Gott að vera minntur á að maður sé að gera góða hluti – Knútur Haukstein vann til verðlauna í Miami

Knútur Haukstein Ólafsson vann vann nýlega verðlaunin Best Experimental Short á WideScreen Film & Music Video Festival í Miami í Bandaríkjunum fyrir útskriftarmynd sína úr Kvikmyndaskóla Íslands, Inferno.

Knútur  útksrifaðist úr skólanum árið 2015 úr leiklistardeild eins og leikstjóri myndar sinnar,  Kristín Ísabella Karlsdóttir.

Satt best að segja er ég ekki voða hrifinn af öllu þessu umstangi í kring um verðlaun. Þetta er í rauninni bara efnislegur hlutur sem er gerður til þess að mata egóið. Ég reyni eins og ég get að losa mig við þetta egó sem við höfum öll og einbeita mér að því að sýna æðruleysi en í þetta skiptið fékk egóið smá næringu og það verður bara að hafa það.

Segir Knútur þegar hann er spurður út í mikilvægi slíkra verðlauna.

Það sem þetta á virkilega að snúast um eru sögurnar sem við sem kvikmyndagerðarmenn og listamenn höfum að segja. Hverju við viljum koma á framfæri varðandi mannlega hegðun, lífið og tilveruna? Við viljum ná til fólks og fá það til þess að staldra við og hugsa. Fyrir mér er það sem þetta snýst allt saman um.

 

Knútur segir kvikmyndir geta breytt hugsunarhætti fólks til hins betra þó þær geti líka haft slæm áhrif.

 

En við krefjumst þess að fólk staldri aðeins við og fylgist með umhverfi sínu og pæli aðeins í því. Það er mikilvægt að við getum skoðað okkur sjálf og aðra með köldu og hlutlausu sjónarmiði og kvikmyndir geta falið í sér þann mátt. Kvikmyndin Moonlight (2016) er t.d. gott nýlegt dæmi um það. Áhorfendur sátu kjaftstopp í sætunum sínum eftir myndina vegna þess að þeir fengu eitthvað til að hugsa um. Það er rosalega mikið af kjaftæði þarna úti í kvikmyndabransanum. Myndir sem fjalla ekki um neitt raunverulegt eða koma ekkert inn á mannlega hegðun og hugsun. Svona myndir eins og Moonlight fá mann til að vilja halda áfram.En að sjálfsögðu er maður ánægður með árangurinn og þá sérstaklega fyrir hönd leikstjórans og tökuliðsins. Það er gott að vera minnt/ur á að maður sé að gera góða hluti.

En hvernig kom það til að myndin keppti á hátíðinni í Miami?

INFERNO er útskriftarmyndin mín úr Kvikmyndaskólanum frá haustinu 2015. Kristín Ísabella Karlsdóttir, sem er einnig útsrifaður nemandi úr KVÍ, tók að sér að leikstýra myndinni fyrir mig og stóð sig frábærlega að mínu mati. Ég sá auglýsingu á vefsíðunni FilmFreeway hjá hátíð að nafni WideScreen Film and Music Video Festival sem haldin var í Miami.Það sem dró athygli mína að þessari hátíð var þrennt: hversu góðar viðtökur hún fékk hjá öðrum kvikmyndargerðarmönnum, að hún var merkt IMDB og að hún bauð upp á flokk undir nafninu „Experimental“. Ég hafði verið að senda INFERNO á hátíðir undir hefðbundnum stuttmyndaflokki en ég áttaði mig síðar á að myndin tilheyrði þessum Experimental flokki þar sem skilgreiningin á Experimental myndum er að þær nota óhefðbundnar aðferðir til þess að segja sögur. 669 verk voru send á hátíðina en aðeins 130 verk voru valin. Þá var ég tilnefndur í flokknum „Best Experimental Short“ ásamt fjórum öðrum myndum. Síðan vildi svo skemmtilega til að við unnum í þeim flokki fyrir bestu mynd.

 

Áhuga sinn og rannsóknir á mannlegu eðli hefur Knútur nú tekið upp á næsta stig með því að setjast aftur á skólabekk.

Í augnablikinu er ég að læra sálfræði við Háskóla Íslands en á sama tíma er ég að undirbúa mögulegt tónlistarmyndband með félögum mínum í Flying Bus Films. Við erum að hittast og ræða saman mögulegar hugmyndir. Stundum deyja svona samræður út og stundum ekki. Samstarfið verður vonandi að veruleika í þetta skiptið. Þá er ég komin með ný tengsl við kvikmyndagerðarmenn víðsvegar um heiminn og markmiðið er að sjálfsögðu að reyna að nýta sér það. Það er aldrei að vita nema maður fari að vinna með einhverjum erlendis. Ef handritið er gott og leikstjórinn hefur eitthvað að segja sem hann/hún vill koma á framfæri þá er ég alltaf til.

16933375_10208339430699533_666679345_n

16931149_10208339430579530_1282937798_o