Útskriftar ræða Rektors - 16.desember, 2023

Við hátíðlega athófn hélt Rektor skólans, Hlín Jóhannesdóttir, ræðu fyrir útskriftar nemendur okkar

Kæru útskriftarnemar. 

Nú komið er að útskrift hjá Kvikmyndaskóla Íslands haustið 2023.

Þetta eru tímamót hjá ykkur kæru nemendur og ég veit að þið eruð eftirvæntingarfull því nú hefst nýr kafli á ykkar ferli. Ég er viss um að undanfarin tvö ár hafa sýnt ykkur að þið hafið afl og burði sem þið vissuð jafnvel ekki af og hafið hugsanlega fundið mikilvægan lykil, en meira um það á eftir.

Og nú erum við hér.

Það er hetjudáð að ná þessum áfanga, að útskrifast frá Kvikmyndaskóla Íslands. Síðustu tvö árin hafa verið rússíbanareið, þar sem kröfurnar á ykkur hafa verið miklar og hvert og eitt þurft að skila sínu, því engin kemst hingað nema á eigin verðleikum.

Hápunkturinn er síðan að gera fullbúna útskriftarmynd.

Útskriftarmyndin ykkar er persónulegt kvikmyndaverk sem staðfestir hæfni ykkar til að vera drifkraftar í kvikmyndagerð. Á sama tíma sannið þið ykkur sem faglegir listamenn á ykkar sérsviðum, hvort sem það er leikstjórn, skapandi tækni, handritsgerð eða leiklist. Metnaðurinn þarf líka að vera mikill því viðmiðin eru há. Í árlegri alþjóðlegri samkeppni kvikmyndaháskóla um bestu útskriftarmyndina, hefur Kvikmyndaskólinn skorað hátt síðastliðinn áratug. Þar að auki hafa útskriftarmyndir nemenda komist inn á hátíðir, fengið verðlaun og verið sýndar í sjónvarpi. Við hverja útskrift kemur það okkur starfsfólkinu hjá Kvikmyndaskólanum jafnmikið á óvart hversu mikil gæði eru í myndunum ykkar, miðað við hvað þær eru gerðar við þröng skilyrði. Gleymið ekki að við sem störfum við Kvikmyndaskólann, erum meira og minna að vinna úti í bransanum þar sem hlutir ganga mishratt og eiginlega alltaf of hægt fyrir sig. En innan Kvikmyndaskólans eru nemendur að brjóta lögmál tímans misseri eftir misseri með framleiðslu kvikmynda, sem miðað við tímamörk, mannskap, magn og gæði, á ekki að vera hægt að búa til. Við erum löngu búin að átta okkur á því að þeir nemendur sem ná alla leið til útskriftar búa yfir einurð og úthaldi til að glíma stöðugt við að leysa það ómögulega. Eins og sannar hetjur.

Kvikmyndaskóli Íslands er merkileg stofnun og ég leyfi mér að fullyrða, lykilþáttur í faglegum uppgangi kvikmyndagerðar á Íslandi um áratuga skeið. Kvikmyndaskóli Íslands hélt upp á 30 ára afmæli sitt í fyrra en skólinn var stofnaður árið 1992. Á þessu ári eru 20 ár liðin síðan skólinn fékk formlega viðurkenningu stjórnvalda á sérsviði sínu sem tveggja ára diplómanám í kvikmyndagerð. Núverandi fjögurra deilda kerfi var komið á árið 2007 og hefur því verið við lýði í 16 ár. Hlutverk skólans hefur alla tíð verið annars vegar að þjónusta íslensk ungmenni sem vilja mennta sig í kvikmyndagerð, og hins vegar að þjónusta kvikmyndafyrirtækin og stuðla að uppbyggingu iðnaðarins. Þið sem eruð hér að útskrifast eigið fjölmarga möguleika. Reglubundnar mælingar sýna að fyrrum nemendur Kvikmyndaskólans eru afar áberandi í kvikmyndaframleiðslu hér á landi, hvort heldur það er í kvikmyndaframleiðslu, hjá sjónvarpsstöðvunum, stóru kvikmyndafyrirtækjunum eða í einhverjum af hinum fjölmörgum sprotum sem hafa orðið til. Mælingar sýna líka að mjög hátt hlutfall útskrifaðra, eða yfir 90%, spreytir sig í greininni að loknu námi og nálægt 50% festir sig í sessi, sem er mjög hátt hlutfall úr listaakademíu.

Kvikmyndageirinn hefur eflst gríðarlega frá því að skólinn var stofnaður, en þá skapaði hann um 300 ársverk. Í dag eru ársverk í kvikmyndaiðnaði og afleiddum störfum 4-6 þúsund. Öflugur þjónustuiðnaður hefur skapast í kringum erlend kvikmyndafyrirtæki, en Íslendingar slá líka heimsmet á hverju ári með fjölda frumsýndra innlendra bíómynda miðað við margfræga höfðatölu. Í framtíðinni er ekkert fráleitt að sjá fyrir sér að íslenskur kvikmyndaiðnaður geti orðið 10 þúsund ársverka atvinnugrein og iðnaðurinn geti fest sig í sessi meðal mest gjaldeyrisskapandi atvinnugreina þjóðarinnar.

Þessi staða hefur ekki orðið til af sjálfu sér. Þar koma til nokkrir mikilvægir grunnpóstar. Einn af þeim er jafnt og stöðugt streymi fagfólks frá Kvikmyndaskóla Íslands. Árið 2005 byrjaði skólinn að vinna í núverandi mynd og til dagsins í dag, þ.e. með ykkur meðtöldum, þá hafa útskrifast 814 nemendur frá skólanum. Að meðaltali hafa útskrifast tæplega 50 nemendur á ári frá árinu 2009. Þessir nemendur hafa skilað sér út í greinina og ég fullyrði að hlutur Kvikmyndaskólans í uppbyggingu hennar er töluverður. Ekki bara til að anna eftirspurn um stöðurnar þarna úti heldur líka af því að í skólanum myndið þið samfélag og búið til tengslanet. Þannig drífið þið áfram vöxtinn, haldið áfram eftir útskrift – framkvæmið og hjálpið vinum ykkar að framkvæma sín kvikmyndaverk.

Þannig verða kraftaverkin til.

Eftir útskrift haldið þið áfram að byggja upp persónulegan feril, kannski með frekari menntun, vinnu hjá öðrum, eða með því að drífa bara í að búa til bíó og sjónvarpsefni. Þannig gerið þið ykkur verðmæt fyrir íslenskt atvinnulíf, en ekki síst menningu.

Aðeins að öðru.

Af viðurkenningarmálum Kvikmyndaskólans og staðfestingu á háskólastarfsemi skólans þá er þess vænst að því ferli fari að ljúka. Skólinn fékk frábæra niðurstöðu í alþjóðlegri úttekt síðastliðið haust. Í apríl skilaði skólinn inn aðgerðaáætlun vegna ábendinga sem komið höfðu frá hinum erlendu sérfræðingum. Kvikmyndaskólinn hefur starfað að fullu samkvæmt háskólaregluverki frá árinu 2021 og heldur úti fjórum rannsóknarstöðum.

Að auki verður að nefna að við Kvikmyndskóla Íslands eru nú skráðir 26 erlendir nemendur. Þessir nemendur koma frá Bandaríkjunum, Frakklandi, Grikklandi, Indlandi, Írak, Ítalíu, Kína, Mexíkó, Nepal, Nígeríu, Pakistan, Spáni, Sýrlandi, Túnis og Þýskalandi. Markmiðið er að fjöldinn verði kominn yfir 100 innan þriggja ára og verði þá jafnstór og hópur íslenskumælandi nemenda við skólann.

Beiðnir skólans til stjórnvalda eru að afgreiðslu verði lokið nú fyrir áramót og ég hef fulla trú á að hinn kraftmikli háskólaráðherra Áslaug Arna láti nú hendur standa fram úr ermum með að ljúka þessu máli. Við munum funda með stjórn Kínema nú fyrir áramót og fara nánar yfir stöðuna.

Að lokum segi ég við ykkur útskriftarnemar. Þetta er ykkar dagur. Njótið hans í botn.