Útskriftarræða Vetur 2021

Friðrik Þór Friðriksson rektor Kvikmyndaskóla Íslands, hélt þessa útskriftar ræðu fyrir nemendur sem útskrifuðust þann 18.desember síðastliðinn

Kæru útskriftarnemendur, aðstandendur og gestir.

Til hamingju með útskriftina  og til hamingju með daginn útskriftarnemar. Þið hafið öll unnið afrek að komast hingað í dag. Það besta er að þið vitið það sjálf. Þið vitið hvað þið hafið lagt á ykkur og nú eruð þið komin í mark, og þá ber að fagna vel. Þið hafið öðlast reynslu sem er alltaf grundvöllur raunverulegrar menntunar

Þið vetrar útskriftarnemendurnir eruð alltaf svolítið spes, ekki alveg hefðbundnir sem er eiginleiki sem hentar ekki endilega illa í þeim heimi sem þið eruð að stíga inn í.

Að útskrifast úr kvikmyndanámi er miskunarlaust miðað við til dæmis að útskrifast úr lyfjafræði. Þar fagna allir útskriftinni en enginn les ritgerðina og þeir sem lesa skilja fæstir. Þið útskrifist með eigin persónulegu útskriftarmyndir sem eru algjörlega upplýsandi um getu ykkar og hæfni. Velkomin í heim listanna.

Mér er ánægja að segja frá því að þau skilaboð bárust frá reyndum dómnefndarfulltrúa að gæði mynda við þessa útskrift hefðu verið mjög jöfn og góð. Ég get tekið undir þetta hrós. Þannig að þið megið nú þegar vera montin af ykkur. 

Í því samhengi er rétt að veita þakkir til ykkar leiðbeinenda. Þar reynir skólinn alltaf að ná í fremstu leikstjórana þegar þeir eru á lausu og við vorum sérstaklega heppin þetta árið með Rúnar Rúnarsson og Ólaf de Fleur.Rúnar stýrði deild 1, Leikstjórn og Framleiðslu  og Ólafur de Fleur stýrði Skapandi Tækni. Jörundur Ragnarsson leikari og útskrifaður leikstjóri frá Colombía í New York, stýrði Leiklistinni og er mikið efni.

Kvikmyndaskóli Íslands er líka stoltur af ykkur. 

Í því samhengi má segja frá því að skólinn hefur verið að uppfæra starfsþjálfunarkerfi skólans, Brú í Bransann, sem eru launuð störf hjá helstu kvikmyndafyrirtækjum og sjónvarpsstöðvum landsins. Þegar er búið að ganga frá staðfestingum á uppfærslu samninga við True Norh og Hero Productions. Og erum komin langt á leið með Stöð 2, RÚV, Pegasus og mörg helstu framleiðslu fyrirtæki og sjónvarpsstöðvar landsins. Nemendur eru beðnir um að fylgjast með fréttum á heimasíðunni og setja sig í samband við Sigurð Traustason okkar í móttökunni. Það er mikil eftirspurn alls staðar og í Kvikmyndaskóla Íslands verður til fólkið sem getur gert hlutina. Það hafið þið sannað.

Þá er komið að hinum pólítíska hluta þessarar útskriftarræðu.

27. janúar næstkomandi verða liðnir 24 mánuðir síðan Kvikmyndaskóli Íslands lagði fram umsókn um að fá viðurkenningu á fræðasviði lista til að geta útskrifað nemendur með BA gráðu í samvinnu við Hugvísindasvið Háskóla Íslands. Óskað var þá strax eftir því að skipuð yrði óháð sérfræðinganefnd til að veita umsögn um skólann.

Hér er um mikilvægt réttindamál fyrir nemendur að ræða fyrir eðlilegan framgang náms. Viðbótarár við Hugvísindasvið Háskóla Íslands til BA gráðu og síðan í sérnám við bestu skóla erlendis á að vera eðlileg og þægileg leið fyrir ykkur sem viljið mennta ykkur frekar. 

Hér treysti ég núverandi ráðherra háskóla, Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, að bæta úr. Ég veit að hún hefur skilning á að 24 mánuðir til afgreiða einfalda úttekt og umsögn, svo nemendur fái gráðu sína rétt metna, er ekki eðlilegur tími. 

Ég vænti þess að það verði brugðist skjótt við og formlegt ferli sett í gang og að fréttir um afgreiðslu verði bráðlega.

Það er fagnaðarefni að ætlunin sé að efla hinn skapandi iðnað sem svo er kallaður. En það verður enginn vöxtur ef ekki er hugað að menntakerfinu.

Að því sögðu þá vil ég árétta að dagurinn í dag er hátíðisdagur, ágætu útskriftarnemar og ég býð ykkur að njóta hans vel.

Friðrik Þór Friðriksson