Útskrift Vor 2022 - Halldór Frank Hafsteinsson, Handrit og Leikstjórn

Halldór Frank útskrifast frá Handrit og Leikstjórn laugardaginn 4.júní næstkomandi með mynd sína "Feelblock"

Gríma er ung kona sem lifir í heimi þar sem allir eru með á sér áfast tæki sem kallast Feelblock sem veitir þeim stanslausa hamingju svo að hingað til hefur hún aldrei átt slæman dag. Einn daginn lendir Gríma í því að tapa sínu Feelblock tæki og kemst að því að nýtt tæki er ekki fáanlegt í verslunum næstu þrjár vikurnar. Nú þarf hún að læra að fást við nýjar áður óþekktar tilfinningar í kjölfar missi ömmu sinnar.

Hver er fyrsta kvikmynda upplifunin sem þú manst eftir?

 

Auðvitað horfði maður mikið á Disney myndir á spólu fyrstu árin eins og flestir aðrir á mínum aldri. Svo horfði maður mikið á fyrstu Harry Potter myndina með íslensku tali og svona en ég man alltaf eftir því þegar ég fékk Spider-Man 3 á dvd og fór að horfa mikið á á bak við tjöldin efnið sem fylgdi með. Á einhverjum tímapunkti hafði ég líklega horft á bak við tjöldin efnið oftar en myndina sjálfa, sem er að segja mikið miðað við hversu oft ég horfði á þessar myndir sem krakki. Mamma vann líka hjá Rúv þegar ég var á þessum aldri svo ég var oft með henni í vinnunni og fékk stundum að horfa á meðan það var verið að taka upp Stundina okkar.

 

Hvað heillar þig við kvikmyndagerð?

 

Frá því að ég sá fyrst bak við tjöldin efnið á uppáhalds myndunum mínum og sá hvernig hlutirnir virkuðu hjá Rúv hef ég alltaf heillast að því hvernig hægt er að ,,feika" hlutina til að segja sögu, ég man alltaf eftir því sem barn þegar ég var vitni á því þegar eitt special effects atriði í Stundinni okkar var tekið upp og álfkona var látinn birtast upp úr þurru og ég áttaði mig á því hvernig það var gert og mér fannst það alveg geðveikt. Ég fór svo fljótlega að gera mínar eigin stuttmyndir með vinum mínum og var mikið í því að láta hluti birtast og hverfa eins og þegar ég fékk afa minn til að leika guð í einni senu og lét hann birtast upp úr þurru.

En í dag heillast ég mest af því hvernig eitthvað sem skrifað er á blað getur orðið að einhverju svo miklu stærra. Skrifa söguna, búa til karaktera og að skapa heiminn og sjá svo þetta lifna allt við á leikaraæfingum og svo á setti.

 

Hvers vegna varð Handrit og Leikstjórn fyrir valinu?

 

Ef ég á að vera alveg hreinskilin þá valdi ég deildina mína af því að mér leiddist einhvern tímann í vinnunni og ég sá auglýsingu á Facebook frá Kvikmyndaskóla Íslands sem sagði: ,,Handrit og leikstjórnardeild, eitt laust pláss eftir, skráðu þig hér" og ég smellti á ,,skráðu þig hér". Ég hefði alveg gaman af því sama hvaða deild ég hefði valið, mér finnst þetta allt skemmtilegt. Þegar ég var krakki ætlaði ég alltaf að verða leikari, svo fór ég að gera sjálfur stuttmyndir, svo þegar ég var unglingur var ég alltaf skrifandi sögur og ætlaði að verða rithöfundur, svo fór ég í kvikmyndagerð í menntaskóla og fór að vinna við að klippa auglýsingar. Þannig já allar deildir hefðu þannig séð geta orðið fyrir valinu en ég endaði með að ýta á einhverja Facebook auglýsingu þegar mér leiddist.

 

Kom þér eitthvað sérstaklega á óvart í náminu?

 

Ég svo sem var ekki búinn að kynna mér þetta nám neitt það mikið þannig ég vissi ekkert hvað ég væri að fara út í, þannig já fullt sem kom á óvart með það. En það sem ég áttaði mig líka bara á hvað mér finnst gaman að framleiða myndir, ég vissi að mér fyndist gaman að skrifa og leikstýra þannig framleiðslan var skemmtileg viðbót sem kom mér mikið á óvart.

 

Hvernig lítur svo framtíðin út?

 

Nú tekur við að maður fari bara að skrifa á fullu, framleiða og svo vonandi að leikstýra einhverjum bíómyndum. Mér finnst gaman að vera partur af öllum ferlunum. Skrifa myndina, framleiða, leikstýra og klippa og ég stefni bara á að halda því bara áfram.