Útskrift vetur 2021 - Birta Nótt Sara Salvamoser, Leiklist

Birta Nótt Sara Salvamoser mun útskrifast frá Leiklist þann 18.desember næstkomandi með mynd sína “Fljúgandi fær”.

“Fljúgandi fær” fjallar um unga konu sem þarf að takast á við hindranir þess að fullorðnast og standa á eigin fótum. Hún leitar til móður sinnar í von um að hún geti komið með lausnir og tekið ábyrgðina en það reynist þeim báðum erfitt.

Við þetta tilefni fengum við að spyrja Birtu Nótt nokkurra spurninga

Hver er fyrsta kvikmynda upplifunin sem þú mannst eftir?

Fyrsta almennilega kvikmynda upplifun mín, á eftir teiknimyndum auðvitað, er “The Truman show”. Ég var alveg heltekin af þeirri mynd og fannst svo magnað að hægt væri að búa til nýjan heim í gegnum þetta form. Ég heillaðist af þeim tilfinningum sem ég upplifði; samkennd, gleði og allskonar pælingum.

Hvað heillar þig við kvikmyndagerð?

Það sem heillar mig við kvikmyndagerð er að í gegnum þetta form getum við sagt ótal sögur, leyft fólki að sjá lífið og aðstæður með öðrum augum, fundið fyrir gleði og samkennd og skilið hvort annað betur. 

Hvers vegna varð þín deild fyrir valinu?

Frá því að ég var lítil hefur mér alltaf fundist gaman að segja sögur, setja mig í spor annara, dansa, syngja og vera með fíflalæti. Það hefur fylgt mér í gegnum árin og hefur leiklistin alltaf verið stór partur af hver ég er. Það er bara eitthvað svo frábært við að stíga inn í aðra persónu og veröld hennar og fá tækifæri til að segja fólki söguna út frá henni. Ég hef öðlast mun meiri skilning gegn öðru fólki. Og þetta er eitt það skemmtilegasta sem ég geri!

Kom þér eitthvað sérstaklega á óvart í náminu?

Hvað það er mikil andleg vinna á bak við góðan leik og hvað það er slæmt að taka sig of alvarlega. 

Hvernig lítur svo framtíðin út?

Framtíðin er virkilega spennandi, nú er það bara að safna pening fyrir áframhaldandi námi erlendis og vera opin fyrir nýjum og spennandi tækifærum!