Útskrift vetur 2021 - Erna Soffía Einarsdóttir, Leikstjórn og Framleiðsla

Erna Soffía Einarsdóttir mun útskrifast frá Leikstjórn og Framleiðslu þann 18.desember næstkomandi með mynd sína “Kaflaskipti” sem hún gerði ásamt Hannesi Einari Einarssyni frá Skapandi Tækni. 

“Kaflaskipti” er um unga konu sem lifir frekar viðburðalitlu lífi en lætur til leiðast að fara á djammið til að hitta bestu vinkonu sína og kunningja hennar. Þar kynnist hún manni sem virðist vera allur pakkinn. Hann er kurteis, fyndinn og myndarlegur — gæti hann verið “the one”?

Við þetta tilefni fengum við að spyrja Ernu Soffíu nokkurra spurninga

Hver er fyrsta kvikmynda upplifunin sem þú mannst eftir?

Fyrsta upplifun er pottþétt myndin “Annie” (1982). Ég horfði á hana líklega 100 sinnum þegar ég var 5 ára, 1985. Mig minnir að afi hafi keypt VHS spóluna af videoleigunni á endanum því ég vildi ekki sleppa henni, hún heillaði mig svo mikið. Litirnir, leikurinn, lögin og búningarnir voru í miklu uppáhaldi. Annie hreyfði við mér án þess að ég skildi orð. Svo þegar ég er 6 ára fluttum við til New York og ég lærði ensku í grunnskólanum mínum á Long Island. Pabbi sá að Annie yrði sýnd í sjónvarpinu og spurði hvort ég vildi sjá hana aftur, auðvitað sagði ég já. Þetta var í fyrsta sinn sem ég grét yfir bíómynd, því loksins skildi ég söguna. Þetta voru góðir tímar og ég horfi ennþá á Annie á nokkurra ára fresti.

Hvað heillar þig við kvikmyndagerð?

Það sem heillar mig mest við kvikmyndagerð er hvernig maður getur sagt sögu sem vekur tilfinningar hjá öðrum og fær fólk til að sjá t.d. aðrar hliðar á hörmungum, ævintýrum eða óhöppum annara. Sumar kvikmyndir hreyfa það mikið við manni að maður breytir um hugsunarhátt, og það finnst mér magnað. 

Hvers vegna varð þín deild fyrir valinu?

Ég valdi Leikstjórn og Framleiðslu af ýmsum ástæðum. Leikstjórn er eitthvað sem ég hef alltaf haft áhuga á. Mannlegt eðli, einstaklings munurinn er eitthvað sem ég spái mikið í og hef lesið mikið um. Ég fór úr tölvunarfræði yfir í sálfræði í HR áður en ég kom í Kvikmyndaskólann. Sálfræðin finnst mér svo áhugaverð og kemur sér vel fyrir í leikstjórn. Svo valdi ég framleiðslu vegna fyrri starfa þar sem ég var stjórnandi með skipulagshæfileika og Excel kunnátta nú þegar sem koma sér vel fyrir í framleiðslu kvikmynda. Satt að segja, eftir þessi 2 ár þá hefði ég geta hugsað mér að læra allt sem skólinn býður upp á en deildin mín hentaði alltaf best.

Kom þér eitthvað sérstaklega á óvart í náminu?

Já, það kom á óvart hvernig kvikmyndagerð „meikar bara sens” fyrir mér. Ég lærði helling í tímum en mest lærði ég á settum með nemendum á 4. önn. Ég datt í lukkupottinn alveg frá fyrstu önn þar sem ég fékk bæði að framleiða útskriftarmynd og vera 1. og 2. AD í tveimur öðrum. Ég græddi helling á þekkingu þeirra sem voru að útskrifast og það kom sér vel fyrir þegar ég gerði svo mín eigin verkefni. Talandi ekki um að hafa kynnst framtíðar samstarfsaðilum, sem er í raun það dýrmætasta sem ég tek með mér.

Hvernig lítur svo framtíðin út?

Framtíðin er björt. Æðsti draumurinn er og verður alltaf að leikstýra. Ég er að sækja um styrk hjá KMÍ nú þegar fyrir næstu stuttmynd sem ég vil gera. En þar til draumurinn verður að raunveruleika þá er ég komin með nokkur boð í vinnu hjá framleiðslum við bæði íslensk og erlend verkefni, og það er bara spennandi.