Kvikmyndaskóli Íslands, BA námið

Kvikmyndaskóli Íslands hefur nú lagt fram viðbótargögn til ráðuneytis háskóla-, iðnaðar-, og nýsköpunar vegna háskólastarfsemi skólans. Farið hefur verið fram á það við ráðuneytið að samstarfsverkefni Kvikmyndaskólans og Hugvísindasviðs Háskóla Íslands um BA námsbraut verði nú þegar sett á laggirnar.

Gögnin sem lögð hafa verið fram eru eftirfarandi:

Kennsluskrá KVÍ/IFS 2021-2022 á íslensku og ensku

Þetta er 12. útgáfa af kennsluskrá frá því núverandi fjögurra deilda námi var komið á 2007. Skráin sýnir lýsingu og hæfniviðmið á 107 námskeiðum sem flest eru kennd á hverju misseri. Vinnsla við þessa kennsluskrá, sem kom út í janúar, var unnin samkvæmt samþykktum háskólareglum af skipaðri kennsluskrárnefnd með fulltrúa nemenda. Sérsvið skólans er starfræksla tveggja ára námsbrauta í grunnnámi háskólastigs (undergraduate). Handritið að þeirri starfsemi er kennsluskráin sem hefur verið samin og þróuð í gegnum árin með aðkomu hundruða sérfræðinga, kvikmyndagerðafólks og leikara, sem leiðbeint hafa og kennt við skólann. Uppbyggingin miðar við að nemendur útskrifist með trygga staðfesta hæfni af sérsviði, sem nýtist til framhaldsnáms eða atvinnu. Kennsluskrá er einnig ætlað að tryggja umgjörð fyrir nemandann svo hann njóti sín sem skapandi listamaður í skólastarfinu.

KVÍ/IFS Stjórnsýslan og FÓLKIÐ, skýrsla maí 2022, á íslensku og ensku

Hér er fjallað um alla þá sem sitja í stjórnum, ráðum og þá sem eru við störf hjá KVÍ/IFS. Alls er hér fjallað um eða nefndir 107 einstaklingar sem koma að skólastarfinu sem hluti af stjórnsýslu. Af þeim hafa 91 lokið háskólanámi, 40 meistaranámi og 8 doktorsprófi. Starfreynsla þessa hóps við kvikmyndagerð, leiklist og listir telur samanlagt í árhundruðum. Skólinn sækist eftir virkum listamönnum til kennslu og hefur verið mjög heppinn að þeir fremstu á hverju sviði eru tilbúnir að bjóða sig fram til kennslu. Menntunargrunnur leiðbeinenda og kennara er mjög breiður í uppruna. Stundakennarar ´21/´22 eru 56 og af þeim hafa 38 hlotið sérmenntun erlendis. Níu af þeim eru menntaðir í Bandaríkjunum og 28 í Evrópu. Þar hafa flestir menntað sig í Bretland eða níu. Einn til þrír eru síðan menntaðir frá eftirtöldum löndum: Danmörku, Frakklandi, Þýskalandi, Írlandi, Spáni, Noregi, Tékklandi, Kanada – Það eru þessar öflugu evrópsku rætur með sterka tengingu við Norður-Ameríku sem gerir KVÍ/IFS alþjóðlega sterkan. - Þá má nefna að ráðið var í fyrstu rannsóknarstöðurnar við skólann síðastliðið haust sem hluta af háskóla yfirfærslunni. Fjórir mjög öflugir fulltrúar í dósentastöður, hver í 25% stöðu. Stefnt er að því að ráða í 12 sambærilegar rannsóknarstöður á næstu fimm árum, en skólinn stefnir á að stunda metnaðarfullt rannsóknarstarf.

KVÍ/IFS Stjórnsýslueiningar háskólakerfis, skýrsla maí 2022, á íslensku og ensku

Evrópusambandið gefur út regluverk er varða starfsemi evrópskra háskóla og íslenskir háskólar fylgja. Grunnritið er gæðaramminn: Standard and Guidelines for Quality Assurance in the European higher Education Area, eða ESG_2015.  Hann vísar síðan í Lissabon samkomulagið frá 2012, viðurkenningar á einingum milli Evrópulanda og Bologna yfirlýsinguna frá 1999 um samræmt evrópskt háskólakerfi. Stjórnsýslukerfi KVÍ/IFS hafa verið aðlöguð að þessum kerfum af nokkurri nákvæmni enda eru þau ágætur og traustur leiðarvísir fyrir gott skólahald. Í skýrslunni má lesa um útfærslu og stöðu hinna ýmsu stjórnsýslueininga við skólann.

KVÍ/IFS Tímarit Kvikmyndaskóla Íslands 2021

1. tbl Tímarits Kvikmyndaskóla Íslands var fyrst og fremst tileinkað væntanlegri háskólastofnun skólans með greinum og viðtölum. Í framtíðinni er því ætlað að vera vettvangur fyrir fræðimenn skólans til að birta ritrýndar ritgerðir. – Það sem er sérstaklega áhugavert í þessu fyrsta tölublaði eru viðtöl við fagstjóra og kennara skólans. Þar má öðlast góða tilfinningu fyrir kennslufræðilegri nálgun þeirra og kynnast þeim metnaði sem þeir leggja í skólastarfið.

KVÍ/IFS Sjálfsmatsskýrsla 2020 á íslensku og ensku

Hér er um viðamikla skýrslu að ræða sem var undirbúningur fyrir væntanlega sérfræðinga úttekt ráðuneytisins (sem reyndar er beðið eftir ennþá). Fjallað var um þyngdarstig námskeiða út frá tímamælingum, árangur útskrifaðra, greining á akademíunni, rekstrargrunni og rannsóknum auk greiningar á praktískum atriðum við yfirfærslu á háskólastig o.fl.

KVÍ Sjálfsmatsskýrsla 2018 á íslensku

Í þessari skýrslu var sérstaklega rannsökuð þátttaka útskrifaðra nemenda í leiknum bíómyndum ársins. Greind var þátttaka úr frá störfum og deildum skólans.

KVÍ Sjálfsmatsskýrsla 2016 á Íslensku

Í þessari skýrslu var kannað sérstaklega menntunarstig kennara og nemenda, ásamt gæðum framleiðslu verkefna o.fl.

Kvikmyndaskóli Íslands hefur lagt fram beiðni til Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur Háskóla-. iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og Ásmundar Einars Daðasonar Mennta- og barnamálaráðherra að málefni Kvikmyndaskólans verði flutt að fullu yfir í ráðuneyti háskólamála.

Stjórn KVÍ/IFS