Útskriftarræða rektors

Friðrik Þór Friðriksson, rektor Kvikmyndaskóla Íslands, flutti þessa ræðu á útskriftardegi skólans laugardaginn 20.febrúar

Ágætu útskriftarnemar og aðstandendur, kennarar og starfsfólk. Ég býð ykkur velkomin til loka útskriftar frá Kvikmyndaskóla Íslands. Útskrift þessi hefði samkvæmt venju átt að fara fram í desember, en vegna Covid þá urðum við að teygja á haustönninni, þannig að útskriftin fer nú fram í febrúar.

 

Dagurinn í dag er dagur útskriftar nemendanna. Þetta hefur ekki verið fyrirhafnarlaust að komast hingað í dag, eftir mjög annasöm tvö ár. En þið höfðuð það, settuð undir ykkur höfuðið og létuð ekkert stöðva ykkur. Í gær frumsýnduð þið útskriftarmyndirnar, í dag megið þið fagna og slappa af og njóta þess að standa á tímamótum.

 

Hvað gæti verið framundan:

 

Vinsælasta kvikmyndin í bíó þessa dagana er “Hvernig á að vera klassadrusla”. Hún hefur laðað að þúsundir áhorfenda. Leikstjórinn og handritshöfundurinn heitir Ólöf Birna Torfadóttir og útskrifaðist úr Handrita- og leikstjórnardeild árið 2016. Fyrstu drögin að handritinu voru gerð á námskeiði í skólanum. Framleiðandinn Óskar Long Hinriksson útskrifaðist frá Leikstjórnar og framleiðsludeild 2019. Kvikmyndatökumaðurinn Magnús Ingvar Bjarnason og hljóðmeistarinn Bergur Líndal eru útskrifaðir frá Skapandi tækni 2016. Aðalleikkonurnar sem vinna leiksigra, eru útskrifaðar frá leiklistardeild Kvikmyndaskólans, Ylfa Marín Haraldsdóttir 2018 og Ásta Júlía Elíasdóttir 2011. Fjölmargir aðrir útskrifaðir eru í lykilstöðum.

 

Skyldum við ekki ætla að það sé líklegt einhver ykkar útskrifuðu í dag verði í sömu sporum eftir 4 til 10 ár, að vera þátttakandi og höfundur að vinsælustu bíómyndinni í bænum. Það er ekki leiðinlegt, segi ég af eigin reynslu. 

 

Það sem við vitum um ykkur sem útskriftarnema byggt á mælingum, er að öll ykkar munuð eitthvað þreifa fyrir ykkur í kvikmyndagerð, 80% munu vinna við fagið og 40 til 50% munu ílengjast í faginu. Það hefur semsagt verið reiknað út að framundan bíði ykkar ýmsir sigrar. En Klassadruslan kennir okkur líka að verðmætin liggja ekki síst í tengslanetinu sem þið hafið komið ykkur upp í Kvikmyndaskólanum,

 

Nú verð ég því miður aðeins að tala um pólítík

 

Kvikmyndaskóli Íslands verður 30 ára á næsta ári. Síðastliðin átta ár hefur skólinn verið fullgildur meðlimur í Cilect, alþjóðasamtökum kvikmyndaháskóla. Á þeim vettvangi hefur skólinn geta borið saman gæði sín við þá bestu í árlegri samkeppni skólamynda, þar sem árangur Kvikmyndaskólans hefur verið góður og jafn.

Í nýrri innra mats skýrslu sem skólinn gaf út í nóvember kemur fram að allar lykilstærðir í gæðakerfi skólans eru jákvæðar, þ.e. atvinnuþátttaka, aðsókn og ánægjustig útskrifaðra, verðlaun og viðurkenningar nemendamynda. Kvikmyndaskólinn hefur haft stúdentspróf sem inntökuskilyrði í skólann frá 2010 og um 80% nemenda eru stúdentar. Meðalaldur nemenda er 24 ár, þannig að í skólanum eru dæmigerðir íslenskir háskólanemar.

 

Kvikmyndaskóli Íslands hefur síðastliðin 10 ár reynt að koma á formlegu samstarfi við bæði Listaháskóla Íslands og Háskóla Íslands. Því hefur ítrekað verið hafnað. Af hálfu Háskóla Íslands liggur hins vegar fyrir skýr yfirlýsing þess efnis að fái Kvikmyndaskólinn háskólaviðurkenningu fyrir sínar diplómur, þá skuli hann koma í samstarf um viðbót til BA gráðu.

 

Það liggur við að það verði að teljast neyðarlegt, hversu erfiðlega íslenskri stjórnsýslu gengur að afgreiða þetta mál, sem er mikið réttlætismál fyrir nemendur.

 

Staðan er semsagt ennþá sú að ráðuneytið er með málið til umfjöllunar.

 

Ég er bjartsýnn á að niðurstaða komi í þetta mál fljótlega og að Kvikmyndaskólinn verði orðinn formlega háskóli fyrir haustið. Ég byggi það á þeirri einföldu staðreynd að mennta- og menningarmálaráðuneytið er í höndum Framsóknarflokksins. Sá flokkur hefur gegnt lykilhlutverki í uppbyggingu kvikmyndaiðnaðarins á Íslandi, allt frá því að Kvikmyndasjóður var stofnaður. Ég veit að Menntamálaráðherra Framsóknarflokksins gætir þess að einn af burðarstólpum kvikmynda- og sjónvarpsiðnaðarins á Íslandi sem Kvikmyndaskóli Íslands er, geti starfað með eðlilegum hætti.

 

Þetta var pólítíkin

 

Við ykkur útskriftarnema segi ég: Verið þið sjálf, verið dugleg og njótið dagsins.

 

Takk fyrir