Sylvía Rún Hálfdanardóttir - Leiklist

Sylvía Rún mun útskrifast frá Leiklist þann 27.maí næstkomandi með mynd sína “Fjölskyldan mín”

“Fjölskyldan mín” er kómedía um nútíma fjölskyldu. Myndin fjallar um Fanney og hún og nýji kærastinn hennar eru að skutla dóttur Fanneyjar upp í sumarbústað til föður síns og nýju kærustunnar hans. Þar lenda þau í þeim óumflýjanlegum aðstæðum að þurfa eyða helginni öll saman.

-Hver er fyrsta kvikmynda upplifunin sem þú manst eftir?

Ég man eftir því að horfa á Stundin okkar og Latabæ, gat dansað og leikið mér með öllum lögunum og fannst alltaf jafn gaman. 

-Hvað heillar þig við kvikmyndagerð?

Það sem heillar mig mest er að vinna með skapandi og metnaðarfullu fólki. Finnst alltaf jafn gaman að fá handrit í hendurnar, vinna með leikstjóra eða sjálfstætt við að móta og finna karakterinn. Síðan er það að vinna með hóp sem heillar mig mikið og að við séum öll að vinna að sama markmiði. 

-Hvers vegna varð Leiklist fyrir valinu?

Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á því að leika og lék fyrir fjölskylduna á ættarmótum, afmælum og fermingum, en þeim nánustu fannst ég oft geta verið of kvíðin til að takast á við það stóra hlutverk að verða leikkona. Ég lét það þá aðeins bíða og menntaði mig sem lögreglukona áður en ég gat síðan ekki beðið lengur með að fara í leikaranám. Það að fá tækifæri til þess að leika, gefur mér svo mikið, að geta gefið fólki tilfinningar á allskonar skala með því að leika í allskonar aðstæðum og leika margskonar persónuleika. 

-Kom þér eitthvað sérstaklega á óvart í náminu?

Námið var krefjandi en mjög skemmtilegt, það sem kom mér mest á óvart var hversu marga trausta vini og samstarfsfélaga ég eignaðist á þessum tveimur árum. Hversu mikið maður eflist ekki bara sem leikkona heldur líka sem einstaklingur. 

-Og hvernig lítur svo framtíðin út?

Ég ætla að halda áfram að vinna með skapandi og skemmtilegu fólki og síðan vonandi fær maður tækifæri til að vera partur af tökum og geta aðstoðað þar.