Leggur áherslu á að nemendur læri að gagnrýna og taka gagnrýni – Ottó Geir Borg kennir við KVÍ

Ottó Geir Borg er einn af reynsluboltunum úr faginu sem kenna við Kvikmyndaskóla Íslands en hann er virkur handritshöfundur hér á landi og hefur komið að fjölda kvikmyndaverkefna á liðnum árum. Við fengum hann til að segja lítillega frá sjálfum sér og kennslu sinni í Kvikmyndaskólanum.

Fyrstu skref mín í kennslu voru árið 2006/7 þegar ég kenndi kvikmyndasögu og myndmál. En eftir að ég hóf starf mitt sem þróunarstjóri hjá Zik Zak Kvikmyndum þá hafði ég því miður ekki tíma til þess. Árið 2014 ákvað ég að gerast freelance og þá hafði Hrafnkell samband við mig og bað mig að kenna nokkra kúrsa og þar sem hann er enn að hringja þá býst ég við að ég sé ekki að skila of slæmu dagsverki.

Ottó Geir segist leitast við að fá nemendur til að vera þátttakendur í kennslunni eftir fremsta megni.

Enda læra þau mest af því að framkvæma, rita og ræða. Ég krefst mikils af nemendunum og legg mikla verkefnavinnu á þau á meðan á námskeiðum stendur. Ég legg líka mikið upp úr jákvæðri endurgjöf þannig að nemendurnir sjálfir læri að gagnrýna og taka gagnrýni sem er mikilvægt veganesti fyrir lífið innan bransans.

 

Ottó Geir er þekktastur fyrir störf sín sem handritshöfundur en hann hefur komið að kvikmyndum á borð við Astrópíu, Gauragangi og Brimi.

Að auki hef ég tekið þátt í gerð tveggja  Áramótaskaupa. Nú nýverið kláraðist Ég Man Þig í tökum og það verður spennandi að sjá afraksturinn. Síðustu ár hef ég aðallega fengist við aðlaganir á íslenskum og erlendum skáldsögum og reynt að sérhæfa mig í því. Fyrir utan að skrifa hef ég aðstoðað við handritsþróun á fjölda íslenskra og erlendra verkefna.

Með uppgangi í íslenskri kvikmyndagerð segir Ottó Geir hlutverk Kvikmyndaskólans stöðugt eflast.

Skólinn gegnir með hverju árinu veigameira hlutverki í íslenskri kvikmyndagerð. Núverandi og fyrrverandi nemendur skólans vinna í flestum verkefnum hér á landi og eru oft í lykilstöðum. Stuttmyndir og kvikmyndir eftir nemendur hafa unnið til verðlauna bæði hér- og erlendis. Það er virkilega gaman að taka þátt í þessari þróun. Tenging við Háskóla Íslands verður líka enn ein rósin í hnappagat skólans og mun gera námið enn verðmætara.

Ottó Geir vinnur um þessar mundir sem meðhöfundur á kvikmyndahandriti sem byggt á bók Gunnars Helgasonar, Víti í Vestmannaeyjum.

Einnig er ég að aðlaga skáldsögu Óskar Guðmundssonar “Hilma”  skrifa fjölskyldumynd með Kristínu Helgu Gunnarsdóttur, sjónvarpsþætti með Dögg Mósesdóttur, aðlagaði “Svar við Bréfi Helgu” með Bergsveini Birgissyni og síðan eru það öll hin verkefnin sem ég má ekki ræða um. Ég kvarta ekki yfir verkefnaskorti.

Hann er því með mörg járn í eldinum auk kennslustarfanna.

Verkefni klárast aldrei fyrr en á frumsýningu og stundum ekki einu sinni þá. Ég Man Þig er núna í klippiferli og það sem ég hef séð er ég virkilega ánægður með. Í klippiferlinu, eins og í tökuferlinu, á sér stað ný sköpun og það er  óskandi að sá uppdráttur sem við Óskar skrifuðum styðji við sýn hans sem leikstjóra svo úr verði hryllilega góð mynd.