Útskriftar ræða Rektors, 17.desember, 2022

Í gær útskrifuðust 11 nemar frá Kvikmyndaskólanum og við það tilefni hélt Rektor skólans, Börkur Gunnarsson ræðu

Kvikmyndaskóli Íslands hefur frá árinu 2004 útskrifað um 600 nemendur úr skólanum. Samkvæmt rannsóknum sem skólinn hefur látið gera hafa yfir 90% útskrifaðra nemenda unnið við kvikmyndagerð að námi loknu og um 40% þeirra hafa gert það allan tímann frá útskrift. Kvikmyndaskóli Íslands er, ásamt Kvikmyndamiðstöðinni, orðin ein af tveim mikilvægustu stoðum kvikmyndaiðnaðar á Íslandi.

 

Nánast öll þau sem lyfta glöð Edduverðlaununum á hverju ári hafa farið í gegnum þennan skóla, ýmist sem nemendur eða kennarar. Við erum stolt og þakklát yfir því að vera svona stór þátttakandi í íslenskum kvikmyndaiðnaði sem blómstrar sem aldrei fyrr. Alþjóðlegu verðlaunin hrúgast á okkar bestu kvikmyndaskáld og ekki má gleyma þeirri tilraunamennsku og sköpunargleði sem ekki er verðlaunuð en opnar nýjar víddir og fer með tjáninguna inná ónumin lönd í víðáttunni. Þá hrúgast peningarnir einnig í vasa þeirra sem kunna til verka, þáttaröðin True Detective ein og sér kemur með 9 milljarða inn í íslenskt hagkerfi.

 

Mér hefur þótt óskaplega gaman að vera með ykkur undanfarin ár, fyrst sem kennari, þá fagstjóri og loks rektor. Ég mun fylgjast með ykkur eftir útskrift, farið út úr þessum bíósal með kassann úti, stolt og látið fólk finna fyrir ykkur. Þið eruð með það sem til þess þarf.

Kick some ass!