Leikstjóri í leit að listrænum sannleika

Arnfinnur Daníelsson sem leggur nú lokahönd á útskriftarmynd sína frá Kvikmyndaskólanum segir að verkið fjalli um leikstjóra sem er í leit að listrænum sannleika, eins og hann orðar það.

Hann segir að verkið hafi gengið merkilega vel, miðað við að það sé unnið á tímum heimsfaraldurs. Hann hafi reyndar orðið að hætta við upprunalegu hugmynd sína að lokaverkefni vegna COVID-19, en svo hafi hann fengið kringum sig „kraftaverkateymi“ sem hafi af ósérhlífni gert þessa mynd að veruleika.

Að lokinni útskrift hyggst Arnfinnur koma undir sig fótunum sem leikari. Hann er einnig með nokkrar hugmyndir að handriti í smíðum og ætlar auk þess að vera duglegur að svara í símann!

Hann segir að námið hafi gengið frábærlega og skilur sáttur. „Þetta er sköpunarhús sem veitir þér stuðning og hvetur til að rækta listina með öðru flottu fólki,“ segir hann glaðbeittur og er þar með rokinn á vit listarinnar.

Arnfinnur útskrifast frá Leiklist með mynd sína "Oddur Örn, maðurinn sem sigraði hvalinn"