Birgir Jarl Rúnarsson - Leiklist

Birgir Jarl Rúnarsson mun útskrifast frá Leiklist með mynd sína “Einn, einn, tveir”

Leynilögregla með drykkjuvandamál rannsakar morð á manni, fljótlega kemur í ljós að þetta mál er dýpra en virðist við fyrstu sýn

Hver er fyrsta kvikmynda upplifunin sem þú manst eftir og hafði áhrif á þig?

Tæknilega séð var fyrsta kvikmynda upplifunin mín úr heimildamyndinni “Walking with Monsters – Life Before Dinosaurs”, sem útskýrir mögulega áhuga minn á öllu sögu tengdu, en fyrsta kvikmynda upplifunin mín hlýtur að vera frá “Kung Fu Hustle” sem að pabbi minn hafði leigt, held að ég hafi verið u.þ.b. 4 eða 5 ára þegar ég sá hana og er enn til dagsins í dag ein af mínum uppáhalds, sú mynd hefur haft áhrif á leikinn minn og húmorinn minn frá því að ég var krakki.

Hvað heillar þig við kvikmyndagerð?

Það sem heillar mig helst við kvikmyndagerð er það að kvikmyndagerð er samvinna, það þurfa allir að vinna vel saman sem hópur annars á það eftir að sjást einhverstaðar í myndinni að ekki var allt með vissu, allir þurfa að leggja 100% í myndina og hafa sömu eða svipaða sjón fyrir myndinni, annars verður hún misheppnuð á einn hátt eða annan.

 

Hvers vegna varð Leiklist fyrir valinu?

Ég hef alltaf haft gaman að því að detta inn í karaktera frá því að ég var ungur, tók þátt í mörgum skólaleikritum, æfði sönglist og einn daginn fékk ég prufu fyrir myndina “The Secret Life of Walter Mitty”. Það hefur alltaf verið draumurinn að komast í eitthvað stórt hlutverk og gera það sem maður elskar að starfinu sínu, síðan er bara svo helvíti skemmtilegt að leika sér því leiklist er listin að því að leika.

Kom þér eitthvað sérstaklega á óvart í náminu?

Það sem kom mér mögulega á óvart í náminu er hversu mikið af hæfileikaríku fólki er í þessum skóla, bara á önninni minni er fólk sem maður getur alveg séð fyrir sér að leikstýra eða leika í einhverri rosalegri mynd, og það er bara á minni önn, svo ég tali ekki um hinar annirnar og hæfileikaríka fólkið sem þar er og þá hugsar maður hversu mikið af hæfileikaríku fólki er þarna úti, allir með sína hæfileika, þetta snýst bara um það að láta þá skína.

Og hvernig lítur svo framtíðin út?

Erfið spurning, en ég myndi segja að það er auðvitað bara að fara í prufur, skrá sig hjá umboðsstofu, flytja út, kynnast konu, giftast konu, eignast börn, lífið verður erfitt, vera rekinn úr starfinu mínu, fá stóra tækifærið, fá Óskarinn, koma heim, konan að halda framhjá mér, við skiljum, það er mjög erfitt fyrir tvö börnin okkar, ég held áfram að leika, verð 65 ára, ákveð að hætta að leika, kaupi mér lóð og byggi bóndabæ, lifi þar næstu tíu árin þar til að ég dey úr hjartaáfalli 75 ára (held ég).