Skipulögð verkferli í átt að háskóla yfirfærslu

Það er unnið eftir stífri áætlun í Kvikmyndaskóla Íslands í ferlinu að færa starfsemi skólans yfir á háskólastig. Í gær var haldinn svokallaður nafnbótafundur, en á hann mættu þeir starfsmenn skólans sem sótt hafa um fyrstu fjórar nafnbótastöðurnar, þ.e. um stöður lektors, dósents eða prófessors við skólann.

Þau eru Hilmar Oddsson sem sækist eftir nafnbót í leikstjórn, Rúnar Guðbrandsson nafnbót í leiklist, Þórey Sigþórsdóttir nafnbót í rödd og Kjartan Kjartansson nafnbót í hljóði. Fundinn sátu einnig Dr. Sigurjón Baldur Hafstein skipaður formaður rannsóknarráðs skólans, Anna Þórhallsdóttir formaður gæðráðs skólans, og Hlín Jóhannesdóttir framkvæmdastjóri. Fundinum stýrði Böðvar Bjarki Pétursson formaður verkefnisstjórnar háskólayfirfærslu.

Alls eru áætlað að starfsmenn með nafnbætur við skólann verði sextán ; sex prófessorar, fimm dósentar og fimm lektorar, og á að vera fullskipað í þær stöður árið 2023. Skilyrði fyrir nafnbót er rannsóknarvinna. Mikill spenningur er í hópnum en ráðið verður í þessar stöður formlega frá 1. ágúst næstkomandi og næstu ráðningar verða 2022.

Dr. Sigurjón Baldur kynnti sjálfan sig fyrir hópnum og gaf fulltrúum bókina "Saga listasafna á Íslandi", sem hann ritstýrði. Hlutverk rannsóknarráðs er skipulag, ráðgjöf, tillögugerð og mat vegna akademískra rannsókna við Kvikmyndaskóla Íslands. Þess vegna er mikilvægt að gott samband myndist milli ráðsins og nafnbótarþega.

Kynnt var að 7% af innkomnum tekjum skólans KVÍ/IFS rynni til rannsóknarstarfs og skiptist það milli launagjalda, húsnæðis rannsóknarstofu og rannsóknarsjóðs. Þess má geta að vísindamönnum skólans verður úthlutuð 3. hæðin í bakhúsinu, sem er 300 fm og verður tekin í notkun haustið 2022. 

Þeir sem hafa áhuga á að fylgjast með þessu ferli geta lesið meðfylgjandi fylgigögn um væntanlegt rannsóknarstarf. Þar má meðal finna tillögur að rannsóknum frá öllum umsækjendum. Meðfylgjandi er einnig nýjasta dómnefndarstigatafla skólans, en eftir henni er hæfi umsækjenda metið.

Töluverð umræða varð á fundinum um væntanlega úttekt skólans af sérfræðingahópi sem boðuð hefur verið í júní. Bæði Kjartan Kjartansson og Rúnar Guðbrandsson bentu á að erfitt væri að gera úttekt þegar ekkert skólahald er en útskrift er þann 7. júní.  Þetta er réttmæt ábending og því hefur Kvikmyndskólinn lagt inn þá beiðni að úttekt verði fyrr og hefjist 15. maí og mikilvægt að henni verði lokið fyrir 1. ágúst.

Það sem framundan er í ferlinu er að fundur rannsóknarráðs verður haldinn 20. apríl og fundur í gæðaráði 21. apríl.  Þann 29. apríl verður svokallaður akedemíufundur, en þar mæta allir fagstjórar og lykilkennarar, um 20 manns. Þar á aðallega að fara yfir ráðningakerfi og framgang við skólann í nýju kerfi. Þann 29. apríl er áætlað að halda kynningarfund fyrir fagfélögin. Þann 5. maí er stefnt að því að halda opinn (há)skólafund, samkvæmt reglum skólans með aðkomu nemenda og starfsfólks. Þann 10. maí er svo stefnt að því að halda fund í fagráði, sem er undanfari háskólaráðs. Þann 13. maí er verður ný gæðahandbók skólans gerð opinber.  Frá 15. maí er skólinn tilbúinn í að taka á móti sérfræðingum til að skoða skólann.

Samhliða þessu á sér stað kraftmikil listsköpun í skólanum og mikill metnaður er í væntanlegum útskriftarmyndum.

Það má segja að það ríki mikil stemmning í Kvikmyndaskóla Íslands um þessar mundir.