Kvikmyndaskóli Íslands hefur samstarf við Julliard

Julliard hafði samband við Kvikmyndaskólann í leit að samstarfi milli nemenda um kvikmyndatónlist

Kvikmyndaskóli Íslands hóf nú á dögunum samstarf við hinn virta bandaríska listaháskóla Julliard í New York. Skólinn er almennt talinn einn sá besti í heimi á sviði leiklistar- og tónlistarkennslu en úr skólanum hafa útskrifast leikarar eins og Robin Williams, Jessica Chastain, Adam Driver, Laura Linney og goðsagnir í tónlistinni eins og Miles Davis, Nina Simone, Chick Corea og fleiri. Á þeim tæplega 120 árum sem skólinn hefur starfað hefur hann fest sig í sessi sem einn sá mikilvægasti í heimi bandarískra kvikmynda, leikhúss og tónlistar.

Samstarfið fer þannig fram að Kvikmyndaskóli Íslands mun árlega bjóða útskriftarnemum að senda myndir til tónskáldadeildar Julliard sem mun tengja sína nemendur við leikstjóra frá Kvikmyndaskólanum. Á næstu árum munu útskriftarnemar Kvikmyndaskóla Íslands vera í samstarfi við efnilegustu tónskáld Julliard skólans í New York.

Friðrik Þór Friðriksson, rektor Kvikmyndaskóla Íslands, segir það einstaklega ánægjulegt að virtur skóli eins og Julliard hafi haft samband við Kvikmyndaskólann af fyrra bragði og sé það staðfesting á gæðum námsins í skólanum og hlakkar mikið til að sjá afrakstur samstarfsins.

Kvikmyndaskóli Íslands fagnar 30 ára afmæli sínu í ár. Við skólann hafa ýmist kennt eða numið flestir þekktustu kvikmyndagerðarmenn landsins. Árið 2012 var skólinn tekinn inn í Cilect sem eru alþjóðasamtök kvikmyndaskóla.