Háskólayfirfærsla Kvikmyndaskóla Íslands

Í tilefni af umræðu í fjölmiðlum um yfirfærslu Kvikmyndaskóla Íslands á háskólastig er rétt að kynna hér á vettvangi skólans stöðuna á ferlinu.

Á fundi með rektor Háskóla Íslands í byrjun janúar síðastliðnum var staðfestur áhugi HÍ á að koma á námsleið til BA gráðu í kvikmyndagerð með samvinnu KVÍ við Kvikmyndafræðideild HÍ á Hugvísindasviði. Það væri hinsvegar ekki hægt að meta einingar KVÍ af núverandi hæfniþrepi, heldur þyrfti KVÍ að fá viðurkenningu fyrir námsgráður sínar og deildir sem háskóli svo hægt væri að koma námsleiðinni á.

Á sama tíma áttum við samskipti við Listaháskóla Íslands um viðurkenningarsamstarf en stjórnendur þar höfnuðu viðræðum.

Umsókn um viðurkenningu Kvikmyndaskóla Íslands sem háskóla var síðan lögð inn til ráðuneytis 24. janúar síðastliðinn. Þar var óskað eftir því að ráðuneytið skipaði þriggja manna sérfræðingahóp til að veita umsögn um skólann.

Kvikmyndaskólinn hefur síðan átt í góðu sambandi við ráðuneytið og afhent mikið magn gagna, m.a. uppfærðar starfsreglur og námskrá fyrir skólann, nýja gæðastefna og siðareglur. Þá hefur verið skipað fólk í ráð og nefndir á vegum hins nýja háskóla.

Staðan nú er að skólinn bíður eftir að séfræðingahópur verði skipaður og hefji vinnu við að veita umsögn um skólans. Kvikmyndaskólinn hefur óskað eftir flýtimeðferð á afgreiðslu í ljósi þess að mikil þörf er fyrir þessa menntun fyrir atvinnulífið, og jafnframt að skólinn getur aflað gjaldeyristekna með starfrækslu alþjóðlegrar deildar. En háskólaviðurkenning er grundvöllur hennar.

Næstu vikur verða stigin mikilvæg skref í yfirfærslunni. Í september mun liggja fyrir dómnefndarmat á fyrstu akademisku starfsmönnunum sem eru: Þórey Sigþórsdóttir sem sækist eftir framgangi sem dósent í rödd, Kjartan Kjartansson sem prófessor í hljóði, Hilmar Oddsson sem prófessor í leikstjórn og Rúnar Guðbrandsson sem prófessor í leiklist. Í dómnefnd sem metur akademikt hæfi eru Dr Lars Gunnar Lundsten, Forstöðumaður miðstöðvar doktorsnáms, Háskólinn á Akureyri. Sigurður Gylfi Magnússon prófessor Hugvísindasvið Háskóla Íslands. Gísli Snær Erlingsson rektor The London Film School. Það var mikil fengur að fá Gísla Snæ til setu í dómnefnd. Hann þekkir hið alþjóðlega kvikmyndaháskólaumhverfi  vel og nýtur þar virðingar. Hann var áður rektor kvikmyndaháskólans í Singapore og þar á undan virkur þáttakandi í íslenskum kvikmyndaiðnaði.

Skipað hefur verið í fagráð sem er undanfari háskólaráðs sem verður formlega stofnað þegar viðurkenning liggur fyrir. Í ráðinu eru 12 fulltrúar þar af fimm sem koma frá fagfélögum kvikmyndargerðarmanna og leiklistar. Kvikmyndamiðstöð Íslands skipar líka fulltrúa (sjá lista um trúnaðarstöður.) Formaður fagráðs og væntanlegs háskólaráðs er Katrín Dóra Þorsteinsdóttir. Katrín Dóra er þekkt meðal kvikmyndafyrirtækja síðan hún var fulltrúi Samtaka Iðnaðarins í þjónustu kvikmyndaframleiðenda um árabil. Hún hefur mikla reynslu af stjórnsýslu og rekstri, bæði menntageiranum og hinum opinbera. Kvikmyndaskólanum er mikill fengur í að Katrín Dóra skuli taka að sér þessa formennsku. Áætlaður er fyrsti fundur fagráðs er 30. september.

Áður hefur verið kynnt ráðning Dr Sigrúnar Sigurðardóttur í stöðu aðstoðarrektors við skólann. Hún skipar mikilvægt hlutverk í yfirfærslunni á háskólastig. Hún hóf störf 1. september síðastliðinn.

Þann 6. október er stefnt að því að halda (há)skólafund, opinn nemendum kennurum og starfsfólki. Þar munu stjórnendur kynna stöðuna og umræða verður um væntanlega akademíu.

Kvikmyndaskólinn er búinn að hnýta alla enda og vonast nú til að stjórnsýslan skipi skjótt sérfræðingahóp svo hægt verði að ljúka ferlinu. Væntingar skólans eru að hægt verði að opna nýja námsleið til BA gráðu í janúar.

Ástæða er til að nefna að unnið er að því að móta feril gagnvart þegar útskrifuðum nemendum og þeim sem stunda nám nú, um hvernig nám þeirra verður metið. Gengið er útfrá því að viðurkenningin sé afturvirk og að þegar útskrifaðir nemendur að uppfylltum ákveðnum skilyrðum geti fengið gráðuna sína uppfærða. Þetta verður kynnt þegar fyrir liggur.

Þess má geta að yfirfærsla Kvikmyndaskóla Íslands á háskólastig hefur mikil áhrif inn í skólakerfið sjálft. Við það að þessi námsleið opnast þá skapast tækifæri fyrir fjölmarga nemendur í ýmsum framhaldsskólum til að fá samfellu í nám sitt. Víða eru kvikmyndabrautir, leiklistarbrautir og listabrautir. Nefna má skóla eins og Borgarholtsskóla, Fjölbraut í Garðabæ, Fjölbraut í Ármúla, Fjölbraut Norðurlands vestra, Menntaskólann á Ísafirði, Lauga í Þingeyjarsýslu o.fl. þar sem nemendur munu fagna að fleiri valkostum í framhaldsnámi.

Háskólanám í skapandi greinum hefur staðið í stað meðan fjöldi stúdenta hefur tvöfaldast frá aldamótum. Fjórða iðnbyltingin er þegar farin að hafa áhrif á námsval nemenda og mikilvægt að menntakerfið hafi sveigjanleika til að bregðast við. 

Böðvar Bjarki Pétursson formaður stjórnar Kvikmyndaskóla Íslands