Snævar Sölvason, handritshöfundur, leikstjóri og svo margt fleira

Snævar Sölvason útskrifaðist frá Handritum og Leikstjórn hjá Kvikmyndaskólanum árið 2014, eftir að hafa kvatt fjármála heiminn, og hefur verið farsæll í kvikmyndagerð síðan. Meðal verkefna sem hann hefur unnið eru Albatross og Eden, ásamt heimildarþættina Skaginn sem sýndir hafa verið á RÚV. Um þessar mundir er hann að vinna í nýrri mynd, “Ljósvíkingar”, sem segir frá tveimur félögum sem opna veitingastað, en þegar annar kemur út sem transkona reynir á sambandið.

Hver var fyrsta kvikmynda upplifunin sem þú manst eftir að hafa haft áhrif á þig?

Fyrsta minningin tengd kvikmyndum er sorgmæddur gulur kettlingur í pappakassa, einn og yfirgefinn í grenjandi rigningu á strætum stórborgar. Þetta er sena úr teiknimyndinni Oliver and company sem sýnd var í Ísafjarðarbíó árið 1988. Þá var ég 3 ára og ku þetta hafa verið fyrsta bíóferðin mín.

Þú tókst stóra ákvörðun um breytingar á lífi þínu þegar þú fórst í kvikmyndanám, hvað gerði það að verkum?

Ég hafði gutlað við handritaskrif í nokkur ár samhliða vinnu og var einnig að skjóta sjálfstætt efni þegar ég mat stöðuna sem svo að ég ætti meiri möguleika á að koma mér áfram í kvikmyndageiranum ef ég væri staddur í viðeigandi umhverfi. Ég skoðaði skóla erlendis en kostnaðurinn var of hár fyrir mig svo ég taldi heppilegast að fara í Kvikmyndaskóla Íslands.

Hvernig upplifðir þú námið þitt í Kvikmyndaskólanum?

Mér fannst það frábært. Persónulega hagnaðist ég mest á samskiptum við þá kennara sem störfuðu sem leikstjórar og handritshöfundar í bransanum. Þeir gátu sagt manni og kennt ýmislegt sem ég nýti mér enn í dag. Árgangurinn minn var líka sterkur - virkilega skemmtilegt fólk sem ég held sambandi við í dag.

Hvers vegna valdir þú deild Handrita og Leikstjórnar?

Að skrifa og leikstýra er það eina sem ég ætlaði mér svo sú námsbraut lá beinast við.

Sem handritshöfundur, hvaðan færð þú helst þínar hugmyndir?

Eftir að ég tók ákvörðun um að feta þessa braut í lífinu hefur verið kveikt á hugmyndaloftnetinu æ síðan og koma hugmyndirnar úr öllum áttum. Nokkrar hugmyndir hafa fæðst út frá hinum ýmsum störfum sem maður hefur álpast í og er þá vinnustaðurinn og iðjan mikilvægur partur af efniviðnum. Stundum er ég að horfa á gamla bíómynd og hugsa hvað það væri gaman að sjá svipaða mynd í dag. Ég les einnig talsvert og er slatti af bókum sem ég gæti hent mér í að aðlaga ef tækifæri gefst. Þannig að brunnurinn er ekkert að tæmast sýnist mér og ætli mér endist nokkuð ævin til þess að skjóta þær allar.

Hvað er þér mikilvægast sem leikstjóri?

Gott crew kemur fyrst upp í hugann. Svo réttir leikarar í hlutverkin. Það er alveg sama hversu gott handritið er, ef leikarinn er ekki réttur að þá glatar myndin tengingu við áhorfendur.

Hvernig tæklar þú hlutverk bæði handritshöfundar og leikstjóra?

Ég lít á þessi hlutverk sem ólíka kafla í sama starfinu. Það er einhver heimur sem mig langar til þess að sjá á skjánum og til þess að koma honum áleiðis þarf ég fyrst að skrifa hugmyndina niður á blað og svo leiða lestina áfram sem leikstjóri í gegnum fjármögnun, undirbúning, tökur og eftirvinnslu. Hvort ég sé betri í einu frekar en öðru skal ósagt látið, en ég verð að játa að ritstörfin eru í uppáhaldi.

Það getur reynst flókið að taka upp á Íslandi, með fjölbreytilegt veður og aðstæður, hvernig er best að takast á við það?

Eins og með allt; “Surrender to God and all your problems will be solved”. Ef ég kúpla mig niður á lágstemmdara plan að þá hefur reynst mér best að líta á skyndilegar breytingar sem tækifæri til umbóta. Í síðasta verkefni sem ég leikstýrði var veðráttan stöðugt að andskotast í okkur og í stað þess að hætta við senuna eða hrófla við dagskránni spurði ég mig hvort senan gæti verið áhugaverðari ef ég nýti mér breyttar aðstæður. Oftast nær var svarið jákvætt og var þá sett fullt stím áfram.

Lítur þú á mikla framför í tækni sem hindrun eða tækifæri í kvikmyndagerð?

Tækniframfarir eru klárlega tækifæri. Nú geta allir skotið og klippt sem ekki var hlaupið að áður, sérstaklega fyrir krakka í einangruðum þorpum eins og í mínu tilfelli. Ég hugsa að ég hefði neyðst til að fást við eitthvað allt annað en kvikmyndagerð hefði ég fæðst áratug fyrr.

Ert þú með einhverja hugmynd um hvað myndi auðvelda kvikmyndagerðarfólki framtíðarinnar á Íslandi að skapa efni?

Lesa bækur. Þær geyma andleg verðmæti með auðveldu aðgengi.

Hvaða verkefni ert þú að fást við um þessar mundir?

Ég er að klippa kvikmynd í fullri lengd sem ég skrifa og leikstýri og heitir Ljósvíkingar. Hún verður vonandi tilbúin um mitt árið. Samhliða því er ég að skrifa handrit, grúska í gömlum bókum og þróa sögur.

Átt þú þér drauma verkefni?

Þau eru nokkur sem ekki er tímabært að gaspra um.

Að lokum, hvaða ráð hefur þú til fólks sem er að íhuga kvikmyndanám?

Kýldu á það. Þú sérð meira eftir því að gera það ekki en að gera það.