Útskriftarmynd Grétars Magga Tarnús Jr. sýnd vestanhafs

Haustið 2014 útskrifaðist Grétar Maggi Tarnús Jr. úr Kvikmyndaskóla Íslands, Leikstjórn framleiðslu.

Útskriftarmynd Grétars Magga, Sjúkdómarinn (Dr. Judge Sicko) var valin á Stockfish film festilval 2016 (Sprettfiskinn) ásamt nokkrum öðrum stuttmyndum og á næstunni verður myndin sýnd vestanhafs.

Í framhaldi af Stockfish 2016 fer Sjúkdómarinn á næstunni í sýningar í Boston, Chicago, New York, Seattle og Toronto. Ég fer til New York að fylgjast með hátíðinni, til að athuga hvort þeir sýni myndina rétt og svona en ekki aftur á bak hahaha…

Hátíðin sem Sjúkdómarinn verður sýnd á  kallast Taste of Iceland en í fyrra var það myndin Hross í oss sem var framlag Íslands.

Þegar ég skrifaði handritið þá ímyndaði ég mér að Bjarni Benediktsson (sem var þá fjármálaráðherra) væri alkóhólisti og myndi missa allt í lífinu vegna drykkjuskapar, en tæki sig svo á og færi í meðferð. Hann fengi þó ekki gömlu vinnuna sína aftur heldur vinnu sem öryggisvörður í Glæsibæ og væri alltaf í stöðugri afneitun um fortíð sína. Þar lendir hann í aðstæðum sem gera honum lífið leitt. Þetta er grínmynd með boðskap. Aðalhlutverk leika Halldór Gylfason, Júlíana Sara Gunnarsdóttir og Júlía Hannam.

Grétar Maggi hefur verið í ýmsum verkefnum frá útskrift og er með eitt og annað í gangi þessa dagana.

Eftir að ég útskrifaðist frá Kvikmyndaskóla Íslands gerði ég heimildarmynd um föður minn og kúluhúsið sem hann byggði og bjó í í mörg ár en þurfti svo að rífa húsið og selja lóðina. Myndin heitir “Meistari Tarnús og Hús” og var hún sýnd á kvikmyndahátíðinni Skjaldborg 2015 og Sunnlenskum kvikmyndadögum.Í dag er ég að vinna að heimildarmynd ásamt Hafsteini Gunnari Hafsteinssyni en það er leyniverkefni eins og er.  Svo var ég í hugmyndavinnu og undirbúningi í sjónvarpsþáttargerð en það er í biðstöðu vegna fjársskorts, málið er bara að halda áfram. Ég er að skrifa  dáldið og svo detta inn stundum lítil verkefni.

Þar að auki er Grétar Maggi tónlistarmaður og starfar sem slíkur undir nafninu Tarnús Jr.

Ég hef gefið út tvær plötur. Ég samdi lag í fyrra World War III og gerði tónlistarmyndband við það. Það fjallar um ástandið í  Sýrlandi, allar hörmungarnar þar. Myndbandið er frekar blóðugt en sýnir svo sannarlega ástandið þar.