Birta Rut Tiasha Sigfúsdóttir

Birta Rut Tiasha Sigfúsdóttir útskrifast frá Leiklist með mynd sína “Svona er þetta bara”

Myndin er gamanmynd sem fjallar um stúlku af indverskum uppruna sem er að hitta tengdafjölskyldu sína í fyrsta skiptið. Hægt og rólega kemur í ljós, í gegnum óviðeigandi spurningar, að tengdafjölskyldan er haldin miklum kynþáttafordómum.

Höfundar eru Elín Pálsdóttir, Ingibjörg Jenný Jóhannesdóttir og Birta Rut Tiasha Sigfúsdóttir 

Við fengum að fræðast aðeins meir um Birtu Rut, sem útskrifast þann 12.júní næstkomandi.

Hvaðan kom áhuginn á leiklist og kvikmyndagerð?

"Mig hefur alltaf langað til þess að verða leikkona, alveg frá því að ég var barn. Sem brún lítil stelpa sá ég ekki mikið af leikurum sem litu út eins og ég í íslensku efni, en sem betur fer eru hlutirnir að breytast, og langar mig að sýna krökkum sem líta út eins og ég að allt er mögulegt." 

Kom eitthvað sérstaklega á óvart við námið?

"Það var mikið sem kom mér á óvart, en það sem kom mér hvað mest á óvart var það hvað karakter vinna tók mikið á. Að finna fyrir öllu því sem karakter manns finnur fyrir verður alltaf sérkennilegt. "

Einhverjar skemmtilegar minningar frá náminu?

"Þegar við vorum í tíma með 3. önn og einhver læsti okkur óvart inni í stofu. Það voru allir svo vanir að heyra í okkur öskra að það var engin að pæla í neinu þegar við kölluðum á hjálp." 

Hver eru svo næstu skref, framtíðarplön?

"Mig langar að mennta mig meira í leiklistinni. Planið er að sækja um í Listaháskólanum. Mig langar að leika í bæði sjónvarpi og leikhúsi. "