Lyklar sem finnast fyrir utan búð

Lokaverkefni þeirra Rósu Vilhjálmsdóttur og Gunnars Arnar Blöndal frá Kvikmyndaskólanum ber heitið It´s her, eða Það er hún, og segir frá Tryggva, einföldum strák sem býr hjá móður sinni og vill öllum vel.

Einn daginn fer hann út í búð og kemur þar auga á gullfallega stelpu sem heitir Sara. Hún missir lyklana sína fyrir utan verslunina og segir sagan frá misvelheppnuðum tilraunum Tryggva til að koma lyklunum aftur í réttar hendur.

Þau Rósa og Gunnar segja að hugmyndin að verkinu hafi bara komið til þeirra, en það hafi tekið tíma að þróa hana almennilega. Vegna farsóttarinnar hafi verkið gengið misvel, en þau hafi verið heppin að vera með þeim fyrstu sem komust í tökur og því sloppið í heildina ágætlega.

Rósa segir að eftir útskrift hjá sér taki við heimildamyndagerð. Námið hafi gengið ágætlega en COVID-19 hafi sett stórt strik í reikninginn og hún hefði viljað getað einbeita sér meira að því sem hún hefur mestan áhuga á.