Heitt í kolunum í miðri kuldatíð, enda standa vanir menn í stórræðum

Það er kalt á Íslandi núna og þeir rektor og stjórnarformaður Kvikmyndaskóla Íslands treysta á þjóðlega arfinn í peysuvali. Það er viðeigandi enda eru þetta vanir menn sem ekki kalla allt ömmu sína, eins og fjölmargar sögur, sem þeir segja tíðindamanni Kvikmyndaskólans, bera með sér.

Friðrik Þór Friðriksson og Böðvar Bjarki Pétursson
Friðrik Þór Friðriksson og Böðvar Bjarki Pétursson

Þetta hefur verið mikið álagsmisseri í starfsemi skólans; kennsla í húsnæði í fullum gangi alla stundarskrárdaga, nýtt húsnæði, mikil fjölgun nemenda, grímuskylda og hámarkssóttvarnir vikum saman. Skólinn hefur ekki sloppið við veirutilfelli en hefur tekist að einangra hópa og vinna framhjá vandamálum. En nokkrir nemendur hafa orðið fyrir verulegum óþægindum vegna einangrunar. Nemendur hafa staðið sig mjög vel undir auknu álagi og starfsfólk ekki síður.

Fyrir liggur að fresta þarf útskrift fram í febrúar, að minnsta kosti. Skólinn framleiðir tugi mynda á hverri önn og tekist hefur að ná stórum hluta þeirra í dósir, eins og sagt var hér áður þegar upptökum var lokið og filman klár í framköllun. Ennþá eru nokkrar myndir sem eftir er að skjóta, þar af tvær útskriftarmyndir. Stefnt er að því að setja skólann um miðjan janúar og þá verða nemendur orðnir 120.  Framundan eru því álagsmánuðir en þar sem sköpunargleðin ríkir þá er það eðlilegt ástand og skemmtilegt að fást við.

En það eru ekki einu stórræðin, því í næstu viku hyggst Kvikmyndaskólinn leggja fyrir ráðherra gögn sem sýna að skólinn er tilbúinn að hefja störf sem kvikmyndaskóli á háskólastigi núna í janúar. Þar mun meðal annars verða lagt fram 60 bls tímarit með viðtölum við kennara, nemendur og útskrifaða, auk umfjöllunar um akademíuna og væntanlegt rannsóknarstarf. Mun það framvegis koma út með reglulegum hætti og verða vettvangur faglegrar umræðu í íslenskri kvikmyndagerð. Samhliða verður lögð fram ný kennsluskrá, samræmd númerakerfi HÍ. Einnig skýrsla um nýjar reglur skólans og stefnur auk nýrrar skýrsla um innra mat skólans, sem sýnir niðurstöður úr mati á ýmsum starfsþáttum skólans. 

Allt er þetta gert til að þjóna íslenskum og erlendum stúdentum sem vilja læra kvikmyndagerð eða leiklist. Þetta er líka gert til þess að þjóna atvinnugrein og iðnaði, sem stækkar með veldisvexti á Íslandi og á heimsvísu.

„Geta okkar Íslendinga til að segja sögur er verðmætari auðlind, en allar hinar auðlindirnar samanlagt, lands og þjóðar,“ segir Friðrik Þór Friðriksson leikstjóri og rektor Kvikmyndaskóla Íslands og stjórnarmaður skólans um áratugaskeið. Böðvar Bjarki Pétursson stofnandi skólans, aðalhönnuður og stjórnarformaður frá 1992, kveðst taka undir Gandálfi, eins og hann kallar rektorinn, með það. „Þetta er löngu tímabært,“ bætir hann við.

Alls ekki er ólíklegt að þessum reyndu köppum verði sitthvað úr verki við að virkja þessa auðlind næstu daga og vikur. Við fylgjumst spennt með.

BIH