EKKO stefna

1. Inngangur og markmið

 1. Markmið forvarnar- og viðbragðsáætlunar er að tryggja að úrræði séu til staðar og stuðla að forvörnum og verkferlum í samræmi við ákvæði laga og reglugerð nr. 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri og kynbundinni áreitni, sem og annað ofbeldi (hér eftir nefnd EKKO) á vinnustöðum.

  Kvikmyndaskólinn vill skapa starfsumhverfi og menningu þar sem starfsfólki líður vel. Slíkt er gert með markvissu forvarnarstarfi, skýrum verkferlum og stuðningi. EKKO verður undir engum kringumstæðum umborið og eru allar ábendingar um slíkt teknar alvarlega. Í EKKO tilvikum skal fylgja eftirfarandi viðbragðsáætlun (sjá lið 3).

2. Forvarnir

 1. Í forvarnarstarfi er lögð áhersla á að skapa aðstæður/menningu sem eykur vellíðan nemenda og starfsfólks og tryggir öryggi þeirra. Eftirfarandi atriði eru höfð til hliðsjónar í forvarnarstarfi:

  ● Endurskoða skilvirkni aðgerðaráætlunar með reglulegu millibili og að loknu EKKO máli ef slíkt kemur upp.

  ● Fræða starfsfólk og nemendur um einkenni, afleiðingar og verkferla EKKO á tveggja ára fresti eða eftir þörfum ef EKKO mál kemur upp á starfsstöð.

  ● Verkferlar EKKO séu sýnilegir og aðgengilegir nemendum og starfsfólki á miðlum vinnustaðar (innri vef).

3. Fagráð um viðbrögð við EKKO málum

 1. Sérstakt fagráð sem skipað er þremur einstaklingum mun taka við, fjalla um og meðhöndla tilkynningar sem til þess er beint frá einstaklingum og/eða aðilum innan skólasamfélagsins og falla undir þær skilgreiningar sem tilgreindar eru í 5. lið hér að neðan. Skólaráð skipar ráðið og skal það vera skipað tveimur utanaðkomandi aðilum sem hafa faglega þekkingu sem nýtist í málefnum sem þessum og einum starfsmanni skólans. Stjórn Kvikmyndaskólans skal samþykkja skipun ráðsins. Formaður ráðsins skal vera annar tveggja utanaðkomandi fulltrúa. Skipunartími ráðsins er þrjú skólaár. Við endurnýjun í ráðið skal þess gætt að ekki verði skipt um alla fulltrúa samtímis.

  Hlutverk fagráðsins er að taka við og rannsaka kvartanir og tilkynningar um brot starfsmanna eða nemenda skólans, veita yfirmönnum náms- eða starfseininga/r og aðilum máls umsögn um þær og koma með tillögur til úrbóta eftir því sem við á. Fagráðið skal einnig vera yfirstjórn til ráðgjafar um fyrirbyggjandi aðgerðir gegn brotunum.

  Við tilnefningar í fagráðið skal gætt að ákvæðum laga nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Ráðið skal halda til haga tölfræðilegum upplýsingum um mál sem berast fagráðinu og afhenda þær skólaráði.

4. Viðbragðsáætlun

 1. Starfsfólk og nemendur Kvikmyndaskólans bera sameiginlega ábyrgð á því að stuðla að öruggu starfs- og námsumhverfi. Ef starfsfólk eða nemendur hafa orðið fyrir, orðið vitni að, eða hafa rökstuddan grun um að EKKO hafi átt sér stað, skal hann upplýsa sinn næsta yfirmann, kennara, starfsmannastjóra eða starfsmann sem viðkomandi treystir. Einnig getur starfsfólk leitað til trúnaðarmanns og nemendur til stjórnarmanna KÍNEMA til að koma á framfæri upplýsingum eða leita ráðgjafar um næstu skref. Þá geta nemendur og starfsfólk einnig leitað beint til einhvers af þeim sem skipa fagráð skólans. Nemendur og starfsfólk eru hvött til að láta vita af stórum sem smáum atvikum, en slíkt eykur öryggi vinnuumhverfis.


  Skilgreindir viðbragðsaðilar í málefnum EKKO eru: Skólaráð Kvikmyndaskólans og fagráð um kynbundna og kynferðislega áreitni og ofbeldi.


  Hlutverk stjórnenda er að bregðast við slíkum málum án tafar, meta í samráði við tilkynnanda í hvaða ferli mál þurfa að fara og tryggja að unnið sé eftir samþykktri viðbragðsáætlun. Hver sá sem tekur við tilkynningu eða ábendingum skal umsvifalaust vísa erindinu til formanns fagráðsins sem tekur málið til faglegs mats, um þá tilkynningu gildir fullur trúnaður og þagmælska.


  Frekari meðferð málsins fer eftir því hverju viðkomandi þolandi óskar eftir. Ef um brot er að ræða sem talið er að falli undir ákvæði almennra hegningarlaga skal þolanda bent á að beina málinu til meðferðar hjá lögregluyfirvöldum. Ákvörðun er þó alltaf á hendi þolanda og mun viðkomandi hljóta aðstoð frá fagráðinu eftir því sem óskað verður. Ef ákveðið er að vísa máli til lögreglu aðhefst ráðið ekki frekar í því.

 2. Þegar fagráði berst kvörtun eða tilkynning um brot skal ráðið boða viðkomandi sem kvartað er yfir á fund ráðsins og kanna afstöðu til kvörtunar eða tilkynningar. Berist tilkynning frá öðrum en viðkomandi sem talið er að hafi orðið fyrir broti, boðar ráðið viðkomandi sem talið er að hafi orðið fyrir broti á fund sinn og kannar afstöðu til tilkynningar. Að loknum viðtölum við aðila málsins ákveður ráðið hvort taka skuli málið til formlegrar meðferðar.


  Sé ákveðið að taka mál til formlegrar meðferðar tilkynnir ráðið til yfirmanna hlutaðeigandi aðila ef þörf er talin á. Í framhaldi skulu yfirmenn grípa til viðeigandi ráðstafana varðandi náms- eða vinnutilhögun. Skulu yfirmenn, að höfðu samráði við fagráðið, grípa til nauðsynlegra ráðstafana 3 varðandi náms- eða vinnutilhögun aðila málsins. Reynt skal að ná sáttum um vinnutilhögun meðan málið er í skoðun.


  Fagráðið skal kanna málið til hlítar meðal annars með því að ræða við hlutaðeigandi aðila og eftir atvikum aðra sem geta hjálpað við að skýra málið. Fagráð skal bjóða viðkomandi sem talið er að hafi orðið fyrir broti sérfræðiaðstoð sálfræðings, félagsráðgjafa eða annars meðferðaraðila með sérþekkingu á umræddum brotum. Óski viðkomandi eftir að kæra mál til lögreglu skal fagráðið aðstoða viðkomandi við það eftir þörfum.


  Þegar fagráð hefur lokið rannsókn málsins kynnir það niðurstöður sínar hlutaðeigandi aðilum, ásamt yfirmönnum þeirra með formlegri umsögn. Komist fagráðið að þeirri niðurstöðu að brot hafi átt sér stað skal það gera tillögur að viðbrögðum til stjórnar skólans sem tekur endanlega ákvörðun í samráði við starfsmannastjóra og/eða náms- og starfsráðgjafa til hvaða úrræða réttast er að grípa.

5. Skilgreiningar

 1. Forvarnar- og viðbragðsáætlun þessi byggir á skilgreiningum reglugerðar nr. 1009/2015, 3.gr. á einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.

 2. Einelti er síendurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda honum ótta. Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir. Dæmi um birtingarform eineltis:

  ● Að starf, hæfni og verk viðkomandi eru lítilsvirt

  ● Að draga að ástæðulausu úr ábyrgð og verkefnum

  ● Að gefa ekki nauðsynlegar upplýsingar

  ● Misnotkun, t.d. með því að neyða viðkomandi til að sinna endurtekið erindum sem falla ekki undir verksvið hans eða láta hann hafa of fá eða of mörg verkefni

  ● Særandi athugasemdir

  ● Rógur eða útilokun frá félagslegum og faglegum samskiptum

  ● Að skamma viðeigandi eða gera hann að atlægi

  ● Fjandskapur eða þögn þegar spurt er eða fitjað uppá samtali

  ● Lítilsvirðandi texti í tölvupósti eða öðrum skriflegum sendingum

  ● Óþægileg stríðni

  Hvernig viðtakandi tekur móðgun eða ótilhlýðilega háttsemi til sín er grundvallaratriði í sambandi við einelti. Því skiptir ekki öllu hvort að baki býr hugsunarleysi eða ákveðinn vilji til að auðmýkja. Hver og einn verður sjálfur að meta hvaða framkomu hann umber frá hverjum og segja frá sé honum misboðið. Lögð er áhersla á að athæfi þess sem framkvæmir er síendurtekið ef um einelti er að ræða.

 3. Kynferðisleg áreitni er hvers kyns kynferðisleg hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg.

  Kynbundin áreitni er hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi. Áreitnin getur verið líkamleg, orðbundin eða táknræn. Eitt tilvik getur talist kynbundin áreitni ef það er alvarlegt. Dæmi um kynferðislega áreitni og kynbundna áreitni:

  Líkamlegt

  ● Káf, þukl og aðrar óvelkomnar snertingar

  ● Hrista, slá, sparka, bíta eða rassskella

  ● Óvelkomin faðmlög, kossar, klapp eða strokur

  ● Að fara inn fyrir persónulegt rými einstaklings, s.s. með því að halla sér að/yfir eða króa af enda sé hegðunin óvelkomin

  ● Viðkomandi beitir líkamlegu afli til að fá sínu framgengt

  Orðbundið

  ● Klámfengið tal, móðganir af kynferðislegu tagi, blístur og hróp

  ● Óviðeigandi spurningar um kynferðisleg málefni

  ● Vafasamar eða niðurlægjandi athugasemdir eða brandarar um útlit, líkama eða klæðnað viðkomandi

  ● Tilboð og kröfur um kynferðisleg samskipti sem ekki er óskað eftir

  ● Yrtar hótanir/þvinganir til kynferðislegra samskipta

  ● Hótanir eða ógnandi hegðun

  Táknræn

  ● Gláp, kynferðisleg hljóð eða hreyfingar

  ● Óvelkomnar kynferðislegar augngotur eða önnur hegðun sem gefur eitthvað kynferðislegt til kynna

  ● Sýna eða senda kynferðislegt efni s.s. gegnum SMS, tölvupóst eða á samfélagsmiðlum

  ● Að hengja upp plaköt, dagatöl eða myndefni sem innihalda kynferðislegt efni eða niðurlægja út frá kyni.

  Með hugtakinu kynferðislegt ofbeldi er átt við brot gegn kynfrelsi einstaklings sem lýst eru refsiverð í XXII. kafla almennra hegningarlaga.

 4. Ofbeldi er hvers kyns hegðun sem leitir til, eða gæti leitt til, líkamslegs og sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir henni verður, einnig hótum um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis, bæði í einkalífi og á opinberum vettvangi.

6. Gildistaka

 1. Þessi áætlun öðlast gildi við staðfestingu stjórnar skólans og skal endurskoðuð reglulega, eða annað hvert ár hið minnsta.

  Áætlunin skal vera sýnileg og aðgengileg á ytri vef skólans og kynntar reglulega nemendum og starfsfólki.