Listin að leika með Þorsteini Bachmann

Þorsteinn Bachmann er ekki bara einstaklega fjölhæfur leikari sem tekist hefur á við hin ýmsu hlutverk, bæði mennsk og af dýraríkinu, heldur einnig mikilsmetinn kennari til fjölda ára sem leitt hefur næstu kynslóð leikara í átt að sínum draumum. 

Undir trénu

Hvenær náði leiklistin tökum á þér og hvað heillaði við fagið?

Ég lék Úlfinn í rokkaðri uppfærslu af Rauðhettu og úlfinum í leikstjórn Helga Björns á menntaskólaárunum og eftir það var ekki aftur snúið. Ég heillaðist svo gersamlega af umbreytingamætti leiklistarinnar að ég ákvað að læra hana til þess að geta miðlað henni til annarra. Mér fannst einhver galdur falinn í þessu ferli sem allur heimurinn þyrfti að kynnast.

Eiðurinn

Með svona víðfengna reynslu, hver er helsti munurinn á að leika í sjónvarpi/kvikmyndum og svo á sviði?

Leikhús og kvikmyndir er í grunninn list augnabliksins og sannleikans þó formið sé ólíkt. Mér finnst leikhúsið að mörgu leyti erfiðara og vægðarlausara vegna þess að þar er ekki hægt að stoppa og gera aftur ef manni mistekst. Kvikmyndin er gerð í bútum. Það hentar mér vel. Mér finnst líka gott að þurfa ekki að endurtaka allt verkið í heild sinni kvöld eftir kvöld. Það er meiri hraði og spenna oftast á kvikmyndasettinu og enginn tími fyrir leiðindi og drama bakvið tjöldin. Það er gott; gert er gert og við höldum áfram. Þannig eru allir alltaf að gera sitt besta og tilfinningin fyrir samsköpun er allsráðandi.

Tom of Finland
Fangar

Kvikmyndaskólinn hefur notið góðs af kunnáttu Þorsteins til fjölda ára, en sjálfur útskrifaðist hann frá skólanum árið 1992.

Ég hef verið kennari við skólann nánast sleitulaust síðan 2009. Kennslan er mín köllun í lífinu. Það er gott að gefa til baka til samfélagsins og ég veit fátt ánægjulegra en þegar fyrrum nemendur mínir blómstra í lífinu, ekki síst á sviði sjónrænnar miðlunar, hvaða nafni sem hún kann að nefnast. Helsti kostur Kvikmyndaskólans er auðvitað mannauðurinn og námskráin sem hefur þróast og slípast í gegnum árin en einnig er skólinn góðum tækjum búinn, þannig að þar er hægt að byrja strax að gera tilraunir. Þetta er mikilvægt. Það lærist ekkert öðruvísi en að gera tilraunir. Þá skiptir líka máli að umhverfið styðji við þessa tilraunamennsku og nemendur geti leitað frelsis í sköpun í traustu umhverfi.  Ég er sjálfur nemandi úr fyrsta árgangi  Kvikmyndaskólans og lærði í framhaldi á kvikmyndamiðilinn í gegnum ýmis störf bak við vélina. Mér finnst ég búa að því í dag sem leikari í kvikmyndum og sjónvarpi. Með tímanum varð kvikmyndasettið eins og stofan heima hjá mér eða bakgarður heimilis míns; fólkið eins og fjölskylda mín. Að kenna fólki að gera tilraunir og vinna saman að því að þjóna einhverju verki umfram sjálfan sig og sitt þrönga egó er takmark út af fyrir sig í kennslunni hjá mér.

Vonarstræti

Eitthvert ákveðið verkefni sem hefur sérstaklega fangað þig?

Mér finnst skemmtilegt að takast á við afgerandi karaktersköpun. Ég vinn hvert hlutverk frá grunni en hlutverkin eru mis erfið. Mér finnst umbreytingin skemmtilegust. Ætli hlutverk mitt í Vonarstræti sem kom út 2014 standi ekki uppúr. Mín eigin móðir þekkir ekki manninn sem þar birtist, segist aldrei hafa séð hann í lífinu nema þarna á tjaldinu. Ég lít á það sem hrós. 

Katla

Mikið hefur verið rætt um væntanlega þáttaröð “Kötlu” og er óhætt að segja að áskrifendur bíði spenntir

Ég leik lögregluvarðstjórann Gísla í þáttaröðinni Kötlu sem Netflix framleiðir í samstarfi við Baltasar Kormák og hans fólk hjá Rvk Studios. Katla hefur gosið í um það bil eitt ár þegar óvenjulegir atburðir fara að eiga sér stað í fámennu samfélagi fólks sem enn býr á svæðinu í og í kringum Vík í Mýrdal.  Ég má ekki gefa upp mikið á þessum tímapunkti annað en það að Gísli er eini starfandi lögreglumaðurinn á svæðinu. Hann er staðfastur trú sinni en það reynir talsvert á þrek hans í þáttunum. 

Ófærð

Og hvernig lítur framtíðin út hjá Þorsteini?

Ég er að vonast til að þurfa ekki að yfirgefa Ísland vegna spennandi verkefna erlendis. Ég vonast til að verkefnin komi hingað. Ég held þetta sé í raun að gerast og við séum að lifa þessar breytingar.