“Leikari án verkfærakistu kemst ekki langt ” – Hlín Agnarsdóttir segir frá Leiklistarnámi KVÍ

Kvikmyndaskóla Íslands býður upp á tveggja ára leiklistarnám sem nær yfir fjórar annir og hægt er að sækja um bæði á haustönn og vorönn. Við fengum Hlín Agnarsdóttur til að segja okkur frá deildinni sem hún erí forsæti fyrir.

Farið er fram á að umsækjendur hafi stúdentspróf eða yfir 100 einingar úr framhaldsskóla en það er þó ekki algert skilyrði. Við tökum á móti einstaklingum í viðtöl og áheyrnarprufur sem eiga hugsanlega erindi í námið þótt það vanti áðurnefnt undirbúningsnám. Námið fer fram á dagtíma og er full vinna fyrir þann sem hyggst sækja það og jafnvel meira en það.

Aðalnámsgreinarnar segir Hlín stuðla að því að þjálfa helstu tæki leikarans, líkama hans og rödd, hugsun og tilfinningar.

Á hverri önn eru kennd námskeið í leiktúlkun, leiktækni, hreyfingu og dansi, raddbeitingu, textameðferð og söng. Auk þessa fá nemendur á hverri önn sérstakt námskeið í kvikmyndagerð þar sem þeir læra helstu undirstöðuatriði hennar í samvinnu við nemendur í öðrum deildum skólans. Lokaverkefni við skólann er leikin mynd sem leiklistarnemeinn framleiðir og leikur aðalhlutverkið í.

Hlín segir megináherslu námsins vera þá sömu og í öllu öðru leiklistarnámi að því undanskildu að nemendur í Kvikmyndaskóla Íslands læra að leika fyrir kvikmyndir og sjónvarp og vinna með öðrum kvikmyndagerðarmönnum við tökur jafn innan sem utandyra.

Sú þjálfun er geysilega mikilvæg og hvergi annars staðar er hægt að sækja sér þá menntun hér á landi. Margir nemendur sem lokið hafa leiklistarnámi frá Kvikmyndaskóla Íslands skapa og framleiða sínar eigin myndir að námi loknu. Það geta þeir vegna þess að þeir hafa tamið sér vinnubrögð kvikmyndagerðarmannsins.

Engu að síður er ekkert því til fyrirstöðu að útskrifaðir leikarar úr Kvikmyndaskóla Íslands hasli sér völl á leiksviðinu.

Margir nemendur sem eru útskrifaðir af Leiklistarbraut hafa leikið á sviði eða jafnvel haldið áfram námi þar sem áhersla er lögð á sviðsleik. Öll grunnþjálfun leikarans miðast við það að hann nái tökum á þeirri tækni sem þarf til að leika jafnt á sviði sem í kvikmyndum.

Þrátt fyrir sérhæfingu deildarnámsins er námið í deildum Kvikmyndaskólans einnig að hluta til þverfaglegt og eins og Hlín nefndi fyrr í samtalinu leita leikarar oft fanga í öðrum störfum í kvikmyndafaginu.

Námið er vissulega þverfaglegt að því leyti að nemendur fá mjög góða innsýn í kvikmyndagerð og geta því sótt um störf innan kvikmyndaiðnaðarins að námi loknu eða í greinum sem tengjast kvikmyndaiðnaði. Þar má m.a. nefna framleiðslustörf, aðstoðarleikstjórn og jafnvel handritskrif og leikstjórn. Leiklistarnám við Kvikmyndaskóla Íslands undirbýr nemandann ekki aðeins til þess að vera leikari í kvikmyndaiðnaði, heldur gefur honum einstakt tækifæri til að kynna sér fjölbreytileg verksvið allra þeirra sem koma að kvikmyndagerð. Á meðan á náminu stendur kynnast leiklistarnemar öðrum deildum skólans og nemendum þeirra og samstarfsverkefni milli deilda er einn af mikilvægustu þáttunum í náminu og stuðla ekki hvað síst að undirbúningi fyrir þau störf sem bjóðast að námi loknu.

En hvern skyldi Hlín telja vera mesta styrk Kvikmyndaskóla Íslands?

Auk nemendanna eru það úrvals kennarar sem bjóða upp á frábær námskeið sem öll stuðla að því að fjölga verkfærum leikarans. Leikari sem ekki á vel útbúna verkfærakistu kemst ekki langt. En til þess að eignast verkfærin verður hann að vera tilbúinn að leggja mikið á sig í krefjandi námi þar sem einbeiting, agi, úthald og samstarfshæfni eru lykilorð.