Útskrift vetur 2021 - Tómas Sveinsson, Leiklist

Tómas Sveinsson mun útskrifast frá Leiklist þann 18.desember næstkomandi með mynd sína “Plútó”.

Mikki er ungur og efnilegur tónlistarmaður í hljómsveitinni Plútó, hljómsveitin hefur vakið athygli á íslenskum mælikvarða en Mikka dreymir að ná lengra.

Við þetta tilefni fengum við að spyrja Tómas nokkurra spurninga

Hver er fyrsta kvikmynda upplifunin sem þú mannst eftir?

Fyrsta kvikmynda upplifun mín myndi ég segja að væri “Stuart little”. Ég horfið á hana með mömmu og pabba þegar ég var krakki og grét yfir honum Stúart mínum. 

Hvað heillar þig við kvikmyndagerð?

Það sem heillar mig við kvikmyndagerð verður að vera frelsið, þú byrjar bara og endar þar sem þig langar. Ég er alltaf að fá nýjar og nýjar hugmyndir og langar mig að framkvæma þær allar. Þetta nám kennt mér að allt er hægt ef viljinn er NÓGU mikið fyrir hendi.

Hvers vegna varð þín deild fyrir valinu?

Ég valdi leiklist af þeirri einu ástæðu að mig hefur alltaf dreymt um að vera leikari en kannski aldrei þorað að segja það upphátt, en svo ákvað ég bara að hlusta á hjartað mitt og gera það sem ég vil.

Kom þér eitthvað sérstaklega á óvart í náminu?

Það sem kom mér mest á óvart við námið er hvað mér fór fram sem leikari. Ég horfi stundum á hvernig ég var og hvernig ég er í dag og sé strax mun. Maður lærir svo margt t.d. sambandið við líkamann og röddina.

Hvernig lítur svo framtíðin út?

Framtíðin er björt og brosandi. Ég bíð eftir svari frá skólum erlendis og ef ég kemst ekki inn, þá eignaðist ég fullt af góðum vinum sem vilja gera með mér bíó.