Lokaðu augunum. Hvað sérðu fyrir þér? Ávarp Hrafnkels Stefáns í vorbæklingi

Hrafnkell Stefánsson, deildarstjóri Handrita/Leikstjórnar var með skemmtilegt ávarp í útskriftarbæklingi vorannar hjá Kvikmyndaskólanum.

 

Lokaðu augunum. Hvað sérðu fyrir þér? Álfa og dverga berjast saman gegn illum vættum? Geimfara sem uppgötvar óvænta leyndardóma á tunglinu? Systkini sem uppgötva að fataskápurinn þeirra er dyr að leyndum ævintýraheimi? Dularfullt morð og bitran rannsakanda sem verður að leysa málið?  Misheppnað stefnumót sem virðist engan enda ætla að taka? Eða þögul átök fjölskyldu í matarboði?

 

Öll höfum við látið hugann reika, leyft ímyndunaraflinu að taka tauminn frá dagsins amstri og leiða okkur inn á nýjar og spennandi slóðir. Þegar við sleppum ímyndunaraflinu lausu og leyfum okkur að njóta barnslegrar gleði sköpunar má með sanni segja að við séum öll höfundar um stund.

 

Hvort sem um ræðir handritshöfund, leikstjóra eða hvort tveggja undir sama hatti, þá er það þessi barnslega gleði sem leiðir höfundinn áfram í för sinni að umbreyta hugmyndinni sem aðeins hann gat séð áður, hjálpa henni að þroskast og dafna þar til loks stendur eftir heildstætt verk sem aðrir geta fengið að njóta.

 

Við Handrita- og leikstjórnardeild Kvikmyndaskóla Íslands er megináherslan lögð á höfundinn. Hvort sem hann er hugsuðurinn sem líður best í ímyndunarheimi sínum, leiðtoginn með sýnina eða sitt lítið af hvoru, viljum við gefa næstu kynslóð af höfundum öll þau tól og tæki sem þeir þurfa til að þroskast og dafna sem slíkir. Við viljum metnaðarfulla, hugmyndaríka og vinnusama nemendur inn í skólann og að tveimur árum liðnum sjá þá útskrifast sem sjálfstæða listamenn, færir um að gera hugmyndir sínar að veruleika. Leyfa öðrum að sjá það sem einungis þú gast séð áður.

 

Á þessum tveimur árum í skólanum læra nemendur að tileinka sér vinnuferla leikstjóra og handritshöfunda og öðlast reynslu með því að leikstýra og skrifa kvikmyndaverk. Samhliða þessu sitja þeir námskeið í öllum helstu undirstöðuatriðum kvikmyndagerðar, þ.á.m. framleiðslu og myndrænni frásögn og fá auk þess grunnkennslu í tækni og tækjanotkun.

 

Að loknu námi við Handrita- og leikstjórnardeild eiga nemendur að hafa öðlast þann þroska og sjálfsaga til að sitja löngum stundum við handritsskrif. Þeir hafa þá öðlast þá mikilvægu reynslu að hafa séð hugmyndir sínar verða að alvöru verkum sem leikstjórar. Þeir útskrifast því sem reyndir höfundar tilbúnir að takast á við allar þær spennandi áskoranir sem bíða í ört vaxandi kvikmyndiðnaði hér á landi, hvort sem það er við gerð sinna eigin verkefna, störf innan veggja hinna fjölmörgu framleiðslufyrirtækja landsins eða áframhaldandi nám á erlendri grund. Því þegar þú hefur beislað krafta ímyndunaraflsins, standa þér allar dyr opnar.

 

Lokaðu augunum. Og segðu mér hvað þú sérð.

 

Hrafnkell Stefánsson

Deildarforseti Handrita- og leikstjórnardeildar