Leynilöggan slær met og halar inn stórfé

Er frumsýningarmyndin á Norrænum dögum á Kvikmyndahátíðinni í Lübeck

Íslenska kvikmyndin Leynilögga hefur heldur betur slegið í gegn og þegar síðustu tölur um tekjur myndarinnar voru birtar, kom fram að frá frumsýningu myndarinnar í Sambíóunum og til miðvikudagsins 24. október sl. námu tekjur myndarinnar tæpum 24 milljónum króna. Þetta er Íslandsmet, en með þessum árangri sló Leynilögga út fimmtán ára gamalt met Mýrarinnar. Og enn er aðsókn að myndinni góð og tekjurnar halda áfram að tikka í kassann.

Svo sem kunnugt er og fram hefur komið hér á síðunni komu tveir útskrifaðir nemendur Kvikmyndaskólans að gerð myndarinnar, þær Vivian Ólafsdóttur sem fer með stórt hlutverk í myndinni og Nína Petersen sem er einn þriggja handritshöfunda, en auk hennar skrifuðu handritið þeir Hannes Þór Halldórsson leikstjóri, knattspyrnukappi og fyrrum landsliðsmarkvörður og Sverrir Þór Sverrisson, betur þekktur sem Sveppi. Leynilöggan fjallar um leynilögguna Bússa sem leikinn er af Auðunni Blöndal og þau ævintýri sem hann ratar í í störfum sínum.

Leynilögga

Margir frá Kvikmyndaskólanum

En það voru fleiri útskrifaðir nemendur Kvikmyndaskólans sem komu að gerð Leynilöggu og lögðu hönd á plóg í framleiðslu þessarar stórskemmtilegu kvikmyndar. Þetta voru þeir Jón Már Gunnarsson sem sá um tæknibrellur, Gunnar Gunnarsson aðstoðar framleiðslustjóri, Haraldur Ari Karlsson og Ottó Gunnarssson aðstoðarleikstjórar, Hafþór Ingi Garðarsson gaffer og Emil Morávek tökustaðastjóri.

Með glæsilegri byrjun á hvíta tjaldinu og góðum viðbrögðum áhorfenda tókst Leynilöggu ekki bara að slá met Mýrarinnar frá 2006, því hún gerði einnig betur en myndirnar Algjör Sveppi, Gói, Bjarnfreðarson og Eiðurinn sem allar eru mjög vinsælar kvikmyndir. Enda eru forsvarsmenn myndarinnar bjartsýnir og segja að Leynilögga muni gera atlögu að fleiri metum á næstunni.

Eins og áður hefur komið fram á þessum vettvangi var Leynilögga frumsýnd síðsumars á kvikmyndahátíðinni í Lucarno og kom það höfundum á óvart að myndin skyldi komast að á svo virtri kvikmyndahátíð, hvað þá að hún fengi jafn góða dóma og raun ber vitni. Menn áttu ekki beinlínis von á því að séríslenskur húmor sem aðeins Íslendingar ættu að fatta myndi hitta í mark erlendis, en greinilegt að svo er, enda hefur myndin fengið góðar viðtökur og mikinn áhuga hjá söluaðilum. 

En Leynilögga er ekki aðeins vinsæl og fjölsótt kvikmynd, hún er einnig sýnd í tveimur útgáfum í Sambíóunum sem er óvenjulegt og reyndar einstakt hér á landi. Það er þannig að önnur útgáfa myndarinnar er bönnuð innan 16 ára og hin bönnuð undir 12 ára. Leynilögga er fyrsta íslenska kvikmyndin sem kemur í tveimur útgáfum og var Hallgrímur Kristinsson sem er sérfróður á þessu sviði fenginn til leggja mat sitt á myndina og gefa sitt álit.

Hallgrímur, sem er formaður Félags rétthafa í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði, var fenginn til þess að ráðleggja hvernig milda mætti einstök atriði myndarinnar, svo að hún félli innan marka fyrir yngri áhorfendur. Fulltrúi Sambíóanna hafði áður kveðið upp að myndina þyrfti að óbreyttu að banna innan sextán ára. Haft er eftir Hallgrími að fáein atriði hefði þurft að lagfæra sem Hannesi Þór Halldórssyni leikstjóra var bent á og eftir nokkra klippivinnu varð niðurstaðan sú á endanum að myndin var gerð í tveimur útgáfum – bönnuð innan 12 ára og bönnið innan 16 ára – og og geta áhorfendur valið á milli þeirra í Sambíóunum.

Frumsýningarmyndin á Norrænum dögum á kvikmyndahátíðinni í Lübeck  

Þá hafa borist þau tíðindi að framleiðslu- og dreifingarfyrirtækið Alief hefur selt sýningarrétt að Leynilöggunni í fjölmörgum löndum í Evrópu og Asíu. 

Í fréttatilkynningu segir að forstjóri Alief sé spenntur fyrir myndinni sem segir hana drepfyndna og mynd fyrir alla þá sem elska ´90s og sígildar spennumyndir í Die Hard anda. 

Leynilöggan verður frumsýningarmyndin á Norrænum dögum á kvikmyndahátíðinni í Lübeck í Þýskalandi þann 3. nóvember 2021, en MFA Plus Film dreifingarfyrirtækið hefur tryggt sér réttinn á myndinni á þýskumælandi svæðum og stefnir að frumsýningu á næsta ári.