Stuttmynd Elsu G. Björnsdóttur vinnur aðalverðlaun í Reims

Stuttmynd  Elsu G. Björnsdóttir, „Sagan endalausa“ vann til verðlauna á  listhátíðinni Clin d´Oeil  í Reims í Frakklandi um síðustu helgi.

Hátíðin er haldið á tveggja  ára fresti  og hittist þar heyrnarskert listafólk úr öllum greinum til að kynna verk sín.

„Döff listamenn um allan heim sækja um að komast á þessa sýningu með sín verk því þarna er hægt að búa til ótrúlega gott tengslanet, kynnast og sjá aðra performera.“ Segir Elsa.

„Ég sendi mína stuttmynd auðvitað út enda er það mikið tækifæri að komast út á hátíð af þessu tagi.“

Í  ár voru 5000 manns samankomnir í borginni í tengslum við hátíðina. Þátttakendur sjálfir  fá allan kostnað greiddan  en Elsa er himinlifandi að auk þess að  vera boðið á hátíðina hafi hún unnið til veglegra verðlauna.

Elsa  útskrifaðist úr leiklistardeild Kvikmyndaskóla Íslands  árið 2010 og hefur síðan fengist við gerð eigin mynda. Hún segir að stuttmynd  sín fjalli um upplífun „döff“  barna sem voru uppi á þeim tíma sem táknmál var bannað um allan heim, 1880 til 1980, eða  í 100 ár.

„Ætlast var til að heyrnarskertir skildu allt með því að lesa af vörum og var þeim bannað að tjá sig á táknmáli. Þau ættu einnig að sýna nú fólki sem heyrir hvað þau  er nú dugleg að tala. Myndin er köld upprifjun frá þessu timabili. “

Mynd Elsu  er hljóðlaus en þá leið valdi hún i þeim tilgangi  upplifun áhorfandans yrði sem líkust upplífun barnanna sem fjallað er um.  Þannig er áhorfandanum ekki gert auðvelt að skilja það sem fram fer.   Stuttmyndina kallar Elsa “Söguna endalausu” (The Endless Story) af þeirri einföldu ástæðu að enn glíma heyrnarskertir við að svipuðum aðferðum sé beitt  og þekktust á þessum árum.

„Ég er auðvitað upp með mér, algerlega sveif upp á bleikt ský við að vinna bestu myndina. Aðeins sex verðlaun eru veitt þarna og þau eru fyrir bestu  “youth2 myndina, bestu “animation” myndina, bestu leikkonuna, leikarann og  leiksstjórann og svo besta myndin overall… og já í þetta sinn ákvað frönsk sjónvarpsstöð að styrkja vinningshafann fyrir bestu myndina um 1000 evrur!“

Hún bætir við að hún hafi því  fengið fyrstu fjármunina  til að framkvæma næsta verkefni  enda skorti sig ekki hugmyndirnar, miklu frekar fjármunina í þessari dýru grein.

„Þetta kemst næst því að vinna óskarinn fyrir mig. Verðlaununum  fylgir að fólk tekur eftir verkefnunum mínum, sækist eftir að sjá verkið og auðveldara verður að koma myndinni á fleirri hátíðir. Að sjálfsögðu vita núna allir í döffheimnum um allan heim hver ég er og ég get ekki sagt annað en að þetta var það besta sem hægt er að koma fyrir döff listamann eins og mig á eyju lengst út í  Atlantshafi. Hverjar eru eiginlega líkurnar á að svona gerist?“