Kvikmyndin “Villibráð” verður frumsýnd á föstudaginn 6.janúar

Meðal framleiðanda er okkar eigin Arnar Benjamín Kristjánsson, sem ekki er bara útskrifaður frá skólanum, heldur hefur haldið áfram hjá okkur sem kennari og fengum við hann til að spjalla við okkur

Hver var fyrsta kvikmynda upplifunin sem þú mannst eftir?

Fyrsta upplifunin sem ég man mjög skýrt eftir var þegar ég fôr að sjá upprunalegu “Star Wars” með pabba í Háskólabíô þegar þær væru endurútgefnar 1997, en fyrsta sem ég hef minningar um var að sjá Tomma og Jenna myndina í Stjörnubíó 1992 með mömmu. Man reyndar bara eftir að labba inn í bíóið og fátt meira. 

 

Hvað heillar þig við kvikmyndagerð?

Að geta sagt allskonar sögur sem gerast á allskonar stöðum og skemmta fólki. Það er hægt að gera sci-fi mynd sem gerist á fjarlægri plánetu eða glæpamynd sem gerist í Hong Kong og allt þar á milli. En fyrst og fremst á að vera gaman að fara í bíó. 

 

Hvers vegna ákvaðst þú að fara í nám í Kvikmyndaskólann og hvers vegna valdir þú Leikstjórn og Framleiðslu?

Ég ákvað að verða leikstjóri þegar ég var 12 ára og stefndi að því leynt og ljóst síðan þá. Fór á margmiðlunarbraut í Borgarholtsskóla og útskrifaðist þaðan og àkvað að prófa HÍ meðan èg safnaði mér fyrir námi erlendis, en þoldi illa við þar. Svo kom blessað hrunið og ekki var auðvelt að fara erlendis þannig èg ákvað að fara î Kvikmyndaskólann og sé ekki eftir því. 

Ég fór á framleiðslu brautina því ég er arfaslakur handritshöfundur. 

 

Einhverjar skemmtilegar minningar frá náminu?

Skemmtilegustu minningarnar mínar er þegar við skutum lokamyndina mína á þriðju önn, ofurhetju epíkina “Svarta Skafrenninginn”. 13 tökudagar, 305 slate, sérsaumaðir búningar, sérsamin tónlist, áhættuatriði og slagsmál. Mikið var það gaman. 

 

Hvert lá svo leiðin eftir útskrift?

Ég fór að vinna sem tökustaðastjóri og aðstoð við framleiðslu fyrir Zik Zak og Vintage Pictures. Ákvað svo eftir 4 ár af því að fara í MA nám til London og var svo boðin vinna sem framleiðandi hjá Zik Zak þegar ég kom til baka og hef verið þar síðan. 

 

Einhver sérstaklega áhugaverð verkefni sem þú hefur tekist á við?

Þetta hefur allt haft sîna kosti og galla. Engir tveir dagar eins í þessum bransa. 

 

Hvað heillar við að kenna fagið og hvað fékk þig til að koma tilbaka í skólann?

Mér finnst gaman að kenna, nemendurnir eru spenntir fyrir að kynnast framleiðslu (margir, ekki allir) en þetta er nauðsynlegt að kunna. 

Kvikmyndin "Villibráð", þar sem þú ert einn framleiðandana, mun verða frumsýnd föstudaginn 6.janúar, um hvað fjallar hún? 

Myndin fjallar um vinahôp í Vesturbænum sem hittist og ákveður að spila leik þar sem allir setja símana sína á borðið og verða að lesa öll skilaboð upphátt og hafa öll símtöl á hátalara. 

Tyrfingur Tyrfingsson og Elsa María Jakobsdóttir skrifa og Elsa leikstýrir. Allt stórskotalið leikara og tökuliðs á Íslandi tóku þátt og útkoman er þetta meistarastykki. 

Ferlið gekk hraðar fyrir sig en oft áður. Myndin fèkk styrk frá Kvikmyndamiðstöð og samstarfsaðilar voru RÚV og Sena, og svo var bara farið af stað. 

Myndin var tekin upp í myndveri í desember 2021 og var svo í eftirvinnslu 2022. 

 

Hér má sjá sýnishorn úr myndinni 

 

Einhver skemmtileg verkefni sem taka við? 

Það er fullt af verkefnum framundan, er að klára eftirvinnslu á kvikmynd eftir Mikael Torfason, “Dimmalimm”, og eftirvinnslu á kvikmyndinni “Óráð” eftir Arró Stefànsson, svo er ég meðframleiðandi á sjónvarpsþáttunum “Afturelding” og svo erum við að vinna í undirbúningi og fjármögnun á kvikmyndinni “Þjóðsaga” sem er byggð á bókinni “Þín eigin Þjóðsaga” eftir Ævar Þór Benediktsson og leikstýrt af góðvini mínum úr skólanum, Guðna Líndal. 

Nôg að gera.

 

Hvað telur þú að myndi bæta aðstöðu íslensks kvikmyndafólks?

Það sem myndi bæta okkar stöðu væri ef hægt væri að sækja um styrki fyrir “low budget” og fyrstu leikstjórnar myndum hjá Kvikmyndamiðstöð til að þjálfa upp ungt kvikmyndagerðarfólk svo það sé ekki að steypa sér í skuldir til að gera fyrstu mynd. Sá tími á að vera búinn. 

 

Og svo að lokum, hvernig lítur framtíðin út?

Vonandi björt bara, stjörnuspáin mín segir það allavega haha