Guðríður Hanna Sigurðardóttir

Guðríður Hanna Sigurðardóttir er að útskrifast frá Handrit og Leikstjórn með mynd sína “Rose”

“Eftir að hafa bælt tilfinningar sínar og vandamál svo árum skiptir, er Rose orðin dofin glansmynd af því sem hún eitt sinn var og hefur misst eiginleikann til að upplifa tilfinningar og vinna úr þeim. En þennan dag finnur Rose lausn við öllum sínum vandamálum á óvæntan hátt og í fyrsta skiptið í langan tíma finnur hún fyrir sannri gleði.”

Guðríður Hanna sagði okkur aðeins frá ferlinu að útskrift

“Ég hef alltaf haft áhuga á að spinna sögur og þegar ég uppgötvaði að ég gæti mögulega komið sögunum á blað, og jafnvel gert úr þeim bíómynd, varð áhuginn enn meiri. Ég byrjaði að fikta við að klippa saman myndbönd og gera íslenska texta við erlend lög og nýja texta við íslensk lög og bjó til myndbönd við lögin. Og eftir að hafa gert það í nokkur ár þá langaði mig að prufa að komast á næsta stig og læra að koma heilsteyptri hugmynd yfir í handritsform. Fyrir sirka 3 árum sá ég auglýsingu frá Kvikmyndaskóla Íslands á Facebook og ákvað að prufa að sækja um bara til að sjá hvort ég yrðj kölluð í viðtal. Svo fór ég í viðtalið bara til að sjá hvort ég kæmist inn og allt í einu var ég byrjuð í skólanum 

Bestu minningarnar frá náminu tengjast því að kynnast nýju fólki. Fólki sem er sama þó þú sért öðruvísi og með félagskvíða, og tekur þig undir væng sinn og dregur þig með, og ég þakka öllum samnemendum mínum innilega fyrir að hjálpa mér að komast í gegnum þetta nám og á þennan stað í lífinu.

Næsta skref hjá mér er að halda áfram að vinna í handritinu mínu í fullri lengd og vonandi koma því alla leið í bíómynd.”