Nýr aðstoðar rektor ráðinn

Dr. Sigrún Sigurðardóttir, dósent á Heilbrigðisvísindasviði við Háskólann á Akureyri, hefur verið ráðin sem aðstoðarrektor Kvikmyndaskóla Íslands frá 1. september næstkomandi. Alls bárust 35 umsóknir um starfið og 5 voru metnir vel hæfir. Aðstoðarrektor er ný staða við skólann sem ætlað er að styrkja innri stjórnun í skólahaldi og að styrkja akademiska virkni í yfirstjórn skólans, nú þegar háskóla viðurkenning Kvikmyndaskólans og uppbygging alþjóðlegs háskóla er í fullum gangi.

Þess má geta að rektorsstaðan er alltaf skipuð einstaklingum úr hópi reynslumikilla kvikmyndagerðarmanna. Kvikmyndaleikstjórar hafa þar fyrsta rétt. Núverandi rektor skólans er Friðrik Þór Friðriksson sem nýverið gerði fimm ára samning við skólann.

Sigrún Sigurðardóttir er þaulreyndur, framsækin og vinsæll háskólakennari um margra ára skeið. Með mikla kunnáttu sem skipuleggjandi og hönnuður námskeiða og námsleiða, sem hefur reynslu af akademiskri umgjörð, matskerfum og ráðningum.

Sigrún er doktor í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands. Sérsvið hennar er á sviði sálrænna áfalla, ofbeldis og áfallamiðaðrar nálgunar. Hún hefur unnið mjög mikilvægt frumkvöðlastarf á sínu sviði. Sigrún var ein af stofnendum og fyrsti formaður Krabbameinsfélags Sigurvonar á Norðanverðum Vestfjörðum. Sigrún var ein af stofnendum Rannsóknarmiðstöðvar gegn ofbeldi við Háskólann á Akureyri árið 2011 og situr þar í stjórn. Hún situr í stjórn Bjarmahlíðar, miðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis á Akureyri. Hún var einnig annar af stofnendum Samtaka um stuðningssetur fyrir ungt fólk, sem stofnuð voru í september 2018. Hún tók þátt í þróun fagvinnu fyrir opnun Bergsins Headspace og var formaður fagráðs. Bergið Headspace, úrræði fyrir ungt fólk opnaði að Suðurgötu 10 og sinnir nú ríkri þörf. Verkefnið er fjármagnað í samvinnu fimm ráðuneyta. Sigrún er núverandi stjórnarformaður samtakanna.

Sigrún hefur birt, ein og í samvinnu, fimmtán ritrýndar fræðigreinar frá árinu 2009 til 2019. Hún situr í doktorsnefndum nemenda, er og hefur verið leiðbeinandi á tugum BS/BA og  meistarprófsritgerða. Frá 2012 hefur hún kennt og þróað námskeið, og haldið ráðstefnur við Háskólann á Akureyri. Námskeið hennar á meistarastigi, “Sálræn áföll og ofbeldi”, er eitt fjölmennasta og vinsælasta námskeiðið í framhaldsnáminu við HA.

Sigrún hefur reynslu af alþjóðlegu samstarfi á sínu sviði og er í samstarfi í norðurslóðaverkefnum og tengslanetum. Hún hefur mikla reynslu af fjarkennslu og sveigjanlegu námi. 

Að lokum verður að nefna að Sigrún var ein af þeim hugrökku konum sem fóru í lögreglunám þegar kvenlögregluþjónar voru ekki margir. Hún útskrifaðist sem lögregluþjónn frá Lögregluskóla Ríkisins árið 1993 og starfaði um árabil sem lögreglukona í upphafi síns starfsferils.

Sigrún Sigurðardóttir og Böðvar Bjarki Pétursson, Stjórnarformaður Kvikmyndaskólans

Það er Kvikmyndaskóla Íslands mikill heiður að viðurkennd og framsækin háskólakona og frumkvöðull eins og Sigrún Sigurðardóttir skuli vilja helga skólanum krafta sína. Henni er tekið fagnandi af nemendum, starfsfólki og stjórnendum, kennurum og leiðbeinendum.

Skólinn vill þakka öllum þeim sem sóttu um starfið og þeim sem sáu um ráðningarferlið.