Menntasjóður námsmanna metur námsbrautir Kvikmyndaskóla Íslands lánshæfar

Menntasjóður námsmanna hefur á fundi sínum í dag, 18. júní samþykkt að meta fjórar námsbrautir Rafmenntar — Kvikmyndaskóla Íslands lánshæfar frá og með námsárinu 2025-2026. Um er að ræða námsbrautirnar Handrit og leikstjórn, Leikstjórn og framleiðsla, Leiklist fyrir kvikmyndir og Skapandi tækni.

Erindi Rafmenntar, sem barst Menntasjóðnum þann 26. maí 2025, var tekið fyrir á stjórnarfundi sjóðsins í dag, 18. júní 2025. Í erindinu óskaði Rafmennt eftir lánshæfismati á umræddum námsbrautum; Handrit og leikstjórn, Leikstjórn og framleiðsla, Leiklist fyrir kvikmyndir og Skapandi tækni..

Allar fjórar námsbrautirnar eru skipulagðar sem 120 FEIN-eininga nám, sem skiptist í 30 FEIN-einingar á önn í fjórar annir. Þar sem námið telst ekki á háskólastigi, flokkast það sem starfsnám við framhaldsskóla.

Við mat á lánshæfi var byggt á grein 2.2.3 í úthlutunarreglum Menntasjóðs námsmanna námsárið 2025-2026, sem fjallar um starfsnám og viðbótarnám við framhaldsskóla á Íslandi. Skilyrði fyrir lánshæfi slíks náms eru að það hafi hlotið staðfestingu ráðherra samkvæmt lögum nr. 92/2008 um framhaldsskóla. Einnig þarf námið að hafa fengið samþykki frá viðkomandi starfsgreinaráði ef við á, námslok þurfa að vera að minnsta kosti á þriðja hæfnisþrepi og sambærilegt nám má almennt ekki vera í boði á háskólastigi hér á landi.

Niðurstaða Menntasjóðsins er sú að námsbrautir Rafmenntar uppfylla öll framangreind skilyrði, og er því fallist á að telja þær lánshæfar.

Páll Egill Winkel, framkvæmdastjóri Menntasjóðs námsmanna, staðfesti ákvörðunina með rafrænni undirskrift sinni.

Ákvörðun stjórnar Menntasjóðs námsmanna í máli Rafmenntar