Ólgusjór fær vilyrði fyrir framleiðslustyrk – Andri Freyr ráðgerir tökur næsta sumar

Andri Freyr Ríkharðsson hefur verið með stuttmyndina Ólgusjó  í vinnslu í tvö ár en hann útskrifaðist úr Kvikmyndaskóla Íslands, Handritum/leikstjorn haustið 2011.

 

Það hefur gengið ágætlega að fjármagna myndina Ólgusjó. Við fengum t.a.m. styrk frá Uppbyggingarsjóði Vesturlands á síðasta ári og nú fyrir stuttu fengum við vilyrði að framleiðslustyrk frá Kvikmyndasjóði Íslands.

Andri Freyr er leyndardumsfullur þegar spurt er eftir söguþræði myndarinnar.

Það ríkír mikil leynd yfir handriti myndarinnar. Eina sem ég get sagt er að hún fjallar um þrjár persónur og gerist á sjó fyrir utan Snæfellsnes á litlum handfærabát.

Búið að ráða í flestar stöður við gerð myndarinnar Ólgusjór og er ráðgert að myndin verði tekin upp næsta sumar.

Ég hef mikil tengsl við sögusviðið. Ég bjó á Snæfellsnesi og faðir minn var á sjó í Breiðafirði. Sagan sjálf er skáldskapur en samt sem áður er hún mér nátengd. Ég vildi ekki gera enn eina myndina sem gerist á sjó og fjallar um veðurháska. Ég vildi skrifa mynd um fólk sem vinnur saman alla daga, persónur sem hrærast í litlu rými og oft í langan tíma. Í þannig aðstæðum kynnist fólk raunverulega. Þar vakna líka spurningar hvort það sé hægt að halda einhverju leyndu og hvort fólk eigi e.t.v. samleið.

Tveir aðrir útskrifaðir nemendur úr Kvikmyndaskóla Íslands gegna veigamiklu hlutverki í að gerð myndarinnar.

Ásþór Aron Þorgrímsson og Unnsteinn Garðarsson eru framleiðendur myndarinnar undir merkjum framleiðslufyrirtækisins Behind the Scenes. Ég leitaði beint til þeirra eftir að handritsskrifum lauk og hafa þeir reynst mér afar vel.

Leikara og aðra starfskrafta við gerð myndarinnar hyggjast þeir félagar kynna síðar en sem stendur býr Andri Feyr í Kaupmannahöfn.

Ég er hér að hefja skrif á handriti að kvikmynd í fullri lengd sem verður vonandi tilbúið á næsta ári.