Lán að fá að kenna við Kvikmyndaskóla Íslands – Erlingur Óttar um kennsluna og myndina Rökkur

Erlingur Óttar Thoroddsen er leikstjóri hrollvekjunnar Rökkurs sem frumsýnd verður næsta haust. Hann hefur starfað sem kennari við Kvikmyndaskóla Íslands síðustu ár og við fengum hann til að segja okkur aðeins frá myndinni, störfum sínum og bakgrunni.

Ég byrjaði að taka upp stuttmyndir á VHS-upptökuvél foreldra minna þegar ég var krakki, og þær voru allar einhvers konar hryllingsmyndir þar sem við notuðum mikið af tómatsósu og létum fólk hverfa með því að klippa “in camera” — ýttum á stopp, fengum karakter til að hlaupa í burtu, og byrjuðum svo að taka upp aftur. Þetta voru þungavigtarmyndir á ýmsa vegu.

Erlingur segir að á menntaskólaárunum hafi hann hinsvegar farið að velta alvarlega fyrir sér möguleikanum að verða kvikmyndagerðramaður.

 Ég fór að taka betur eftir ýmsum leikstjórum og stílbrögðum þeirra og hélt sömuleiðis áfram að gera stuttmyndir og þróaði með mér mín eigin stílbrögð.Mig langaði að fara í nám í Bandaríkjunum og komst inn í leikstjórnarnám við Columbia háskóla í New York, og hef verið þar meira og minna síðan. Ég veit ekki alveg hvort ég valdi fagið, eða hvort það valdi mig — það kom eiginlega aldrei neitt annað til greina þegar ég hugsa til baka. Ég hef alltaf haft brennandi áhuga á því að segja sögur, og uppáhaldsfrásagnarformið mitt er kvikmyndalistin.

Erlingur segir það hafa verið lán að fá að kenna nokkra kúrsa við Kvikmyndaskóla Íslands.

 Ég hef kennt nokkra kúrsa í handritagerð, myndræna frásögn, og svo skrif á handriti í fullri lengd. Það hefur verið bæði mjög skemmtilegt og gefandi að fá að kenna við skólann — að vera í herbergi fullu af ástríðufullum nemendum fær mann sjálfan til að vilja fara út og skrifa og taka upp meira, og ég get ekki beðið eftir því að sjá hvað nemendurnir framleiða í framtíðinni.

En hvaðan kom hugmyndin að hrollvekjunni Rökkri og hvað kom til að Erlingur valdi nákvæmlega þá tegund kvikmyndalistarinnar að fast við?

Eins og ég sagði áður, þá er hryllingsmyndin búin að fylgja mér í áraraðir. Ég man eftir því að skoða hulstrin á vídjóleigum, og vera sérstaklega hugfanginn af hryllingsmyndahulstrunum. Ég mátti ekki leigja myndirnar en var búinn að ímynda mér söguþræðina í miklum smáatriðum — þannig að ég var byrjaður að hugsa upp hrollvekjur mjög snemma á lífsleiðinni. Á seinni árum þá hefur það verið blanda af sköpunargleði og ákveðnum pólitískum-og pönk-elementum sem mér finnst vera mest heillandi við hryllingsmyndina. Hryllingsmyndin leyfir manni að gera ýmislegt út fyrir kassann sem maður sér ekki í öðrum kvikmyndagreinum.Og þó svo ég viti ekki alveg nákvæmlega hvar munurinn liggur, þá myndi ég segja að Rökkur sé frekar hrollvekja heldur en hryllingsmynd. Markmiðið var frekar að vekja upp gæsahúð heldur en “hrylling” — en ég kaupi alveg bæði lýsingarorðin.

Rökkur er eins og áður segir hrollvekja en Erlingur bætir við að hún sé með dramatísku ívafi.

Sagan segir af Gunnari og Einari.  Þeir voru par en eru núna hættir saman. Gunnar fær skringilegt símtal frá Einari um miðja nótt, og keyrir út á Snæfellsnes til að finna hann í fjölskyldusumarbústaðnum. Þegar hann mætir á staðinn kemur bráðlega í ljós að ekki er allt sem sýnist …Það voru nokkrir þættir sem spiluðu inn í að Rökkur varð til. Sá fyrsti var að mig langaði að gera mynd á Íslandi sem yrði tiltölulega auðveld og ódýr í framleiðslu (nota bene: það er ekkert auðvelt í kvikmyndagerð, sérstaklega ekki þegar maður vill gera hlutina ódýrt!), svo ég var að velta fyrir mér sögum þar sem væru bara tvær aðalpersónur og ekki mikið fleiri einn aðaltökustaður. Ég hafði fyrir einhverjum misserum byrjað á handriti um skringilega hluti sem gerðust í sumarbústað, en hafði aldrei klárað það, svo skyndilega kom sú hugmynd upp aftur.

Á sama tíma langaði Erlingi að skrifa sögu um sambandsslit og hvernig fólk bregst mismunandi við þegar samband hættir.

Mig langaði líka til þess að gera íslenska kvikmynd sem tók samkynhneigð ástarsambönd alvarlega, því ég hafði í raun og veru ekki séð það gert áður. Þannig að allir þessir hlutir smullu saman á réttum tíma, og handritið að Rökkri byrjaði að verða til.

Erlingur bendir á að það sé hægt að fylgjast með Rökkri á Facebooksíðu myndarinnar  en frumsýningin verður 27. október næstkomandi.

Það er margt spennandi að gerast með Rökkur þess dagana, og besta leiðin til að fylgjast með er á Facebook. Við vorum m.a. að frumsýna nýja “kitlu” (þ.e. teaser) sem ætti að gefa smá hugmynd um hvernig mynd þetta er. Það verða fleiri tilkynningar og sýnishorn á næstu vikum og mánuðum, og svo verður myndin frumsýnd 27. október næstkomandi. Ég held að haustið fari Rökkri vel!Ég er mjög ánægður að sjá gróskuna í óháðri íslenskri kvikmyndagerð, og ég vona að Rökkri verði tekið vel þegar hún kemur út. Við erum öll mjög stolt af henni!