Útskriftarræða Rektors

Rektor Kvikmyndaskóla Íslands, Friðrik Þór Friðriksson hélt ræðu fyrir útskriftarnemendur okkar laugardaginn 12.júní

Aðstandendur, vinir og bakhjarlar nemenda, starfsfólk og kennarar, og hetjur dagsins: Útskriftarnemar frá Kvikmyndaskóla Íslands á vormisseri 2021. 

 

Mig langar að byrja mína ræðu á að biðja fólk um að klappa fyrir útskriftarnemendunum.

 

Við verðum að hafa í huga að sá hópur sem útskrifast hér í dag, þó ekki nema hálfum mánuði á eftir áætlun, að hann innritaðist í skólann haustið 2019. Á hinum saklausu tímum fyrir veiruna miklu, Covid. Þau innrituðust sem hluti af 32 nemendahópi þegar skólinn var á Grensásveginum. Lítið vissum við þá. Síðan tóku við þrjú misseri þar ástandinu verður best lýst með að segja að gengið hafi á með fárviðrum. Á vorönninni 2020 var skólinn lokaður í sex vikur. Brugðist var við með fjarkennslu þar sem það var hægt, en fljótlega var ljóst að Kvikmyndaskólinn með alla sína verklegu kennslu og miklu kvikmyndaframleiðslu á hverju misseri myndi verða að mæta lokunum, með lengingu skólahalds. 

 

Útskrift á vormisseri 2020 var ekki fyrr en í lok júní. Síðan tók haustmisserið við og flest virtist leika í lyndi. En um miðjan september braust veiran fram aftur og setja þurfti upp grímuskyldu, hámarks sóttvarnir og fjöldatakmarkanir. Þannig hefur það verið frá því fyrir um það bil 3 vikum síðan. Hálfan námstímann hafa þessir nemendur mátt búa við og framleiða sínar myndir við verulegar takmarkanir í öllu samfélaginu. Allt er þetta í fersku minni, en afrekið er engu minna.

 

En mér er sagt að sjaldan hafi álagið verið meira á útskriftarhóp en nú í vor og  árangurinn eru frábærar myndir. Það eru 19 nemendur sem útskrifast hér í dag, 6 hafa frestað útskrift en 7 hafa fallið út á leiðinni á ýmsum tímum. Brottfall er ekki óalgengt í Kvikmyndaskóla Íslands enda námið erfitt, en þetta er nokkuð hátt hlutfall sem skýrist af aðstæðum. En þið komust í mark á réttum tíma.

 

En það er fleira sem gerir ykkur einstök en aðlögunarhæfni ykkar og úthald. Þið eruð nefnilega líka fólk með viti. Og nú skal ég útskýra af hverju það er.

 

Við lifum á tímum sem kallast má uppruni stórtölvunnar í samfélagi manna. Þetta hefur verið kallað 4. iðnbyltingin og sagt er að hún sé sú hraðasta og áhrifamesta sem riðið hefur yfir til þessa. Áhrif hennar eru mikil og í alla kima og við finnum öll fyrir þeim. Eins og alltaf með iðnbyltingar þá er núningsbletturinn atvinnulífið. Störf tapast og ný verða til og aðlögunin getur verið sár. 

 

Í 4. iðnbyltinguna er spurningin einföld, ef vélmenni með sömu greind og hreyfigetu og þú getur unnið starfið þitt, þá mun þér verða skipt út. Með tilkomu stórtölvunnar eru inngripin svo ennþá víðtækari inn í fjölmargar óvæntar starfsgreinar eins og Læknisfræði, Lögfræði og Verkfræði, þar sem ofurgreindin er líkleg til að gjaldfella þá menntun sem í gangi er. Fjölmargar aðrar greinar má nefna.

 

Gallinn við menntakerfið er að það er svolítið svifaseint og ræður illa við byltingar. Er hugsanlegt, að af 10 þúsund háskólanemum sem hefja nám í íslenskum háskólum í haust, þá sé helmingurinn að mennta sig til starfa sem verða úrelt innan 10 ára, eða jafnvel miklu fyrr, eða jafnvel að námið sé þegar orðið úrelt. 

 

Þetta er stóra spurningin sem nýnemar þurfa að spyrja sig. Það er er ekki skemmtilegt að leggja mikið á sig í námi og útskrifast, einungis til að finna út að tölva eða vélmenni er margfalt samkeppnishæfari.

 

Þá er komið að því að segja af hverju þið eruð snjöll.

 

Það er af því að þið völduð ykkur nám sem úreltist ekki. Ég ábyrgist að sú menntun sem þið hafið hlotið hér í Kvikmyndaskóla Íslands mun endast ykkur út ævina. Sú reynsla að skapa listaverk sem er búið til með persónulegri meðvitund og tilfinningu, að klára verkið, sýna það og fá viðtökur, það er menntun sem hefur ekkert með stórtölvur eða ytri veruleika að gera. Þetta er ykkar innri menntun og hún verður ekki af ykkur tekin. Og sú hæfni að kunna að segja sögur mun aldrei úreldast meðan mannleg samfélög eru til.

 

Ég þarf að minnast hér á viðurkenningarferli sem skólinn er vegna diplómunnar ykkar. Það mál hefur tekið of langan tíma. Skólinn hefur lagt fram beiðni um að ljúka málinu fyrir 30. júlí næstkomandi og við höfum væntingar um að það gangi eftir.  Vinsamlegast fylgist með fréttum frá skólanum.

 

Að lokum þá vil ég biðja ykkur um að byrja strax að skipuleggja 10 ára endurfundi ykkar, því það verður eitthvað partý þegar þið farið að segja frá öllum ykkar stórverkum, sem þegar eruð orðin afreksfólk við útskrift.

 

Það er heiður að kynnast ykkur, til hamingju með daginn