Akademíufundur Kvikmyndaskóla Íslands

Formlegur akademíufundur var haldinn í fyrsta sinn þann 6. maí 2021 í fundarsal Kvikmyndaskóla Íslands. Böðvar Bjarki Pétursson, formaður stjórnar skólans og formaður verkefnisstjórnar háskólayfirfærslu, flutti inngang og stýrði fundinum.

Á fundinum var farið yfir helstu umbreytingar sem fylgja háskólayfirfærslu og þeim kerfum sem þarf að huga vandlega að í því tilliti. Þá voru ráðningarkerfi og framgangur akademískra starfsmanna tekin sérstaklega til skoðunnar og hvatt var til almennrar umræðu til að samræma þekkingu fagfólks sem þjóna lykilhlutverkum innan menntastofnunarinnar. 

Uppruni akademíunnar 

Fundurinn hófst á almennri fræðslu og umræðu um uppruna akademíu. Þá voru sérstaklega skoðuð uppruni þýskra, franskra og breskra háskóla. Í upphafi 19. aldar markaði breski skólinn skólastefnu þar sem nemandinn var í öndvegi, sá franski með þjóðfélagið og ríkið, en þýski Humboldt skólinn í Berlín hafði vísindin og sameiginlega leit nemenda og kennara að þekkingu sem hornstein sinn. Með því að yfirfæra vísindin á listina telja stjórnendur Kvikmyndaskólans að Humboldt stefnan eigi best við hina nýju akademíu skólans. Háskólasamfélag og starf nemenda, kennara og starfsfólks Kvikmyndaskólans er því tileinkað þjónustu og samtali við listina. 

Skýr tenging við iðnaðinn

Eftir almenna umræðu um stefnu akademíunnar var áhersla færð yfir á almennan framgang innan stofnunarinnar.  Samhljóma rómur var í hópnum um að skólinn haldi sterkri tengingu við kvikmyndaiðnaðinn. Meginuppistaða kennarateymis og stjórnenda er, og hefur ávallt verið, samsett af starfandi listamönnum sem einnig eru virkir í atvinnugreininni. Faglegt álit fundargesta er að halda áfram sterkri tengingu við iðnaðinn. 

Tryggt aðgengi að hæfum leiðbeinendum

Þá leiddist fundarumræðan að því hvernig er hægt að tryggja skólanum stöðugt aðgengi að hæfustu einstaklingunum innan kvikmyndaiðnaðarins. Lögð er áhersla á að hæfir leiðbeinendur muni hafa góðan aðgang að skólanum. Samhliða mun ávallt fara fram öflug leit að fagfólki til að viðhalda gæðum innan kennarateymis. Eðli iðnaðarins og starfsmannastefna skólans bjóða uppá stöðuga starfsmannaveltu kvikmyndagerðarmanna og leikara sem sækja störf til KVÍ á milli verka.  Lagði Hilmar Oddsson, fagstjóri leikstjórnar, til á fundinum að skipun í fagstjórastöður væru að lágmarki fjögur ár til að tryggja stöðugleika í lykilstörfum deilda.

Aukinn fjöldi starfsmanna

Við skólann eru nú kennd 107 námskeið á misseri. Með tilkomu erlendrar deildar (IFS) mun fjöldi námskeiða tvöfaldast og verða í náinni framtíð um 200 námskeið kennd á hverju misseri. Áætlað er að um 80 til 120 stundakennarar verði ráðnir á misseri með sérstöðu þar sem krafist er reynslu. Slíkur starfsmannafjöldi kallar á góð og náin samskipti við iðnaðinn.

Framgangur í akademískar stöður

Því næst var talað um framgang í akademískar stöður. Ráðið verður í 16 fjórðungsstöður fyrir nafnbætur; lektórar, dósentar og prófessorar. Þessum stöðum er ætlað að leggja ríka áherslu á rannsóknir. Full launastaða getur fengist með samspili fagstjórastöðu, kennslu og nafnbótarstöðu. Hins vegar geta einnig verið margvíslegir möguleikar á hlutastörfum. Kerfinu er ætlað að vera stuðningur og tenging við starfandi fagfólk, sem jafnframt starfar við skólann.

Þá ræddi stjórnarformaður hefðbundinn framgangsferil þar sem rannsóknarstöður munu kalla á kennslu á þremur til fimm námskeiðum. Lágmark yrði tveggja ára tímabil með góðum umsögnum. Í framhaldi af tveggja ára kennslu verði þá hægt að óska eftir framgangi í lausa stöðu fagstjóra. Það kallar þó á undantekningu með fyrstu ráðningum nú í haust, sem verða að lágmarki dósentar. Í framhaldinu verður svo fyrst ráðið í lektorsstöður. Ferlið verður áfram í skoðun og verður meðal annars sérstaklega skoðuð hvaða leið sé best fyrir komu erlenda gestaprófessora og hvar kennsla og rannsókn muni mætast. 

Lokaorð formannsins voru:

„Við erum einungis að keppa við okkur sjálf og í því felst mikið frelsi. Ég veit að geta og metnaður þeirra sem að skólanum koma; kennara, starfsfólks og nemenda, á eftir að bera okkur langt.“