Halldóra Harðardóttir

Halldóra Harðardóttir útskrifast frá Leiklist með mynd sína “Brestir”

“Lára er einstæð móðir. Hún hittir Guðjón og það er ást við fyrstu sýn. Fyrr en varir fer

að bera á ýmsum brestum í þeirra hjónabandi."

Meðvirkni og blind ást eru helstu viðfangsefni myndarinnar.

Við fengum að forvitnast eilítið um Halldóru og þá fyrst hvaðan áhuginn kemur

“Ég hef átt þann draum frá unga aldri að verða leikkona. Stundum er lífið allskonar og ég fór allskyns leiðir. Ég kláraði kennaraháskólann, kenndi hönnun og smíði. Vann í ferðabransanum og í bókhaldi og þá fyrst fór ég að hugsa „Í alvöru Halldóra, er þetta lífið sem þú vildir?“. Ég vil ekki enda á dánarbeðinu með hugsanirnar „ég hefði átt..“. Þess vegna elska ég áskoranir og að ögra sjálfri mér. Ég hafði verið í áhugaleikfélagi sem mér fannst alltaf geggjað en ég þurfti meira. Þá kom Kvikmyndaskólinn til sögunnar. Ef þú ert með brennandi ástríðu fyrir einhverju í lífinu eins og ég fyrir leiklistinni, þá brýst hún út á endanum og ég er bara “late bloomer” og nú er minn rétti tími.

Leiklistardeildin varð fyrir valinu því ég brenn fyrir leiklist. En eftir námið þá finnst mér handritaskrif mjög spennandi og einnig tækni.”

“Það sem kom mér mest á óvart við námið var hversu mikil vinna er í kringum eina mynd, s.s. hvað margir koma að gerð mynda. Einnig fannst mér frábært að sjá alla hæfileikaríku samnemendur mína og hvað kennararnir eru virkir í bransanum. Námið er svo lifandi og skemmtilegt. Námið er ein stór skemmtileg minning. Söngleikurinn sem við settum upp, og leikritið,”Nanna systir”, skemmtilegir tímar. Einnig verkefnin öll þvert á deildir. Mér fannst ég alltaf vera svo ótrúlega heppin með hópa. Svo þar sem meiri hluti námsins var á COVID tímum þá voru mjög oft fyndin atriði á zoom í tímum hjá Rúnari Guðbrands. Svo var vinnan í kringum útskriftarmyndina mína frábær.”

Og hver eru svo næstu skref?

“Framtíðin er svo ótrúlega spennandi. Næstu skref eru að útskrifast, koma útskriftarmyndinni á góða staði, láta vita af sér. Skapa, leika, lifa og njóta.”