Útskriftar ræða Rektors, 27.maí, 2023

Við hátíðlega athöfn í gær hélt Rektor Kvikyndaskólans, Börkur Gunnarsson, ræðu fyrir útskriftarnemendur okkar

Í vetur fagnaði Kvikmyndaskóli Íslands 30 ára afmæli sínu. Það var um haust árið 1992 sem skólinn hóf göngu sína, árið 2003 að menntamálaráðuneytið veitti skólanum formlega viðurkenningu á tveggja ára námsbraut og árið 2007 sem hann fékk viðurkenningu á þremur sérsviðum. Árið 2012 fór skólinn í gegnum úttekt á vegum CILECT, alþjóðlegum samtökum kvikmyndaháskóla, og var í framhaldinu tekinn inn í samtökin. 

 

Það eru liðin þrjú og hálft ár síðan Kvikmyndaskóli Íslands sótti formlega um að færast upp á háskólastig og þar með úr ráðuneyti Mennta- og barnamála og yfir í ráðuneyti Háskólamála sem Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir stýrir nú. Síðasta haust fór fram alþjóðleg úttekt á Kvikmyndaskólanum sem lauk með ánægjulegri niðurstöðu. Nefndin sem tók skólann út var skipuð Dr. Stephen Jackson, Bretlandi, Dr. Christinu Roznyai, Ungverjalandi og Ralph A. Wolff frá Bandaríkjunum en öll eru þau sérfræðingar í gæðakerfum háskóla. Niðurstaða úttektarinnar var að nefndin staðfesti að nám og kennsla sé á háskólastigi. Nefndin taldi hinsvegar ekki að skólinn væri tilbúinn í að bera nafnið háskóli fyrr en að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, sem Kvikmyndaskólinn hefur notað síðustu mánuði í vinnu til að uppfylla. 

 

Velgengni Kvikmyndaskóla Íslands undanfarin ár er helst krafti og sköpunargáfu kennara og nemenda að þakka. Til kennslu hafa valist bestu menn landsins í faginu og til náms hafa komið efnilegustu kvikmyndagerðarmennirnir. Á hverju ári lyfta aðal Edduverðlaununum fólk sem hefur farið í gegnum þennan skóla, ýmist sem kennarar eða nemendur. 

 

Kvikmyndaskóli Íslands hefur frá árinu 2004 útskrifað um 600 nemendur úr skólanum. Samkvæmt rannsóknum sem skólinn hefur látið gera hafa yfir 90% útskrifaðra nemenda unnið við kvikmyndagerð að námi loknu og um 40% þeirra hafa gert það allan tímann frá útskrift. Kvikmyndaskóli Íslands er, ásamt Kvikmyndamiðstöðinni, orðin ein af tveim mikilvægustu stoðum kvikmyndaiðnaðar á Íslandi.

 

Það er hægt að segja við nemendur sem eru að útskrifast með próf í hefðbundnari greinum að þeirra bíði spennandi verkefni. En ykkar bíður ekki neitt, þið eruð að fara út til að skapa ykkur verkefni. Skapið helst spennandi verkefni. Þið hafið sýnt það með sköpunargáfu ykkar og elju að þið getið það.