Auðveldara að fá sýningarrétt á gæðahrollvekjum – Lovísa Lára fær veglegan styrk fyrir Frostbiter

Lovísa Lára Halldórsdóttir hefur haft í mörg horn að líta frá útskrift sinni úr deildinni Handrit/leikstjórn í vorið 2014.

Fyrir utan að hafa verið athafnasöm við kvikmyndagerðina sjálfa hefur hún verið potturinn og pannan í kvikmyndahátíðinni Frostbiter ásamt eiginmanni sínum Ársæli Rafni Erlingssyni en hátið var haldin í fyrsta sinn á Akranesi í fyrrahaust. Nýlega fékk hátíðin veglegan styrk frá Uppbyggingarsjóði Vesturlands. Við fengum Lovísu Láru til að segja okkur frá þýðingu þessa stuðnings við hátíðina.

Styrkurinn hefur mikla þýðingu fyrir hátíðina og sérstaklega fyrir mig. Í fyrra hlutum við einnig styrk frá Uppbyggingasjóði og Kvikmyndamiðstöð Íslands en það voru mikið lægri upphæðir og greiddist því mikið af kostnaði úr mínum eigin vasa. Var því ekki hægt að framkvæma allt sem okkur langaði til.Ég hugsa að meiri hlutinn af styrknum fari í auglýsingar og sýningargjöld. En með hærri styrknum er auðveldara fyrir okkur að kaupa sýningarrétt á gæðahrollvekjum sem hafa verið að gera það gott á hátíðum út um allan heim sem hafa ekki verið sýndar hérlendis.

Lára Lovísa segir að búið sé að opna  fyrir innsendingar á stuttmyndum fyrir hátíðina í haust.

Hægt verður að senda inn myndir til 16. september. Núna erum við, Ársæll Rafn eiginmaður minn bara að horfa á fjöldan allan af hrollvekjum og reyna að velja myndir til þess að sýna á hátíðinni.Við erum einnig að plana ýmsa viðburði eins og fyrirlestra, masterclass, sérstakar sýningar og auðvitað eftirpartýin.

Hjónin hvetja nemendur Kvikmyndaskóla Íslands að senda inn myndir á hátíðina en í fyrra komu nemar skólans að gerð allra myndanna sem valdar voru á hátíðina.

Það er frítt að senda inn íslenskar myndir og það verða veitt verðlaun fyrir þrjár bestu myndirnar.

Hægt er að senda inn í gegn um FilmFreeway en einnig er mögulegt að senda hlekk á myndina ásamt stillramma og úrdrætti á netfangið frostbiterfestival@gmail.com

En hvað er annað að gerast hjá Lovísu Láru þessa dagana?

Ég er að vinna hörðum höndum að eftirvinnslu á fyrstu bíómynd minni í fullri lengd, Týndu Stelpurnar, svo að ég get komið henni í bíó.
Einnig er ég að vinna að því að sækja um styrki til þess að fjármagna næstu bíómynd mína. En sú mynd er spennutryllir um þrjár konur á mismunandi aldri og bakgrunni sem að eiga það allar sameiginlegt að vera ofsóttar af mismunandi tegundum af eltihrellum og ákveða að taka málin í sínar eigin hendur.Einnig er ég að vinna í heimildarmynd um Aukaleikara á Íslandi. En er eins og er að sanka að mér upplýsingum og efni.

Kvikmyndaskóli Íslands óskar þeim hjónum til hamingju með styrkinn og góðs gengis við undirbúning hátíðarinnar og annarra verkefna sinna.

15032480_10153948632622344_1748280677_n