Halldór Óli Gunnarsson

Halldór Óli Gunnarsson útskrifast frá Handrit og Leikstjórn með mynd sína “ÚFÓ”

"Sérkennileg atburðarás fer í gang þegar dularfull vera gengur inn á fáfarinn veitingastað rétt utan við höfuðborgina."

 Við notuðum þetta tækifæri til að forvitnast eilítið um Halldór Óla, sem útskrifast þann 12.júní næstkomandi

-Hvað heillar við kvikmyndagerð?

"Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á kvikmyndum. Svo, einhvern tímann á unglingsárum fékk ég brennandi áhuga fyrir kvikmyndagerð og listinni að búa til kvikmyndir. En fyrir utan nokkrar skólamyndir hér og þar,  gerði ég ekkert meira í því – kláraði bara mínar gráður í háskólanum og fór á vinnumarkaðinn. En að lokum lét ég hjartað ráða för og skráði mig í Kvikmyndaskólann."

-Af hverju varð Handrita og Leikstjórnar deildin fyrir valinu?

"Ég vildi læra að skrifa handrit. Mér finnst gaman að skrifa sögur og hef gert það í mörg ár – en mig vantaði réttu verkfærin og þekkinguna til að skrifa handrit. Leikstjórnin var svo bara bónus og skemmtileg áskorun."

-Kom eitthvað sérstaklega á óvart í náminu?

"Alveg fullt. Ég hef líklega komið sjálfum mér hvað mest á óvart, á góðan hátt. Annað sem kom mér á óvart er hversu margir kennarar í skólanum eru virkir innan bransans – þetta eru ekki bara einhverjir leikmenn sem þylja dæmi upp úr skólabókum; þetta eru fagaðilar sem tala af reynslu og búa yfir gífurlegri þekkingu."

-Einhverjar minningar sem standa upp úr?

"Ætli það séu ekki öll hópaverkefnin. Ég man sérstaklega eftir fyrsta verkefninu sem sett var fyrir okkur á 1. önn, þetta var fyrsta verklega æfingin okkar með öllum búnaði. Ég var í hóp með nokkrum öðrum strákum, og ég man bara hvað þetta var gaman. Við vissum svo lítið, en ég man ég hugsaði „vá maður, þetta er eitthvað sem mig langar að gera meira af“. Annað hópaverkefni sem ég gleymi seint var á 2. önn. Hún var tekin upp á gömlu herstöðinni rétt hjá Keflavík, örugglega 10-12 klst. útitökur og það var kaldara en í helvíti. Þá fann ég fyrst hvað það getur verið ótrúlega gaman á setti þrátt fyrir harðneskjulegar aðstæður, og hversu fljótt maður getur myndað góð tengsl á setti – sérstaklega í svona extreme aðstæðum. Það er gaman að búa til bíó!"

 

-Og að lokum, hver eru framtíðar plönin?

"Að vinna við og þróa handritin mín. Sækja um styrki frá KMÍ. Reyna að koma myndinni minni á hátíðir. Halda áfram að búa til bíó. Njóta lífsins. Ferðast. Elska. Sigra heiminn."