Reglur & stjórn

Almennur hluti

Kvikmyndaskóli Íslands (KVÍ) er menntastofnun sem sinnir menntun á sviði kvikmyndagerðar. Stefna skólans er að stuðla að uppbyggingu íslensks myndmiðlaiðnaðar með vandaðri kennslu, rannsóknum, fræðslu- og miðlunarstarfi á öllum sviðum kvikmyndagerðar.

Hlutverk

 1. Kvikmyndaskóli Íslands (KVÍ) er menntastofnun sem sinnir menntun á sviði kvikmyndagerðar. Stefna skólans er að stuðla að uppbyggingu íslensks myndmiðlaiðnaðar með vandaðri kennslu, rannsóknum, fræðslu- og miðlunarstarfi á öllum sviðum kvikmyndagerðar. Markmið skólans er jafnframt að bjóða upp á alþjóðlegt nám í kvikmyndagerð og laða að hæfileikafólk víðs vegar að úr heiminum til að stunda hér nám. Stefna Kvikmyndaskóla Íslands er að komast í röð fremstu kvikmyndaskóla heims.

Stjórnskipulag

 1. Stjórn skólans er skipuð fimm mönnum sem tilnefndir eru af eigendum skólans. Leitast er við að stjórnarmenn séu með ólíkan bakgrunn og tengingar við íslenskt atvinnu- og menningarlíf. Skipunartími stjórnar er tvö ár og hefst starfsár 1. ágúst ár hvert. Tveir áheyrnarfulltrúar sitja fundi stjórnar, annar er fulltrúi kennara tilnefndur af kennarafundi, hinn er fulltrúi nemenda tilnefndur af nemendafélaginu. Áheyrnarfulltrúar eru tilnefndir til eins árs í senn og skal val þeirra liggja fyrir 1. október ár hvert. Rektor situr fundi stjórnar með málfrelsis- og tillögurétt, nema að stjórn óski eftir fundar án rektors. Stjórn Kvikmyndaskóla Íslands fer með æðsta ákvörðunarvald innan skólans, mótar framtíðarstefnu, ber ábyrgð á rekstri, bókhaldi og meðferð fjármuna. Stjórn staðfestir rekstrar- og fjárfestingaáætlun fyrir skólann og ársreikning hans. Stjórn ræður rektor að skólanum og leysir frá störfum. Stjórnin setur sér nánari reglur um verkaskiptingu og samskipti.

 2. Rektor ber ábyrgð á rekstri skólans og listrænum gæðum hans í umboði stjórnar. Hann ber einnig ábyrgð á að starfsemi hans sé í samræmi við hlutverk hans, markmið, gæðakröfur og samningsbundnar skyldur. Hann vinnur að mörkun heildarstefnu í málefnum skólans og hefur frumkvæði að endurskoðun skólanámskrár og stöðugu umbótastarfi innan skólans. Rektor ræður stjórnendur og aðra starfsmenn sem heyra beint undir hann. Ráðning yfirstjórnenda skal þó vera í samvinnu við stjórn. Hann leggur fram fjárhags- og rekstraráætlun fyrir stjórn í upphafi hvers reikningsárs og ber ábyrgð á útgáfu skýrslu um starfsemi skólans í lok hvers skólaárs. Rektor kemur fram fyrir hönd skólans og er málsvari hans.

 3. Aðstoðarrektor skal hafa fullgild kennsluréttindi, kennslureynslu og viðbótarmenntun eða reynslu á sviði stjórnunar. Hlutverk hans er að tryggja skólafaglega starfsemi skólans í öllum ferlum er lúta að nemendum, kennurum, leiðbeinendum og fagstofnunum. Hann stýrir endurskoðun námskrár og ber ábyrgð á að kennslufræðileg grunngildi skólans séu haldin. Aðstoðarrektor stýrir sölustarfsemi skólans og fjárhagsáætlanagerð og rekstri í samvinnu við aðra stjórnendur. Hann ber ábyrgð á starfsmannastjórn og daglegum rekstri skólans í umboði rektors. Hann skal vera staðgengill rektors í fjarveru hans.

 4. Skólaráð er rektor til aðstoðar og ráðgjafar við stjórn skólans. Í skólaráði sitja auk rektors; aðstoðarrektor, námsstjóri, tveir fulltrúar kennara tilnefndir af kennarafundi og tveir fulltrúar nemenda sem tilnefndir eru af nemendafélaginu. Skólaráð fjallar um starfsáætlun og framkvæmd hennar, um skólareglur, umgengnishætti í skólanum og fleira, sjá nánar rg nr. 140/1997. Skólaráð fundar í upphafi hverrar annar og setur sér starfsáætlun.

 5. Haldinn er skólafundur einu sinni á skólaári. Rétt til setu á skólafundi eiga allir starfsmenn skólans, bæði fastráðnir og lausráðnir. Auk þess skal nemendafélagið skipa tvo nemendur úr hverri deild til að sitja þessa fundi. Á skólafundi skulu rædd öll þau málefni sem rektor, starfsmenn eða nemendur óska og varða starfsemi skólans. Rektor leggur fram dagskrá og stýrir skólafundi.

 6. Kennarafundir eru haldnir að lágmarki einu sinni á önn. Þar er fjallað um stefnumörkun í starfi skólans, námskipan, kennsluhætti, gerð skólanámskrár, tilhögun prófa og námsmat. Rétt til setu á kennarafundum eiga allir kennarar og leiðbeinendur sem starfa við skólann og er heimilt að bera þar fram mál. Þeim stundakennurum sem eru í 25% starfi eða meira er skylt að mæta á kennarafundi. Kennarafundur tilnefnir áheyrnarfulltrúa í stjórn skólans og fulltrúa í skólaráð. Á kennarafundi sitja einnig rektor, aðstoðarrektor, námstjóri og deildarstjóri kjarna.

 7. Skólaskrifstofa. Yfirmaður hennar er skrifstofustjóri. Hlutverk skólaskrifstofu er umsjón með allri gagnavörslu, umsjón með nýskráningu, ábyrgð á skráningu námsárangurs og staðfestingu útskriftar. Upplýsingagjöf til nemenda og annarra. Umsjón með innheimtu skólagjalda, greiðsla reikninga og skilun gagna í bókhald og endurskoðun. Umsjón með móttöku og allri almennri afgreiðslu.

  Kjarni og framleiðsludeild. Yfirmaður hennar er deildarstjóri. Hlutverk er umsjón og ábyrgð á skipulagi kennslu, stundarskrárgerð og ráðning kennara og leiðbeinenda vegna náms í kjarna. Þróun námskrár og framtíðarskipulag. Deildin kemur að innri kvikmyndaframleiðslu skólans.

  Sérdeildir. Yfirmaður þeirra er námsstjóri. Hlutverk er umsjón og ábyrgð á skipulagi kennslu og stundarskrárgerðar í öllum fjórum deildum skólans. Námstjóri ræður fagstjóra og stýrir störfum þeirra í samráði við rektor. Í samvinnu við fagstjóra ræður hann kennara og leiðbeinendur til starfa og hefur eftirlit með störfum þeirra. Hann vinnur einnig að gerð kennslumats, umsjón með gerð kennsluefnis og árlegri endurskoðun námskrár.

  Tækni- og framleiðsludeild. Yfirmaður hennar er tækni- og framleiðslustjóri. Hlutverk er umsjón og ábyrgð með öllum tæknibúnaði vegna framleiðslu, kennslu og reksturs. Umsjón og rekstur tækjaútleigu. Gerð framleiðsluáætlana samhliða stundarskrárgerð. Varðveislu kvikmyndaefnis í samvinnu við skólaskrifstofu. Eftirlit með tækninýjungum og gerð tillaga að innkaupum. Deildin kemur að allri innri kvikmyndaframleiðslu skólans.

  Stuðningsdeild: Yfirmaður er námsráðgjafi. Hlutverk er að hafa eftirlit með námsframvindu nemenda með inngripi ef þörf er á. Námsráðgjafi er nemendum til ráðgjafar vegna skipulags og námstækni og veitir persónulega ráðgjöf vegna erfiðleika eða áfalla. Hann er í samstarfi við yfirvöld og þjónustuaðila vegna nemenda með sérþarfir. Hann er einnig stuðningsaðili nemenda vegna málefna sem upp koma.

 8. Yfir hverri sérlínu innan deilda eru fagstjórar; Tveir í deild 1, yfir leikstjórn og yfir framleiðslu. Fjórir í deild 2, yfir kvikmyndatöku, yfir hljóðvinnslu, yfir klippingu og yfir myndbreytingu. Þrír í deild 3, yfir leikstjórn, yfir kvikmyndahandritum í fullri lengd og yfir tegundum handrita. Þrír í deild 4, yfir leiklist, yfir leik & hreyfingu og yfir leik & rödd. Sami fagstjóri er yfir leikstjórn í deild 1 og 3 sem kennd er saman. Samtals eru fagstjórar 11. Hlutverk þeirra er þátttaka í mótun náms á sérlínum, heildarskipulag kennslu, eftirlit og gæðamat, samhæfing náms með öðrum fagstjórum og skólastjórnendum. Vera til viðtals fyrir nemendur vegna faglegra þátta námsins. Fagstjórar kenna að lágmarki eitt námskeið á sérlínu en aldrei fleiri en þrjú. Rektor ræður fagstjóra. Þeir geta verið annaðhvort lausráðnir eða fastráðnir. Séu þeir fastráðnir skal það gert að fengnu mati dómnefndar.

 9. Við Kvikmyndaskóla Íslands starfa bæði fastráðnir kennarar og stundakennarar. Stærsti hluti kennara eru stundakennarar enda er það meginstefna skólans að kennarar og leiðbeinendur séu virkir og starfandi kvikmyndagerðarmenn og leikarar. Rektor ræður fastráðna kennara að fengnu mati dómnefndar og stundakennara samkvæmt tillögum námstjóra. Þeir leiðbeinendur sem ekki hafa kennsluréttindi starfa undir sérstöku eftirliti aðstoðarrektors sem leiðir þá inn í starfið og veitir ráðgjöf.

 10. Við skólann starfar sérstök úrskurðarnefnd sem fer með æðsta úrskurðarvald innan skólans í agamálum og í málum sem tengjast réttindum nemenda. Nemendur njóta andmælaréttar í samræmi við góða stjórnsýsluhætti. Í úrskurðarnefnd sitja auk rektors, sem er formaður hennar, aðstoðarrektor og námsstjóri, varamenn þeirra eru deildarstjóri kjarna og einn fagstjóri, tveir fulltrúar kennara og tveir fulltrúar nemenda. Fulltrúar kennara og nemenda skulu skipaðir til eins árs í senn og skulu þeir hafa varamenn sem skipaðir eru til jafnlangs tíma. Fulltrúar kennara skulu kosnir á fyrsta kennarafundi að hausti. Stjórn nemendafélagsins skipar fulltrúa nemenda. Skipunartími skal vera frá 1. október til 1. október. Uni nemandi ekki niðurstöðum úrskurðarnefndar, getur hann skotið erindi sínu til stjórnar skólans. Uni nemandi ekki niðurstöðu stjórnar getur hann sent mál sitt til áfrýjunarnefndar Menntamálaráðuneytis.

Nám og kennsluskipulag

 1. Kvikmyndaskóli Íslands starfar með viðurkenningu frá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Skólinn notar FEIN-einingar samkvæmt framhaldsskólastiginu en tímaviðmið eru fengin úr ECTS-einingum, þ .e . 25–30 klukkustundir að baki hverri einingu. Þetta á við um öll námskeið skólans. Kvikmyndaskóli Íslands starfar samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla sem gefin er út af Menntamálaráðuneytinu.

 2. Í Kvikmyndaskóla Íslands eru 4 deildir: I. Leikstjórnar- og framleiðsludeild, II. Tæknideild, III. Handrita- og leikstjórnardeild og IV. Leiklistardeild. Hver deild er sjálfstæð skólaeining og fer námstjóri með yfirstjórn þeirra í umboði rektors. Allar deildir bjóða upp á 2 ára nám, 120 einingar til diplomagráðu. Nemendur þurfa að uppfylla þær kröfur sem hver deild setur og ekki er boðið upp á færslu á milli deilda eftir að nám er hafið, nema í sérstökum undantekningartilfellum.

 3. Við mat á nemendum inn í skólann er skoðaður bakgrunnur nemenda hvað varðar menntun, atvinnureynslu og lífsreynslu almennt. Umsækjendur í allar deildir skólans skulu hafa lokið stúdentsprófi eða jafngildu prófi. Skólanum er þó heimilt að veita inngöngu í skólann umsækjendum sem búa yfir þekkingu og reynslu sem telst fullnægjandi undirbúningur fyrir nám við skólann. Rektor ákveður samkvæmt umsögn inntökunefndar hvaða nemendum skal veitt innganga í skólann á þessum forsendum. Umsækjendur þurfa að mæta í inntökuviðtöl. Umsækjendur í deild IV, leiklistardeild, þurfa að þreyta verklegt inntökupróf ásamt viðtölum. Námsstjóri ásamt völdum kennurum skipa inntökunefndir við skólann. Tekið er við nýnemum inn í skólann bæði á haust og vor misseri. Hámarksfjöldi í hvern bekk eru 12 nemendur. Alltaf er opið fyrir umsóknir og inntökuviðtöl og próf eru haldin reglulega.

 4. Kennsluár skiptist í tvö kennslumisseri, haustmisseri og vormisseri. Á kennslumisseri skulu eigi vera færri en 17 kennsluvikur. Próf og leyfi koma þar til viðbótar þannig að námstími á önn er um 18 til 19 vikur. Engin kennsla fer fram á lögboðnum frídögum. Niðurstöður námsmats skulu liggja fyrir innan viku eftir útskrift af önn. Við útskrift úr skólanum skulu allar einkunnir og umsagnir liggja fyrir á útskriftardegi. Útskriftir fara fram tvisvar á ári, við lok haustannar í kringum 20. desember og við lok vorannar í kringum 15. maí. Til að fá brautskráningu þurfa nemendur að hafa lokið öllum námskeiðum samkvæmt námskrá við upphaf náms. Þeir skulu einnig vera að fullu skuldlausir við skólann.

 5. Einingakerfi skólans byggir á FEIN-kerfinu (framhaldsskólaeining) en tekur einnig mið af ECTS-kerfinu (European Credit Transfer System) sem háskólarnir starfa eftir. Vinnutími meðalnemanda er því áætlaður 25 til 30 klst. að baki hverri einingu . Miðað er við að hver kennsluvika sé að meðaltali 2 einingar. Meginreglan er sú að nemandi þarf að ljúka 30 einingum til að flytjast á milli anna. Veikindi eða viðurkennd forföll geta þó skapað undanþágu frá þeirri reglu, þó má aldrei vanta meira en 6 einingar upp á námsárangurinn á hverri önn. Til að útskrifast þarf nemandi að hafa lokið að fullu 120 einingum. Nemandi sem ekki hefur lokið fullnægjandi einingafjölda til að útskrifast hefur rétt til þess að sækja þau námskeið sem upp á vantar á næstu þremur árum þar á eftir og skal hann þá greiða skólagjöld sem nemur þátttöku hans á þeim námskeiðum. Hann hefur þó ekki forgang á þau námskeið sem eru fullsetin og verður að bíða þar til pláss losnar.

 6. Skólinn gefur út endurskoðaða námskrá einu sinni á ári og skal hún liggja fyrir 20. ágúst ár hvert og gilda fyrir tvær annir. Endurskoðunar- og breytingarferli námskrár skal vera frá 1. júní til 20. ágúst. Þar fyrir utan skal námskrá vera óbreytt. Í námskrá skal koma fram uppbygging námsins, röðun námskeiða niður á annir og námskeiðalýsingar. Í námskeiðalýsingum skal koma fram heiti námskeiðs og auðkenni, lýsing á inntaki námskeiðsins, auk hæfniviðmiða. Áhersla skal lögð á að lýsing á námskeiði sé nákvæm og að samræmi sé á milli lýsingar og þeirrar kennslu sem fer fram. Sú námskrá sem er í gildi þegar nemandi hefur nám við skólann gildir út allt námið, þrátt fyrir að breytingar séu gerðar á námstímanum. Sé vikið frá þeirri reglu skal það vera í samráði við nemendur. Námskrá skal birt á vefsvæði skólans.

 7. Stærsti hluti kennara og leiðbeinenda við skólann eru stundakennarar en aðalstarf þeirra er á einhverju sviði kvikmyndagerðar, söngs eða leiklistar. Þær kröfur eru gerðar til stundakennara og leiðbeinenda að þeir séu með menntun og/eða mikla reynslu á því sviði sem þeir kenna á og að þeir séu virkir í greininni. Þeir verða að hafa ótvíræða kennsluhæfileika og vera tilbúnir að tileinka sér þær kennsluaðferðir sem skólinn vinnur eftir. Aðilar með kennararéttindi ganga að öllu jöfnu fyrir um störf. Kennarar skulu leggja fram kennsluáætlun til samþykktar hjá námstjóra og viðkomandi fagstjóra eða deildarstjóra kjarna a.m.k. 1 viku fyrir upphaf kennslu. Í henni skal koma fram eftirfarandi:

  1. Lýsing á námskeiðinu samkvæmt námskrá. Bein lýsing úr námskrá skal fylgja með.
  2. Upplýsingar um kennara, fyrirlesara og gesti.
  3. Upplýsingar um tímaáætlun samkvæmt stundaskrá, ásamt lýsingu á því hvað verður kennt í hverjum tíma fyrir sig.
  4. Lýsing á því hvaða námsgögn kennari mun styðjast við.
  5. Bækur, myndir og ítarefni sem kennari mun nota eða vísa til.
  6. Ákveðin tímasetning á prófum/verkefnaskilum.
  7. Lýsing á því hvernig árangur nemenda mun verða metinn.

 8. Gæðakerfi KVÍ er sífellt í mótun en markmiðið er að vinna að stöðugu umbótaferli í skólastarfinu. KVÍ leggur áherslu á stöðugt endurmat innra starfs og fylgir í því skyni ferli sem meðal annars felur í sér; a) árlega endurskoðun námskrár, b) eftirfylgni með skólastarfi og skuldbindingu þess við hæfniviðmið í námskrá, c) greiningu á námsárangri, matsaðferðum kennara og dreifingu einkunna, d) greiningu á mati nemenda á gæðum kennslu og skólastarfs, e) vandað mat á bakgrunni nemenda sérstaklega þegar heimilaðar eru undanþágur frá stúdentsprófskröfu, f) eftirfylgni með vönduðu starfsmannavali, að starfsfólk sé alltaf valið á grundvelli styrkleika; menntunar, reynslu og árangurs í faginu, g) mat á vinnuumhverfi og búnaði nemenda og kennara, h) vandað innleiðingakerfi kennara og leiðbeinenda.

  Rektor er gæðastjóri skólans og ber hann ábyrgð á faglegri framkvæmd á endurskoðun námskrár, reglubundnum úttektum á öllum þáttum gæðakerfis skólans og upplýsingagjöf til nemenda, starfsfólks og Mennta- og menningarmálaráðuneytis, eftir því sem við á. Þættir sem varða framvindu náms, líðan nemenda (t .d . eineltismál) og vandamál sem kunna að koma upp í daglegu starfi eru hluti af vikulegum stjórnendafundum, þar sem farið er yfir stöðuna í öllum bekkjum skólans. Leitast er við að finna lausnir á öllum vandamálum svo fljótt sem verða má. Gæðakerfi skólans er í stöðugri þróun og mótun . Allt starfsfólk skólans er upplýst um gæðaáherslur og þjálfað til að vinna í anda stöðugra umbóta í anda gilda Kvikmyndaskóla Íslands.

 9. Kvikmyndaskólinn gerir kröfu um fulla mætingu í alla tíma og fullnægjandi skil allra verkefna. Séu fjarvistir, þar með talið vegna veikinda, umfram 20% af heildarfjölda kennslutíma telst nemandi fallinn á námskeiðinu. Sé um að ræða sérstakar og óviðráðanlegar ástæður getur nemandi sótt um undanþágu frá þessari reglu til námsstjóra eða deildarstjóra kjarna. Í erindi skal koma fram haldbær skýring á fjarvistum nemanda og tillögur um hvernig hann hyggst koma til móts við kröfur námskeiðisins. Þurfi að gera sérstakt verkefni, eða bæta nemanda upp kennslu með einhverjum hætti, skal nemandi greiða fyrir það sérstaklega.

 10. Námsmat fylgir hverju námskeiði í skólanum þar sem metin er staða og árangur nemandans. Niðurstöður námsmats eru samsettar úr einkunnargjöf og skriflegum umsögnum um verkefni og vinnu nemandans. Einkunnir eru gefnar í heilum og hálfum tölum frá 0 til 10, þar sem eftirfarandi forsendur liggja að baki tölum:

  10 fyrir fullkomin tök á efninu og framúrskarandi úrlausnir.

  9–9,5 fyrir framúrskarandi skilning og færni.

  8–8,5 fyrir góða þekkingu og skilning.

  7–7,5 fyrir greinargóða þekkingu.

  5,5–6,5 fyrir sæmilega þekkingu á grundvallaratriðum.

  5 fyrir lágmarksþekkingu á grundvallaratriðum.

  0–4,5 fyrir óviðunandi úrlausn.

  Skriflegar umsagnir skulu vera að lágmarki fimm málsgreinar og skulu þær bæði beinast að verkefnum sem um er fjallað og persónulega að nemandanum. Áhersla skal lögð á að umsagnir fjalli bæði um veikleika og styrkleika og að þær séu uppbyggilegar fyrir nemandann. Í einstökum námskeiðum þar sem ekki er um eiginleg verkefnaskil eða próf að ræða er heimilt að námsmat sé gefið til kynna með bókstöfum í stað tölustafa: „S“ fyrir „staðist“ og „F“fyrir „fall“. Kennari ræður námsmati og gefur einkunnir nema dómnefnd eigi í hlut. Í kennsluáætlun sem afhent er í upphafi námskeiðs skal greina nákvæmlega hvernig staðið verður að námsmati og um vægi þeirra þátta sem eru forsendur matsins.

  Eftirfarandi þættir skulu hafðir til hliðsjónar við mat á framleiðslu/kvikmyndum nemenda:

  • Ástríða nemandans gagnvart verkinu og ástundun.

  • Skipulag og skil.

  • Tæknilegir þættir verks.

  • Listrænir þættir verks.

  • Atriði sem nemandi vill leggja áherslu á sem sitt sérsvið .

  Niðurstöður námsmats skulu liggja fyrir innan einnar viku frá því námsmat fór fram sbr 16. gr. Allir nemendur eiga rétt á því að fá útskýringar á þeim forsendum sem liggja að baki einkunnargjöf innan 15 daga frá því einkunn var birt. Uni nemandi ekki mati kennara getur hann vísað máli sínu til aðstoðarrektors. Telji hann ástæðu til þá má skipa utanaðkomandi prófdómara. Úrskurður hans er þá endanlegur.

  Nemendur með sérþarfir eiga rétt á viðbótarþjónustu vegna náms og námsmats. Sérstakar úrlausnir fyrir þá eru skipulagðar af námsráðgjafa í samvinnu við viðkomandi nemanda og stjórnendur.

 11. Nemandi sem stenst ekki próf eða fellur í verkefnum, en hefur fullnægjandi ástundun í námskeiði, er heimilt að endurtaka prófið eða verkefnið. Sækja þarf um slíkt til námsstjóra eða deildarstjóra kjarna innan 10 daga eftir að einkunn er birt. Falli nemandi á endurtekningarprófi/verkefni getur hann sótt um að endurtaka það í annað sinn með beiðni til námsstjóra eða deildarstjóra kjarna innan 10 daga frá því einkunn birtist. Þau takmörk eru að nemandi getur ekki þreytt lokapróf/verkefni oftar en þrisvar í sama námskeiði. Endurtökupróf/verkefni skal halda eins fljótt og auðið er og aldrei síðar en 4 vikum eftir að falleinkunn er birt. Skólinn innheimtir sérstakt prófgjald fyrir endurtöku- og sjúkrapróf sem og vegna verkefna sem eru endurtekin. Upphæð gjaldsins skal miðast við raunkostnað skólans sem fellur til vegna endurtekningarinnar. Nemandi sem fellur á námskeiði vegna ófullnægjandi mætingar getur fengið heimild til að sitja námskeiðið á nýjan leik. Hann verður þá að bíða eftir því að námskeiðið sé haldið á ný og hann nýtur ekki forgangs sé bekkurinn fullsetinn. Nemandi sem skilar ekki verkefnum á réttum tíma og hefur ekki fengið framlengdan skilafrest, eða mætir ekki í próf og boðar ekki forföll, telst hafa lokið verkefni eða prófi með falleinkunn. Nemandi sem ekki mætir til prófs eða skilar ekki verkefnum, vegna veikinda eða annarra samþykktra ástæðna skal tilkynna forföll áður en próf hefst eða skilafrestur rennur út. Læknisvottorði skal skilað til skrifstofu skólans við fyrsta hentugleika og eigi síðar en fimm dögum eftir að próf var haldið eða skilafrestur rann út. Annars telst nemandinn hafa þreytt próf eða lokið verkefni með falleinkunn. Það sama gildir vegna veikinda barns nemanda. Ljúki nemandi ekki námi að liðnum eðlilegum námstíma, þá gildir hver einstök einkunn hans í þrjú ár frá þeim tíma sem hefðu átt að teljast eðlileg námslok. Eftir þann tíma verður hann að endurtaka sömu eða sambærileg námskeið.


 12. Nemandi sækir um rafrænt á neti og gefur þar upplýsingar um bakgrunn og hæfni. Þegar nemandi skilar inn umsókn er honum þökkuð þátttakan og gefnar upplýsingar um hvenær inntökuviðtöl eða próf verða haldin. Að loknum inntökuviðtölum og prófum fá allir umsækjendur svar um hvort þeir hljóti skólavist. Sem hluti af skólasetningu er sérstök kynning á húsnæði, kennsluaðstöðu og umgengnisvenjum. Inn í nýnemakennslu fyrstu vikurnar er tvinnað hópefli af ýmsu tagi. Markmiðið er að nemendur nái skjótt að tengjast inn í hópinn og að nýta sér aðstöðu skólans. Móttaka kennara/leiðbeinanda er að ráðning fer í gegnum námstjóra eða deildarstjóra kjarna með samþykki rektors.

Almenn starfsemi

 1. Öllum nýnemum skulu kynntar almennar umgengnisreglur skólans strax við upphaf náms. Þessar reglur eru eftirfarandi: 1. Gagnkvæm virðing, kurteisi og heiðarleiki skal höfð að leiðarljósi í samskiptum nemenda og starfsfólks og alls staðar þar sem komið er fram í nafni skólans. Virða skal markmið skólans, stefnu hans og reglur og gæta í hvívetna að varpa ekki rýrð á heiður hans. 2. Nemendur skulu sækja allar kennslustundir og koma stundvíslega til kennslu og annarrar starfsemi á dagskrá skólans. Í námskeiðum þar sem er mætingarskylda skal nemandi sækja a .m .k . 80% tímanna til að hafa rétt til útskriftar af námskeiði. 3. Nemendur skulu sýna góða umgengni í skólanum og á lóð hans. 4. Reykingar eru óheimilar í húsnæði og á lóð skólans nema á tilteknum svæðum. Öll meðferð og neysla áfengis og annarra vímuefna er stranglega bönnuð í húsakynnum skólans. 5. Óheimilt er að neyta matar og drykkjar í tölvustofum. 6. Nemendur bera sjálfir ábyrgð á verðmætum sínum. 7. Spjöll sem nemendur kunna að vinna á húsnæði skólans eða eigum hans skulu þeir bæta að fullu. 8. Brot á reglum þessum geta leitt til brottvikningar úr skóla.

 2. Brjóti nemandi alvarlega af sér varðandi reglur skólans, falli á mætingu eða í prófum þá er heimilt að víkja honum úr skóla. Endanleg brottvikning er á ábyrgð rektors og skal hann leita umsagnar úrskurðarnefndar agamála, sjá 11. gr., áður en til hennar kemur. Nemanda skal veitt skrifleg áminning áður en til brottvikningar kemur og honum veittur tími til andmæla.

 3. Kvikmyndaskólinn leggur áherslu á heilbrigða lífshætti í starfsemi sinni.

 4. Kvikmyndaskólinn leggur á það áherslu í sinni starfsemi að jafna hlut karla og kvenna í iðnaðinum. Til þess að nálgast þetta markmið þá er leitast við að jafnt kynjahlutverk sé, bæði meðal nemenda og kennara. Kennurum/leiðbeinendum er gert að beina sérstakri hvatningu til kvenkynsnema, auk þess að gera kvikmyndagerð kvenna hátt undir höfði.

 5. Áhersla er lögð á orkusparnað og rafrænar leiðir í kennslu, sem og við framleiðslu kvikmyndaverka. Einnig leggur skólinn áherslu á flokkun sorps og endurvinnslu.

 6. Rektor, námstjóri og námsráðgjafi skipa eineltisteymi skólans. Úrvinnsla eineltismála þarf að vera þannig að bæði þolendur og gerendur megi vel við una en þannig er dregið úr þeirri hættu að einelti komi aftur upp. Fyllsta trúnaðar skal ætíð gætt við meðferð eineltismála. Þegar eineltismál kemur upp er mikilvægt að viðkomandi starfsmaður eða nemandi sem kemur að málinu, komi því til yfirstjórnenda skólans. Meti þeir það svo að þörf sé á að virkja eineltisteymi skal það gert hið fyrsta. Rektor eða aðstoðarrektor tekur þá við stjórn málsins og stýrir teyminu. Námsráðgjafi er sérstakur fulltrúi þolanda í eineltismáli. Eftirfarandi aðgerðaráætlun fer í gang: 1. Farið er strax í ítarlega könnun á málinu og alvarleiki þess metinn. Haldnir eru fundir með öllum þeim sem að málinu koma. Allt ferlið er nákvæmlega skráð. 2. Teymið ákveður næsta stig eftir eðli hvers máls. Það getur verið hópfundur í bekk, sérstakir fundir með gerendum og þolendum, skipulagt hópastarf með gerendum eineltis og sjálfstyrking þolenda eineltis. 3. Eineltisteymi fylgist með framgangi málsins og tekur það til endurmats ef þurfa þykir. Gangi ekki að uppræta eineltið innan veggja skólans skal leitað til utanaðkomandi sérfræðinga.

 7. Rektor, aðstoðarrektor og námsráðgjafi bera ábyrgð á viðbrögðum við áföllum sem nemendur eða starfsmenn verða fyrir í skólastarfinu, svo sem slysum, veikindum, sjúkdómum eða andlátum. Leita skal aðstoðar sérfræðinga ef þörf er talin á.

 8. Rýmingaráætlun er kynnt í upphafi skólahalds og útgönguleiðir eru kynntar á kortum og skiltum í skólanum..

 9. Ef almannavarnir gefa út fyrirmæli um rýmingu vegna faraldurs, náttúruhamfara eða annarrar vár er farið að rýmingaráætlun en að öðru leyti er fylgt fyrirmælum almannavarna. Skólinn fylgir almennum fyrirmælum almannavarna og slökkviliðs, t.d. um að fella niður skólahald vegna yfirvofandi óveðurs eða annarra hamfara.

 10. Gagnkvæm virðing, kurteisi og heiðarleiki skulu höfð að leiðarljósi í öllum samskiptum innan skólastarfsins, bæði meðal nemenda, starfsfólks og milli allra hópa. Virða skal markmið skólans, stefnu hans og reglur, og gæta í hvívetna að kasta ekki rýrð á orðstír hans. Kennarar/leiðbeinendur virði réttindi nemenda sinna og hafi hagsmuni þeirra að leiðarljósi. Kennarar/leiðbeinendur gæti þess að mismuna ekki nemendum og nemendur ekki kennurum, til dæmis vegna kyns, kynþáttar, þjóðernis, trúarbragða, kynhneigðar, aldurs, fötlunar eða skoðana. Kennarar/leiðbeinendur geri sér ljósa valdastöðu sína í samskiptum við nemendur og gæti þess að misnota hana ekki. Nemendur sýni kennurum sínum kurteisi og tillitssemi, hlíti sanngjörnum fyrirmælum þeirra og séu heiðarlegir í samskiptum við þá. Kennarar/leiðbeinendur og starfsfólk gæti trúnaðar við nemendur. Þeir sýni fyllstu aðgát hvenær sem málefni þeirra eru til umræðu og gæti þess að gögn um nemendur komist ekki í hendur óviðkomandi.

 11. Kvikmyndaskóli Íslands leitast við að vera í nánum samskiptum við öll skólastig í íslensku menntakerfi. Skólinn hefur unnið með öllum skólastigum, frá leikskóla og upp í háskóla. Markmið skólans er að stuðla að kvikmyndakennslu sem víðast í íslensku skólakerfi. Kvikmyndaskóli Íslands er meðlimur í alþjóðasamtökum kvikmyndaskóla, CILECT, og tekur þar þátt í alþjóðlegu starfi, nemenda- og kennaraskiptum, námstefnum, kvikmyndahátíðum og fleiru.

 12. Kínema er nemendafélag Kvikmyndaskóla Íslands. Stjórn félagsins skipar 2 fulltrúa á vikulegum stjórnendafundum. Hluti af staðfestingargjöldum nýnema rennur til reksturs Kínema.

 13. Kennslan í skólanum fer fram í kennslustofum, fyrirlestrarsölum, hljóðupptökuveri, stúdíói og tæknirýmum. Sýningar á verkefnum og kvikmyndasaga fara fram í bíósal. Allar deildir hafa aðgang að tækjaleigu Kvikmyndaskóla Íslands. Þar er að finna víðtækt úrval af ljósum, upptökuvélum, hljóðupptökutækjum og tæknibúnaði. Þá er skólinn einnig í nánu samstarfi við helstu tækjaleigur landsins.

 14. Skólaskrifstofa ber ábyrgð á skráningu og varðveislu allra gagna og veitir þeim aðgang sem til þess hafa heimild. Námsferilsgögn allra nemenda eru varðveitt, bæði á pappír í lokuðu rými og rafrænt á lokuðu vefsvæði. Allt myndefni er varðveitt í stafrænu formi og hluti á þjónustuveitum (Vimeo). Aðgangur að slíku efni getur verið lokaður almenningi óski nemendur þess. Áhersla er lögð á rétta meðhöndlun persónuupplýsinga.

 15. Allt myndefni sem framleitt er í skólanum er eign Kvikmyndaskóla Íslands og skólinn hefur rétt til þess að birta það og gefa út, undir nafni skólans í öllum birtingarmiðlum. Komi til sýninga eða sölu á efninu til þriðja aðila skulu þeir nemendurm eða aðrir sem eiga höfundarvarinn þátt í framleiðslunni, veita formlega heimild fyrir birtingunni. Nemendur sem óska eftir að sýna myndir sínar hjá þriðja aðila verða að fá formlega heimild hjá Kvikmyndaskóla Íslands til þess.