NÍNA OG VIVIAN FULLTRÚAR KVIKMYNDASKÓLANS Í LEYNILÖGGUNNI

Kvikmyndin Leynilöggan var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Lucarno fyrir skömmu og hlaut þar lof gagnrýnenda. Kvikmyndaskólinn á tvo fyrrverandi nemendur sem komu að gerð myndarinnar og er stoltur af þeim.

Vivian Ólafsdóttir fór með stórt hlutverk í myndinni en hún útskrifaðist úr Leiklist veturinn 2012 og Nína Petersen sem lauk námi við Handrit og Leikstjórn 2017 er einn þriggja handritshöfunda myndarinnar. Myndin verður frumsýnd á Íslandi nú í haust, en Leynilöggan er hasarmynd með gamansömu ívafi með íslenskan bakgrunn. Leikstjóri myndarinnar er Hannes Þór Halldórsson sem, auk þess að sinna kvikmyndagerð, er landsliðsmarkvörður Íslands í knattspyrnu og meðal þjóðkunnra leikara sem sjá má í myndinni má nefna Auðun Blöndal betur þekktan undir nafninu Auddi, Steinunni Ólínu Þorsteinsdóttur, Ingvar E. Sigurðsson, Egil Einarsson, Sveppa; Sverri Þór Sverrisson og Björn Hlyn Haraldsson auk Vivian okkar Ólafsdóttur.

Leynilöggan var einnig sýnd á Gautaborgar kvikmyndahátíðinni og fékk þar góða dóma sem og í Variety. Hróður myndarinnar er síðan að berast út um kvikmyndaheiminn og streyma nú að tilboðin um þátttöku í kvikmyndahátíðum víðsvegar um heiminn og virðist áhugi á myndinni vera mikill sem kemur aðstandendum hennar skemmtilega á óvart.

Fyrsta stóra kvikmyndahlutverkið með þekktum leikurum

„Ég fer með næst stærsta kvenhlutverkið í myndinni, en Steinunn Ólína leikur aðal kvenhlutverkið. Ég hef unnið með Hannesi áður og þetta var ógeðslega gaman. Það er geggjað að vinna með fólki sem hefur verið lengi í bransanum, eins og Steinunni Ólínu og einnig lærdómsríkt. Í myndinni leik ég hægri hönd vonda karlsins sem Björn Hlynur leikur, en hann er svakalega flottur leikari. Þótt við leikararnir í myndinni séum öll ólík, höfðum við leyfi til að setja okkar blæ á karakterana,“ sagði Vivian.

„Þetta er fyrsta stóra kvikmyndahlutverkið mitt með þekktum leikurum. Ég er búin að vera að leika allskonar hlutverk undanfarið og er nú að vinna með minna þekktum leikstjórum sem eru að reyna að koma sér á framfæri,“ sagði hún.

Vivian sagði að ekki hefði komið annað til greina en að fara í Leiklist í Kvikmyndaskólanum, enda hafi hún mestan áhuga á kvikmyndaleik. „Ég er sjálf að mennta mig meira í kvikmyndaleik og bæta við reynslu mína og þekkingu og er á góðu róli með það sem ég er að gera,“ sagði Vivian.

Skemmtilegt og lærdómsríkt að vinna með Hannesi og Sveppa

Nína Petersen er einn af handritshöfundunum Leynilöggunnar ásamt þeim Hannesi og Sveppa, en handrit myndarinnar er byggt á eldra handriti, en Nína vann að því með þeim að útfæra handritið yfir á endanlegt form.

„Það var mjög skemmtilegt og lærdómsríkt að vinna með þeim báðum, þeir eru báðir mjög skemmtilegir karakterar en ólíkir samt,“ sagði Nína. „Sveppi er dálítið flippaðri, en Hannes er mjög agaður. Það komu fullt af flottum hugmyndum út úr þessu samstarfi og samskipti okkar voru bæði auðveld og skemmtileg,“ sagði Nína.

Nína segir að það hafi tekið um 3 mánuði að skrifa handritið og síðan voru gerðar lagfæringar eftir því sem á leið.

„Þetta er fyrsta kvikmyndin sem ég vinn við sem hefur komist eitthvað áleiðis og ég er mjög stolt af myndinni,“ sagði hún.

Nína útskrifaðist úr Kvikmyndaskólanum vorið 2017 og fór strax að vinna hjá Pegasus í starfsnámi, en eftir að því lauk hefur hún unnið að nokkrum verkefnum með þeim.

„Ég sé ekki eftir því að hafa farið í nám við Kvikmyndaskólann og er mjög ánægð með að hafa tekið það skref. Námið hefur komið mér að góðu gagni,“ sagði Nína.

Hér má sjá umfjöllum RÚV um myndina