Útskriftarræða Rektors Vor 2024

Rekstor Kvikmyndaskólans, Hlín Jóhannesdóttir, hélt þessa ræðu við útskrift skólans þann 1. júní

Kæru útskriftarnemar og aðstandendur, kennarar, starfsfólk og stjórnendur. Aðrir gestir.

Verið hjartanlega velkomin til útskriftar hjá Kvikmyndaskóla Íslands vorið 2024.

Þetta eru tímamót fyrir ykkur, svo sannarlega, enda eru breytingarnar, sem þið hafið upplifað í ykkar lífi frá því að þið hófuð hér nám þar til að þið ljúkið því svo glæsilega hér og nú, ærið miklar leyfi ég mér að trúa. Óhætt er að fullyrða að námið við Kvikmyndaskóla Íslands er heilmikil þrekraun fyrir hvern og einn, en það eitt að ljúka þessu námi staðfestir að viðkomandi sómir sér vel í kvikmyndagerð. Eins og við vitum sem hér erum þá eru gerðar afar ríkar kröfur um að nemendur bæði standi sig í sínu persónulega námi en jafnframt að nemendur standi sig gagnvart samnemendum og þeim verkefnum sem þau takast á hendur í hóp. Vel gert svo sannarlega. Enginn kemst að þessu marki nema á eigin verðleikum. 

Hápunkturinn er síðan að gera fullbúna útskriftarmynd. Útskriftarmyndin ykkar er persónulegt kvikmyndaverk sem staðfestir hæfni ykkar til að vera drifkraftar í kvikmyndagerð. Á sama tíma sannið þið ykkur sem faglegir listamenn á ykkar sérsviðum, hvort sem það er leikstjórn, skapandi tækni, handritsgerð eða leiklist. Metnaðurinn þarf líka að vera mikill því viðmiðin eru há. Í árlegri alþjóðlegri samkeppni kvikmyndaháskóla um bestu útskriftarmyndina, hefur Kvikmyndaskólinn skorað hátt síðastliðinn áratug. Þar að auki hafa útskriftarmyndir nemenda komist inn á hátíðir, fengið verðlaun og verið sýndar í sjónvarpi.

Við hverja útskrift kemur það okkur starfsfólkinu hjá Kvikmyndaskólanum jafn mikið á óvart hversu mikil gæði eru í myndunum ykkar, miðað við hvað þær eru gerðar við þröng skilyrði. Gleymið ekki að við sem störfum við Kvikmyndaskólann, erum meira og minna öll að vinna úti í bransanum þar sem hlutir ganga mishratt og eiginlega alltaf of hægt fyrir sig. En innan Kvikmyndaskólans eru nemendur að brjóta lögmál tímans misseri eftir misseri með framleiðslu kvikmynda, sem miðað við tímamörk, mannskap, magn og gæði, á ekki að vera hægt að búa til. Við erum löngu búin að átta okkur á því að þeir nemendur sem ná alla leið til útskriftar búa yfir einurð og úthaldi til að glíma stöðugt við að leysa það ómögulega. Eins og sannar hetjur.

Kvikmyndaskóli Íslands er merkileg stofnun og ég leyfi mér að fullyrða, lykilþáttur í faglegum uppgangi kvikmyndagerðar á Íslandi um áratuga skeið. 


Þið sem eruð hér að útskrifast eigið fjölmarga möguleika. Reglubundnar mælingar sýna að fyrrum nemendur Kvikmyndaskólans eru afar áberandi í kvikmyndaframleiðslu hér á landi, hvort heldur það er í bíómynda framleiðslu, hjá sjónvarpsstöðvunum, stóru kvikmyndafyrirtækjunum eða í einhverjum af fjölmörgum sprotum sem hafa orðið til. Mælingar sýna líka að mjög hátt hlutfall útskrifaðra, eða yfir 90%, spreytir sig í greininni að loknu námi og nálægt 50% festir sig í sessi, sem er mjög hátt hlutfall úr lista akademíu.

Kvikmyndageirinn hefur eflst gríðarlega frá því að skólinn var stofnaður, en þá skapaði hann um 300 ársverk. Í dag eru ársverk í kvikmyndaiðnaði og afleiddum störfum 4-6 þúsund. Öflugur

þjónustuiðnaður hefur skapast í kringum erlend kvikmyndafyrirtæki, en Íslendingar slá líka heimsmet á hverju ári með fjölda frumsýndra innlendra bíómynda miðað við margfræga höfðatölu. 

Í framtíðinni er ekkert fráleitt að sjá fyrir sér að íslenskur kvikmyndaiðnaður geti orðið 10 þúsund

ársverka atvinnugrein og iðnaðurinn geti fest sig í sessi meðal mest gjaldeyrisskapandi atvinnugreina þjóðarinnar.

Þessi staða hefur ekki orðið til af sjálfu sér. Þar koma til nokkrir mikilvægir grunnpóstar.  Einn af þeim er jafnt og stöðugt streymi fagfólks frá Kvikmyndaskóla Íslands.

Kvikmyndaskóli Íslands er stofnun sem í rúm 30 ár hefur stutt við bakið á þeim sem vilja leggja

kvikmyndafagið fyrir sig og nú, kæru nemendur, útskrifist þið héðan og breiðið út vængina til móts við möguleikana sem eru fyrir hendi, þeir eru margvíslegir og spennandi. 

Til hamingju með daginn kæru nemendur, takk fyrir samfylgdina og gangi ykkur sem allra best.

Við fylgjumst með ykkur með hlýju og stolti.