veikindum, sjúkdómum eða andlátum. Leita skal aðstoðar sérfræðinga ef þörf er talin á.

  9. Rýmingaráætlun er kynnt í upphafi skólahalds og útgönguleiðir eru kynntar á kortum og skiltum í skólanum. 

  10. Ef almannavarnir gefa út fyrirmæli um rýmingu vegna faraldurs, náttúruhamfara eða annarrar vár er farið að rýmingaráætlun en að öðru leyti er fylgt fyrirmælum almannavarna. Skólinn fylgir almennum fyrirmælum almannavarna og slökkviliðs, t.d. um að fella niður skólahald vegna yfirvofandi óveðurs eða annarra hamfara.

  11. Kvikmyndaskóli Íslands leitast við að vera í nánum samskiptum við öll skólastig í íslensku menntakerfi. Skólinn hefur unnið með öllum skólastigum, frá leikskóla og upp í háskóla. Markmið skólans er að stuðla að kvikmyndakennslu sem víðast í íslensku skólakerfi. Kvikmyndaskóli Íslands er meðlimur í Cilect, alþjóðasamtökum kvikmyndaháskóla, og tekur þar þátt í alþjóðlegu starfi, nemenda- og kennaraskiptum, námsstefnum, kvikmyndahátíðum og fleiru.

  12. Kennslan í skólanum fer fram í kennslustofum, fyrirlestrarsölum, hljóðupptökuveri, stúdíói og tæknirýmum. Sýningar á verkefnum og kvikmyndasaga fara fram í bíósal. Allar deildir hafa aðgang að tækjaleigu Kvikmyndaskóla Íslands. Þar er að finna víðtækt úrval af ljósum, upptökuvélum, hljóðupptökutækjum og tæknibúnaði. Þá er skólinn einnig í nánu samstarfi við helstu tækjaleigur landsins.

  13. Háskólaskrifstofa ber ábyrgð á skráningu og varðveislu allra gagna og veitir þeim aðgang sem til þess hafa heimild. Námsferilsgögn allra nemenda eru varðveitt, bæði á pappír í lokuðu rými og rafrænt á lokuðu vefsvæði. Allt myndefni er varðveitt í stafrænu formi og hluti á þjónustuveitum. Aðgangur að slíku efni getur verið lokaður almenningi óski nemendur þess. Áhersla er lögð á rétta meðhöndlun persónuupplýsinga. Nánari upplýsingar um varðveislu, skráningu og aðgengi er að finna í stjórnsýsluskýrslu.

  14. Allt myndefni sem framleitt er í skólanum er eign Kvikmyndaskóla Íslands og skólinn hefur rétt til þess að birta það og gefa út, undir nafni skólans í öllum birtingarmiðlum. Komi til sýninga eða sölu á efninu til þriðja aðila skulu þeir nemendur eða aðrir sem eiga höfundarvarinn þátt í framleiðslunni, veita formlega heimild fyrir birtingunni. Nemendur sem óska eftir að sýna myndir sínar í opinberum miðli verða að fá formlega heimild hjá Kvikmyndaskóla Íslands til þess. Dreifing á kvikmyndahátíðum telst ekki opinber dreifing og nemendur hafa leyfi til að senda myndir sínar á hátíðir án sérstakrar heimildar skólans.