Dagur de’Medici Ólafsson og Daníel Bjarnason eru í Eþíópíu að taka upp fyrir SOS Barnaþorpin

Dagur de’Medici Ólafsson, útskrifaður úr Skapandi tækni og Daníel Bjarnason, útskrifaður úr Leikstjórn og framleiðslu, eru um þessar mundir í upptökum í Eþíópíu undir framleiðslu Skot Productions. Við náðum tali af Degi og fengum að forvitnast um hvað varð þess valdandi að hann valdi sér framtíð í kvikmyndalist og nánari upplýsingar um verkið sem þeir félagar eru að vinna.

 

IMG_8159

Það sem heillar mig helst við kvikmyndagerð er að það eru engar reglur, að geta sýnt fegurðina í því sem ljótt er og gert það sem fagurt er ljótt. Að geta stjórnað tilfinningum áhorfandans með myndavél, hljóði og klippingu. Til þess horfum við á bíó, til þess að komast í annað ástand, finna aðrar tilfinningar…. Ég vil vera sá sem skapar þær tilfinningar.Þegar ég byrjaði í kvikmyndanámi var markmiðið alltaf að vinna sem tökumaður erlendis sem náttúrutökumaður, heimildartökumaður eða stríðsfréttamyndari. Með tímanum breyttust aðstæður og sá draumur vék fyrir öðrum. En þessi ferða-ævintýra-bóla brennur enn í mér. Við Daníel höfum unnið mikið saman og ferðast erlendis fyrir vinnu áður svo það var ekki nokkur spurning um það hvort að ég tæki þetta erfiða verkefni að mér. Einnig finnst mér frábært að geta verið partur af því að opna Barnaþorp í Eþíópíu.

IMG_8156

Dagur og Bjarni eru að vinna saman myndband til að vekja athygli á opnun nýs barnaþorps í Tule Moye fyrir SOS barnaþorpin og eru að upplifa nándina við fátæktina og skortinn sem gerir barnaþorpin svo nauðsynleg og er svo langt frá aðstæðum hér heima á Íslandi.

Það sem kom mér mest á óvart er hvernig fólkið sem við erum að mynda lifir, maður hefur séð myndir og svona frá fátækrasvæðum í Afríku en aldrei hefði mér dottið í hug að ástandið væri svona slæmt. Hefur því ferðin tekið mun meira á andlegu hliðina en þá líkamlegu. Hér eru ótal mæður með 6-12 börn sem að þurfa að vinna á hverjum degi svo að börnin þeirra fái eitthvað að borða, ofast er ekkert til fyrir þær. Hér höfum við hitt börn sem hafa klæðst sömu fötunum í 2-3 ár daglega og eru fötin grá því húsin og umhverfi eru smíðuð úr mold og myndu ekki einu sinni standast skilyrði og reglur um fjós og fjárhús á Íslandi. Hér höfum við verið að keyra framhjá fólki sem gengur 6-10 kílómetra í sinni daglegu vatnsferð sem oft endar með því að þau koma tómhent til baka. Hér eru 90.000 börn á götunni, yfirgefin af foreldrum sínum. Hér deyja fleiri þúsund börn mánaðarlega úr hungri og sýkingum.

IMG_8186

Við vonum að myndin minni fólk á það sem það nú þegar veit, að ástandið hérna er hræðilegt og það er fólk eins og ég og þú hérna sem að lifa skelfilegu lífi. Maður gleymir því á Íslandi, skiljanlega getur maður ekki verið að hugsa um hræðilega hluti allan daginn, en mikið vona ég að fólk sjái myndina og styrki verkefnið til þess að SOS geti byggt þetta þorp sem er svo nauðsynlegt. Eftir 2-3 ár förum við svo aftur að skoða framfarirnar á svæðinu.

Þetta er mikilvægt verk sem þeir eru að vinna og vonumst við til að sjá afraksturinn i náinni framtíð, en ef þið hafið áhuga á að styrkja við starfið bendum við á heimasíðu SOS barnaþorpanna

IMG_8184

IMG_8160

IMG_8158

IMG_8155

IMG_8154

IMG_8048