Konrektor tók við rektorsstöðu KVÍ

Hlín Jóhannesdóttir tók við rektors stöðunni í Kvikmyndaskóla Íslands (KVÍ) af Berki Gunnarssyni þann 1.september síðastliðinn

Hlín Jóhannesdóttir hefur verið fagstjóri framleiðsludeildar, starfsmannastjóri og konrektor Kvikmyndaskóla Íslands árum saman. Hún hefur framleitt fjölda kvikmynda á ferli sínum og framleiddi nú síðast ásamt Lilju Ósk Snorradóttur myndina „Einvera" sem frumsýnd verður á hinni virtu kvikmyndahátíð TIFF í Toronto nú í dag, 8. september og einnig kvikmyndina „Á ferð með mömmu“ í leikstjórn Hilmars Oddssonar sem hefur fengið afbragðs góða dóma á Íslandi og erlendis. Börkur Gunnarsson sem hefur verið með annan fótinn í Úkraínu frá því í sumar að vinna við gerð heimildarmyndar mun alfarið verða við þá vinnu í haust. Mynd hans frá Úkraínu fjallar um menningarbreytingar sem þar eru að gerast. Börkur, sem hefur oft komið til Úkraínu, var kominn þangað skömmu eftir að stríðið braust út í fyrra og hefur komið reglulega síðan til að fylgjast með breytingunum í landinu. En Börkur mun snúa aftur til starfa sem kennari og fagstjóri í Kvikmyndaskólanum á næsta ári.

Eitt síðasta embættisverk Barkar Gunnarssonar sem rektors var skólasetning fyrir þetta árið sem fór fram um daginn, en þetta er 31.árið í sögu skólans. Í rektorstíð Barkar fór skólinn með glans í gegnum alþjóðlega gæða úttekt á vegferð KVÍ til að fá háskólaviðurkenningu, haldið var upp á 30 ára afmæli skólans þar sem forseti íslenska lýðveldisins heiðraði stofnunina með komu sinni, nýrri erlendri deild í skólanum (IFS) var ýtt úr vör þar sem á þriðja tug nemenda úr fjórum heimsálfum stunda nú nám og á þessum tíma hafa á fimmta tug efnilegustu kvikmyndagerðamanna landsins útskrifast úr skólanum. 

 

Hlín Jóhannesdóttir er settur rektor fram í janúar 2024 og tekur við starfinu á meðan skólinn er í miklum vexti. Skólinn hefur aldrei haft jafn margar námsbrautir í gangi né svo mörg námskeið sem nú. Fyrir veturinn hefur KVÍ þurft að taka á leigu meira húsnæði undir kennslustofur og aðstöðu. Nú er svo komið að nánast allt rými í byggingunni á Suðurlandsbraut 18 er í notkun Kvikmyndaskólans utan fimmtu hæðar og hluta þriðju og fjórðu hæðar.