"Eftirleikir", spennandi verkefni í vinnslu

Það er alltaf ánægjuefni að fá að fylgjast með fyrrum nemendum takast á við fjölbreytt verkefni og eitt þeirra sem nú er í vinnslu er "Eftirleikir", skrifað, framleitt og leikstýrt af Ólafi Einar Ólafarsyni útskrifuðum frá Handrit og Leikstjórn og sigurvegari "Bjarkans", og framleitt og leikið af Andra Frey Sigurpálssyni útskrifuðum frá Leiklist.

"Eftirleikir" er kvikmynd sem hefur verið í bígerð frá 2016. Hugmyndin var að gera kvikmynd með því að skipta ferlinu í þrennt og framleiða hana sem þrjár stórar stuttmyndir, fremur en eina litla kvikmynd. Tökur hófust árið 2017 með 8 daga tökutímabili, því næst var 7 daga tökutímabil árið 2019 og svo loks kláruðust tökur með 10 dögum í lok júní síðastliðnum.

Myndin fjallar um persónur í vítahring hefndar, keðjuverkun sem leiðir áfram yfir tuttugu ár.

Margir fyrrum nemendur Kvikmyndaskólans koma þar við sögu; svo sem Róbert Keshishzadeh en hann er handritshöfundur og skrifaði hluta myndarinnar, Vivian Ólafsdóttir fer með veigamesta aðalhlutverkið í myndinni og Árni Gylfason sá um hljóðupptöku, svo nokkrir séu nefndir, en margir aðilar koma að verkinu á einn eða annan hátt í löngu ferli.

Ekki er kominn sýningardagur á myndina, en hér má njóta kitlu og fylgjumst við spennt með

Eftirleikir